Fjórir leikir fóru fram í 2. deild karla í gærkvöldi. Leikirnir voru hluti af þriðju umferð deildarinnar.
Knattspyrnufélag Austfjarða, KFA, tók á móti Völsungi. Tómas Atli Björgvinsson kom heimamönnum yfir á 18. mínútu. Rafnar Máni Gunnarsson jafnaði fyrir Völsunga eftir tæpan klukkutíma leik. Lokatölur 1-1.
Völsungur er á toppi deildarinnar með sjö stig, jafnmörg og Ægir. KFA er með tvö stig.
Ægir gerði þá góða ferð á Suðurnesin er liðið heimsótti Reyni Sandgerði. Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Ægismönnum yfir á 26. mínútu. Cristofer Moises Rolin innsiglaði svo 0-2 sigur þeirra með marki af vítapunktinum undir lok leiks.
Ægir er sem fyrr segir í öðru sæti deildarinnar en Reynir er enn án stiga.
Þróttur Reykjavík vann mjög sterkan sigur á ÍR á heimavelli sínum. Kostiantyn Pikul kom þeim yfir á 37. mínútu. Sam Hewson tvöfaldaði forystuna eftir rúman klukkutíma leik. Bergvin Fannar Helgason minnkaði muninn fyrir ÍR á 70. mínútu en nær komust þeir ekki. Lokatölur 2-1.
Þróttur er með sex stig í fimmta sæti en ÍR er sæti neðar með fjögur.
Loks tók Magni á móti Hetti/Huginn í markaleik. Matheus Bettio Gotler kom gestunum yfir á 11. mínútu. Rafael Alexandre Romao Victor tvöfaldaði forystu þeirra á 43. mínútu. Rétt fyrir leikhlé minnkaði Kristófer Óskar Óskarsson muninn fyrir Magna. Kristófer var aftur á ferðinni með mark snemma í seinni hálfleik og jafnaði fyrir heimamenn. Hann gerði svo sigurmarkið úr vítaspyrnu eftir klukkutíma leik og fullkomnaði þrennu sína, sem og frábæra endurkomu Magna. Lokatölur 3-2.
Magni er í sjöunda sæti með þrjú stig en Höttur/Huginn er á botninum án stiga.