Báðir voru þeir staddir á leik íslenska karlalandsliðsins gegn Bosníu-Hersegóvínu í undankeppni EM 2024. Ísland vann dramatískan 1-0 sigur með marki Alfreðs Finnbogasonar í uppbótartíma.
Guðni var auðvitað í heiðursstúkunni en Valtýr sat fyrir neðan á meðal blaðamanna.
Á einum tímapunkti í leiknum klikkaði Jón Dagur Þorsteinsson á algjöru dauðafæri sem fékk ástríðufullan Valtý til að stökkva úr sæti sínu í blaðamannastúkunni. Guðni sá sér þá gott til glóðarinnar, en þessu var til að mynda lýst í Innkastinu á Fótbolta.net.
„Valtýr var alveg trylltur yfir að boltinn hafi ekki farið inn. Guðni forseti spyr hann hvort hann hefði ekki skorað úr þessu. Valtarinn svaraði því játandi, að hann hefði skorað með annað hvort höfðinu eða rassinum. Guðni fór að skellihlæja,“ sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í Innkastinu.
Sem betur fer reyndist klúður Jóns Dags ekki of dýrkeypt því sem fyrr segir skoraði Alfreð svo sigurmark leiksins.