Það er möguleiki á að aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar fái skemmtilegan glaðning á næstu leiktíð.
Enskir miðlar greina frá þessu í dag en um er að ræða breytingu á útsendingu í sjónvarpi þegar kemur að VAR.
Möguleiki er á því að áhorfendur fái að heyra í dómara leiksins ræða við VAR dómarana, eitthvað sem margir hafa kallað eftir.
VAR dómgæslan á Englandi hefur oft verið mjög umdeild og eru margir oft hissa þegar sumar ákvarðanir eru teknar.
Dómari hvers leiks fyrir sig er ávallt með VAR herbergið í eyranu en nú gætum við fengið að hlusta á samtalið sem á sér stað þeirra á milli.
Það væri mikill glaðningur fyrir knattspyrnuaðdáendur en VAR hefur svo sannarlega boðið upp á umdeilda dóma á þessari leiktíð.