Knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson fór aftur í hjartastopp á knattspyrnuvellinum en nú á æfingu með FH. Frá þessu greina norskir miðlar.
Emil hefur undanfarið æft með FH en hann fór fyrst í hjartastopp í leik í Noregi seint á síðasta ári.
„Þetta eru slæm tíðindi, í síðustu viku fór ég aftur í hjartastopp á æfingu þegar ég var á Íslandi,“ segir Emil við TV 2 í Noregi.
Þann 1 nóvember á síðasta ári var Emil endurvakinn eftir að hafa farið í hjartastopp með Sogndal þar sem hann var á láni. Planið var að þessi 28 ára gamli leikmaður færi til Noregs á næstunni og myndi byrja að æfa með Sarpsborg 08 en þar er hann samningsbundinn.
Emil hafði fengið grænt ljós lækna til að byrja aftur en bakslagið kom á æfingu með FH í síðustu viku „Ég er mjög vonsvikinn. Þetta var eitthvað sem ég hélt ekki myndi gerast aftur,“
„Í fyrra skiptið var ég mjög ánægður með það að vera á lífi, en í þetta skiptið voru þetta aðeins meiri vonbrigði. Ég var á svo góðum stað og tilbúinn að fara aftur í fótboltann,“ útskýrir Emil.
Hann mun gangast undir rannsóknir vegna málsins. „Þetta var frekar svipað. Það hlýtur að vera eitthvað að hjarta mínu.“
Gangráður var þræddur í Emil á síðasta ári og hjálpar hann að setja hjarta Emils aftur af stað.
„Þegar þetta gerist tvisvar verður það erfitt að komast aftur í fótboltann. En ég útiloka það ekki strax. Þetta gerðist nýlega og ég get ekkert fullyrt um framtíðina núna. Ég þarf að huga að heilsunni og reyna að fá að vita hvað veldur.“