Eiginkona brasilíska knattspyrnumannsins Dani Alves, sem nú situr í fangelsi á meðan að rannsókn á meintu kynferðisbroti hans fer fram, tjáir sig nú í fyrsta skipti opinberlega eftir að Alves var handtekinn.
Hin 29 ára gamla Joana Sanz er eiginkona Alves en í færslu á samfélagsmiðlum segist hún hafa misst tvær stoðir í sínu lífi á aðeins nokkrum dögum.
Þannig er mál með vexti að nokkrum dögum fyrir handtöku Dani Alves lést móðir Joana en hún hafði verið að berjast við krabbamein. Joana hefur áður gagnrýnt heilbrigðisyfirvöld í heimalandi móður hennar fyrir sinnuleysi er við kom hennar umönnun og í nýjustu færslu sinni biður hún um að einkalíf sitt sé virt.
„Ég bið fjölmiðla sem eru að bíða fyrir utan heimili mitt að virða friðhelgi einkalífs míns. Móðir mín lést fyrir viku og ég er rétt byrjuð að meðtaka þá staðreynd að hún sé ekki lengur hjá mér þegar að ég byrja að kveljast yfir aðstæðum eiginmanns míns. Ég hef misst einu tvær stoðirnar í mínu lífi.“
Dani Alves situr nú í fangelsi grunaður um kynferðisofbeldi gegn konu á skemmtistað. Rannsókn á málinu stendur yfir en brot Alves er sagt hafa átt sér stað á skemmtistað í Barcelona en Alves lék um árabil með knattspyrnufélagi borgarinnar.