Lokaumferðin í ensku úrvalsdeildinni fer fram á morgun. Manchester City er á toppi deildarinnar með stigi meira en Liverpool sem stendur. Síðarnefnda liðið þarf að treysta á það að City misstigi sig gegn Aston Villa og klára verkefni sitt gegn Wolves á sama tíma.
Liverpool-goðsögnin Steven Gerrard er stjóri Villa og Philippe Coutinho, fyrrum leikmaður Liverpool, er þá á mála hjá félaginu.
Stuðningsmenn Liverpool vonast til þess að þessir fyrrum leikmenn félagsins aðstoði það á morgun.
„Ég hugsa bara um nýja félagið mitt. Mig langar að standa mig fyrir það,“ sagði Coutinho.
Hann segir ekki hugsa mikið um skilaboð frá stuðningsmönnum Liverpool. „Ég hef fengið fjölda skilaboða frá stuðningsmönnum Liverpool en ég skoða þau ekki mikið. Ég einbeiti mér bara að okkar leikjum.“
Coutinho kom til Villa á láni frá Barcelona í janúar og gekk svo endanlega í raðir félagsins á dögunum.