Marcelo Bielsa þjálfari Úrúgvæ segir að meiðsli í læri hafi verið ástæða þess að Darwin Nunez var tekinn af velli í sigri á Ekvador í gær.
Nunez hafði verið frábær nokkrum dögum áður þegar Úrúgvæ vann góðan sigur á Síle, þar lagði hann upp tvö mörk.
Hann var hins vegar tekinn af velli í hálfleik í gær sem gætu verið slæm tíðindi fyrir Liverpool.
„Darwin var tæpur í lærinu fyrir leikinn og það varð til þess að hann gat ekki spilað meira,“ segir Bielsa.
Nunez hefur verið öflugur í upphafi tímabils og spilað betur en hann gerði á sínu fyrsta tímabili á Anfield.
Nunez kom til Liverpool frá Benfica þar sem hann hafði raðað inn mörkum en Jurgen Klopp hefur trú á því að hann detti í gírinn á þessu tímabili.