FC Kaupmannahöfn hefur staðfest komu Andra Fannars Baldurssonar til félagsins frá Bologna á Ítalíu. Um er að ræða lán út tímabilið.
FCK hefur hins vegar klásúlu um að kaupa Andra ef lánið heppnast vel. Andri Fannar er 19 ára gamall en hann gekk í raðir Bologna frá Breiðabliki árið 2019.
„Andri hefur mikla hæfileika á miðsvæðinu,“ sagði Peter Christiansen yfirmaður knattspyrnumála hjá FCK.
„Hann er tæknilega góður og góður í taktík, hann kemur með þessa íslensku kosti sem við þekkjum. Hann er duglegur og leggur mikið á sig.“
Andri Fannar verður í treyju númer 18 hjá FCK en hann hefur spilað 15 leiki fyrir Bologna í Seriu A, þá á Andri fjóra A-landsleiki að baki.