David Alaba hefur orðið fyrir aðkasti eftir að hann kaus Lionel Messi sem leikmann ársins í karlaflokki á verðlaunahátíð FIFA í gær.
Messi var í gær valinn sem leikmaður ársins á verðlaunahátíð FIFA. Þjálfarar og fyrirliðar landsliða, auk íþróttafréttamanna, kjósa.
Alaba er fyrirliði austurríska landsliðsins og kaus hann Messi. Hann setti Karim Benzema í annað sætið og Kylian Mbappe í þriðja.
Þetta eru stuðningsmenn Real Madrid allt annað en sáttir með. Alaba er leikmaður liðsins og Messi er goðsögn hjá erkifjendunum í Barcelona. Þeir vildu sjá Alaba kjósa liðsfélaga sinn Benzema bestan.
Alaba hefur orðið fyrir aðkasti og meðal annars verið beittur kynþáttaníði. Hann segir hins vegar í yfirlýsingu að austurríska landsliðið hafi tekið ákvörðun um valið saman.
„Allir í liðinu geta kosið og þannig var þetta valið.
Allir vita hversu mikið ég kann að meta Karim. Ég hef oft sagt að mér finnist hann vera besti framherji í heimi og ég stend við það. Á því liggur enginn vafi.“