James Ward-Prowse, fyrirliði Southampton hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við félagið. Ward-Prowse er 26 ára gamall en hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðalið Southampton þegar hann var 16 ára.
Hann hefur spilað 323 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 33 mörk.
„Ég er himinlifandi,“ sagði Ward-Prowse. „Ég er líklega hamingjusamasti maður í heimi akkúrat núna.“
Ward-Prowse var valinn í 33 manna hóp enska landsliðsins fyrir EM í sumar en komst ekki í lokahópinn. Southampton maðurinn átti frábært tímabil í fyrra og var orðaður við önnur félög í sumar, þar á meðal Tottenham.
„Ég er gríðarlega stoltur af því að skuldbinda mig við félagið, og nýr kafli hefst núna,“ sagði hann. „Þetta er líklega í fyrsta sinn á ferlinum sem ég hef verið orðaður við önnur lið, en ég var ólmur í að funda með félaginu og það gekk í báðar áttir. Verki mínu er ekki lokið. Ég á margt inni og vil leiða þetta lið og tryggja að ég geri allt í mínu valdi til að endurgjalda trúna sem félagið hefur sýnt mér síðan ég var átta ára gamall.“