Helgi Seljan, blaðamaður á Stundinni, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut á föstudögum. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs.
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur mikið verið í umræðunni í kringum Heimsmeistaramótið í Katar.
„Þessi gæi. Ég veit ekki hvað maður á að segja. Er vonlaust að mynda einhvers konar samtök knattspyrnufólks án þess að það verði eitthvað vesen og klúður? Hann er búinn að klúðra þessu ævintýralega,“ segir Helgi.
FIFA hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að leyfa Katar að halda HM. Þá hefur Infantino sjálfur hlotið mikla gagnrýni og þótt taktlaus.
„Að ákveða að taka þessa heitu kartöflu og troða henni ofan í kokið á sér eins og þarna.“
Hörður tók til máls og telur Katar hafa keypt sér umfjöllun ákveðins fjölmiðlafólks.
„Ég held að Katar sé búið að kaupa Piers Morgan. Það er bara tekið viðtal við fólk sem talar vel um land og þjóð.“