Newcastle 1 – 2 Liverpool
1-0 Anthony Gordon(’25)
1-1 Darwin Nunez(’81)
1-2 Darwin Nunez(’93)
Það fór fram svakalegur leikur í ensku úrvalsdeildinni í dag er Liverpool heimsótti Newcastle á St. James’ Park.
Um var að ræða leik í þriðju umferð deildarinnar og þá síðasta leik dagsins og helgarinnar.
Newcastle byrjaði af miklum krafti og komst yfir með marki á 25. mínútu er Anthony Gordon skoraði laglegt mark.
Ekki löngu síðar fékk Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, að líta beint rautt spjald og útlitið afskaplega gott fyrir heimamenn.
Það breyttist allt saman á 77. mínútu er Darwin Nunez fékk tækifærið í sóknarlínu Liverpool en hann kom inná fyrir Cody Gakpo.
Nunez þakkaði traustið og skoraði tvö góð mörk fyrir Liverpool á 81. mínútu og það seinna á 93. mínútu til að tryggja sigur.
Tíu menn Liverpool því með gríðarlega góðan sigur á sterku liði Newcastle og úrslit sem koma í raun verulega á óvart eftir mjög erfiða byrjun.