Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu blandar sér í mál málanna hjá KSÍ í dag þar sem rætt og ritað hefur verið um það af hverju leikmenn úr A-landsliði karla mæta séu ekki færðir í U21 árs landsleik í kvöld.
A-landsliðið mætir Albaníu í Þjóðadeild karla og getur ekki unnið riðil sinn á meðan U21 árs liðið er í umspili um laust sæti á EM.
Sjö leikmenn sem gjaldgengir eru í U21 liðið eru í A-landsliðinu en Arnar Þór Viðarsson þjálfari A-liðsins tók þá ákvörðun að halda í þá leikmenn.
U21 liðið tapaði heimaleiknum 1-0 en mætir liðinu á útivelli í kvöld. Víðir blandar sér í málið. „Síðustu daga hefur verið kallað eftir því að leikmenn úr A-landsliði karla í fótbolta verði færðir yfir í 21-árs landsliðið fyrir seinni umspilsleikinn gegn Tékkum í dag, í stað þess að spila með A-liðinu gegn Albaníu. Þar með aukist möguleikarnir á því að 21-árs liðið komist í lokakeppni EM í annað skiptið í röð sem yrði sannarlega glæsilegur árangur,“ skrifar Víðir í Morgunblaðið.
Víðir veltir því þó fyrir sér hvort málið sé hugsað alla leið af þeim sem kalla eftir þessu.
„En hafa þeir sem kallað hafa eftir þessu hugsað málið alla leið? Strákarnir sem hafa spilað þessa undankeppni með 21-árs liðinu og staðið sig frábærlega, eiga þeir allt í einu að víkja í síðasta leiknum fyrir mönnum sem hafa alls ekki verið í liðinu eða hópnum?“
„Og hvað ætti þá að gera á næsta ári ef leikurinn ynnist og Ísland kæmist í lokakeppnina? Ættu þá A-landsliðsmennirnir að halda áfram og fara þangað í stað strákanna sem unnu að langmestu leyti fyrir keppnisréttinum á mótinu?“
Grein Víðis má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.