Sergio Aguero, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður Argentínu vísar ummælum Svíans Zlatan Ibrahimovic, í garð argentínska landsliðsins og hegðunar leikmanna þess eftir úrslitaleik HM í fyrra, til föðurhúsanna.
Sænska knattpyrnugoðsögnin Zlatan Ibrahimovic er allt annað en sáttur með hegðun leikmanna argentínska landsliðsins, fyrir utan Lionel Messi, eftir að liðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn með sigri á Frökkum í Katar undir lok síðasta árs.
Í viðtali á dögunum spáði hann því að Argentínumenn muni ekki vinna neitt framar með núverandi leikmannahóp sinn.
„Messi er talinn vera besti leikmaður sögunnar, ég var handviss um að hann myndi vinna heimsmeistaratitil. Það sem mun gerast í kjölfarið er að Kylian Mbappé (stórstjarna Frakka) mun vinna heimsmeistaratitil, ég hef engar áhyggjur af honum,“ sagði Ibrahimovic í samtali við France Inter. „Ég hef áhyggjur af hinum í argentínska landsliðinu vegna þess að þeir munu ekki vinna neitt framar. Messi hefur unnið allt, fólk mun minnast hans, en allir hinir sem hegðuðu sér illa, við getum ekki liðið þá.“
Þessi ummæli Zlatans fóru öfugt ofan í Sergio Aguero, fyrrum atvinnu- og landsliðsmanns Argentínu sem sagði Svíann bara hafa átt að segja það hreint út að hann hefði viljað að Frakkar myndu vinna HM.
Það stingi í augun að Zlatan tjái sig um slæma hegðun knattspyrnumanna.
,,Þú spilaðir, líkt og ég, á háu gæðastigi. Við skulum hafa það í huga að þú hefur ekki verið barnanna bestur á þínum knattspyrnuferli.“
Aguero finnst það dónalegt af Zlatan að halda því fram að Argentína muni ekki vinna stórmót framar.
,,Áður en þú hefur áhyggjur af okkar landsliði myndi ég nú frekar hafa áhyggjur af þínu landsliði og leikmönnum þess sem hafa ekki einu sinni tekið þátt á undanförnum heimsmeistaramótum.“
Fagnaðarlæti argentínska landsliðsins í kjölfar sigursins á HM í Katar varð til þess að Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA ) hóf rannsókn á hegðun liðsins eftir sigurinn. Markvörðurinn Emiliano Martinez var staðinn að því að hæðast svívirðilega að Frökkum, sér í lagi Mbappé og þá þóttu fagnaðarlæti hans, eftir að hann fékk Gullhanskann sem besti markvörður HM, hneykslun.