Edinson Cavani, framherji Manchester United er verulega ósáttur við þá ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar að banna leikmönnum að fara í landsleiki í næsta mánuði ef löndin eru á rauðum lista.
Hann deildi skjáskoti af yfirlýsingu ensku úrvalsdeildarinnar á Instagram síðu sinni og lét fylgja með þrjú spurningamerki og gaf þar í skyn að hann væri ósáttur með þessa ákvörðun. Cavani mun eins og málin standa ekki fá að taka þátt í leikjum Uruguay gegn Perú, Bolivíu og Ekvador.
Klúbbarnir í ensku úrvalsdeildinni funduðu saman í vikunni þar sem ákveðið var að banna þeim leikmönnum sem ætla að ferðast til landa sem eru rauð hvað varðar sóttvarnaraðgerðir. Þeir sem koma frá rauðum löndum til Bretlands þurfa að fara í 10 daga sóttkví og gætu leikmenn því misst af tveimur leikjum í deildinni.
Vonir standa þó til þess að ríkisstjórnin geri undanþágu og leyfi þessum leikmönnum að ferðast og koma aftur án þess að fara í sóttkví.