Aron Jóhannsson verður frá næsta hálfa árið ef marka má fréttir frá Póllandi en hann leikur með Lech Poznan þar í landi. Fótbolti.net greinir frá.
Aron meiddist í leik með varaliði félagsins á dögunum, hann hafði skorað tvö mörk í fyrri hálfleik en þurfti svo að fara af velli.
Aron axlarbrotnaði og fór einnig úr axlarlið, fram kemur í pólskum fjölmiðlum að framherjinn verði frá í allt að hálft ár.
„Aron hefur hafið endurhæfingu sína, hann er meiddur. Hann kemur til baka þegar hann er klár,“ sagði Maciej Skorza, þjálfari félagsins.
Samningur Arons við Poznan er á enda í lok árs og því óvíst hvort hann spili aftur fyrir pólska félagið.