Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, hefur hrósað Erling Haaland, framherja Borussia Dortmund, í hástert en neitaði að segja til um hvort hann ætlaði að reyna að krækja í framherjann. Haaland er einn eftirsóttasti framherji heims, en Man City, Man Utd, Chelsea, Real Madrid, Barcelona og Bayern Munchen eru öll sögð hafa áhuga á honum.
Norðmaðurinn hefur skorað 85 mörk á tveimur tímabilum með Dortmund og Klopp sagði að ungstirnið væri gríðarlegt efni.
„Drengurinn býr yfir gríðarlegum hæfileikum og þróar með sér sína eigin orku,“ sagði Klopp í samtali við Bild TV. „Hann er ótrúlega spennandi og skemmtilegur leikmaður.“
Þegar Klopp var spurður hvort hann ætlaði að reyna að klófesta leikmanninn sagði hann: „Ég er ekki með símanúmerið hans.“
Heimildir frá Spáni herma að Haaland gæti yfirgefið Dortmund í janúar næstkomandi. Haaland er með klásúlu í samning sínum við Dortmund sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið fyrir 64 milljónir evra. Klásúlan var sögð virk næsta sumar en nú er talið að hún gæti orðið virk í janúar sem gæti ýtt undir baráttu á milli stærstu klúbba Evrópu um kaup á Norðmanninum unga.