Luis Suarez er á leið til Inter Miami í Bandaríkjunum. Þetta hefur legið í loftinu og segir Fabrizio Romano í dag að skiptin séu við það að ganga í gegn.
Suarez, sem er 36 ára gamall, var síðast hjá Gremio og kemur á frjálsri sölu til Inter Miami.
Félagið er í eigu David Beckham og með því spilar Lionel Messi.
Messi og Suarez eru miklir mátar en þeir léku saman með Barcelona í sex ár.
Fleiri fyrrum liðsfélagar Suarez frá tímanum hjá Barcelona eru einnig á mála hjá Inter Miami, þeir Jordi Alba og Sergio Busquets.
Suarez skrifar undir eins árs samning í Miami.