Íþróttafréttamaðurinn Alex Crook er allt annað en hrifinn af stefnu Norwich City. Hann sakar félagið um að vera markmiðalaust og hafa engan áhuga á því að halda sér í efstu deild.
Norwich er nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Liðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni í ár, 0-3 gegn Liverpool og 5-0 gegn Manchester City.
Crook ræddi stöðu Norwich á talkSPORT í gær.
,,Hvað er Norwich? Er þetta félag sem vill reyna að halda sér í deildinni? Eru þeir félag sem er tilbúið til þess að flakka á milli ensku úrvalsdeildarinnar og B-deildarinnar?“
Crook sakar Norwich um að flakka meðvitað á milli deilda og þiggja svo svokallaðar fallhlífargreiðslur sem greiddar eru til félaga sem falla úr ensku úrvalsdeildinni. Þetta er í fjórða sinn sem Norwich kemur upp í ensku úrvalsdeildina á undanförnum áratug. Í hin skiptin hefur liðið fallið strax aftur í B-deildina.
,,Mér finnst þeir í raun vera að svindla á kerfinu. Þeir koma upp og eyða ekki mikið af pening. Þeir eyddu minna en einni milljón punda síðast þegar þeir voru í ensku úrvalsdeildinni. Þeir voru aldrei að fara að halda sér uppi á þeim pening. Svo fóru þeir aftur niður, enduðu í efstu fjórum sætunum í B-deildinni, komust upp, notuðu fallhlífarpeninginn. Mér finnst eitthvað bogið við þetta.“
,,Þeir hafa engan metnað til að halda sér uppi. Það er meira eins og að þeir séu að fá leikmenn fyrir B-deildina á næstu leiktíð.“
Norwich seldi stjörnuleikmann sinn frá því á síðustu leiktíð, Emiliano Buendia, til Aston Villa fyrr í sumar fyrir 40 milljónir punda. Crook segir að félagið væri vel tilbúið til þess að selja fleiri af betri leikmönnum liðsins.
,,Þeir seldu Buendia. Hafa þeir eytt þeim pening? Nei. Þeir myndu selja Todd Cantwell, ef ekki í sumar þá allavega ef þeir falla næsta vor.“
,,Þeir eru neðstir eins og er. Þeir munu enda þar og verða líklega fallnir í febrúar. Svo munu þeir gera þetta allt aftur og örugglega vinna B-deildina á næstu leiktíð. Mér finnst þetta markmiðalaus stefna,“sagði Crook að lokum.