Treyjur PSG hafa selst eins og heitar lummur eftir að Lionel Messi gekk í raðir félagsins. Félagið hefur selt treyjur fyrir meira en 100 milljónir punda með nafni Messi aftan á.
Það er ekki bara PSG og Messi sem græða á þessu en PSG leikur í Air Jordan treyjum sem Nike sér um að framleiða. Michael Jordan á þá línu og er hún afar vinsæl.
Jordan fær 5 prósent af öllum tekjum PSG af varningi sem félagið selur úr vörulínu Air Jordan, hann hefur því tekið heim rúmar 5 milljónir punda eftir að Messi gekk í raðir PSG.
Jordan hefur því grætt 874 milljónir íslenskra króna á því að Messi hafi gengið í raðir PSG, þessi fyrrum körfuboltamaður er sterk efnaður.
Auðæfi Jordan eru metin á 2,1 milljarð dollara en lækkuðu aðeins á síðasta ári vegna heimsfaraldurs. Messi gæti hjálpað til við að rétta skútuna af.