fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
433Sport

15 ár frá kraftaverkinu ótrúlega

Victor Pálsson
Mánudaginn 25. maí 2020 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímavélin:

Hvar varst þú þegar Liverpool tókst hið ómögulega í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2005? Leikirnir gerast ekki mikið eftirminnilegri en þessi en í leiknum tókst Liverpool að snúa taflinu við gegn AC Milan eftir að hafa lent 3-0 undir í fyrri hálfleik. Á aðeins sjö mínútna kafla skoruðu Liverpool-menn þrjú mörk, leikurinn fór í framlengingu og Liverpool sigraði á dramatískan hátt í vítaspyrnukeppni. Vægast sagt ógleymanleg endurkoma.

Um kvöldmatarleytið þann 25. maí árið 2005 flautaði spænski dómarinn Manuel Mejuto Gonzáles til leiks í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í blíðskapar veðri í höfuðborg Tyrklands, Istanbúl. Rúmlega 72 þúsund manns voru saman komnir á Atatürk Olympic Stadium til að horfa á leik Liverpool og AC Milan og Celsius-mælirinn góði sýndi 18 gráður.

Þetta var í sjötta sinn í sögunni sem Liverpool komst í úrslit Meistaradeildarinnar en AC Milan var hins vegar spila sinn tíunda úrslitaleik. Fyrir leik var lið AC Milan talið sigurstranglegra enda liðið skipað ótrúlega reyndum mönnum á borð við Paolo Maldini, Clarence Seedorf og Cafú, svo einhverjir séru nefndir.

Spænski knattspyrnuþjálfarinn Rafa Benitez stjórnaði Liverpool liðinu á þessum tíma en í leiknum spilaði hann leikkerfið 4-4-1-1. Það þótti koma á óvart að Ástralinn Harry Kewell byrjaði leikinn en hann var látinn spila fyrir aftan Milan Baros í framlínu liðsins. Þetta þýddi það að Dietmar Hamann þurfti að sætta sig við að byrja leikinn á bekknum en Þjóðverjinn átti þó eftir að koma inná sem ansi dýrmætur varamaður í hálfleik. Fyrirliði liðsins var að sjálfsögðu Englendingurinn Steven Gerrard, sem spilaði á miðjunni með Xabi Alonso, en hann ásamt Jamie Carragher voru einu Englendingarnir í byrjunarliði Liverpool þennan daginn. Finnski turninn Sami Hyypiä var á sínum stað í vörn Liverpool og Jerzy Dudek stóð í búrinu. Vinstri hlið Liverpool liðsins var óneitnlega ekki sú sterkasta í Evrópu á þessum tíma en Djimi nokkur Traoré tók að sér bakvörðinn og Norðmaðurinn John Arne Riise sá um kantinn. Hægri hliðin var hins vegar spænsk-írsk með þá Steve Finnan og Luis García.

Lið Carlo Ancelotti skartaði hins vegar þessari fínu tígulmiðju – Seedorf, Kaká, Pirlo og Gattuso. Liðskerfið var 4-4-2 en uppi á toppi var að sjálfsögðu að finna Úkraínumanninn Andriy Shevchenko en á þessum tíma var Shevchenko einhver allra heitasti framherji heims. Miklar vangaveltur höfðu verið fyrir leik um hver myndi byrja frammi með Úkraínumanninum, hvort það yrði Jon Dahl Tomasson eða Filippo Inzaghi. Ancelotti ákvað hins vegar að byrja með Hernán Crespo, sem á þessum tíma var á láni hjá AC Milan frá Chelsea. Pippo Inzaghi var ekki einu sinni í hóp. Reynslan í öftustu línu AC Milan var vægast sagt lygileg – sjálfur reynsluboltinn Paolo Maldini, landi hans Nesta, Hollendingurinn fljúgandi, Jaap Stam og Brasilíumaðurinn geðþekki, Cafú. Landi hans Dida sá svo um að verja markið. Alls fjórir Ítalir voru í byrjunarliði AC þetta kvöldið og fyrirliði liðsins var að sjálfsögðu ellismellurinn Paolo Maldini.

Liverpool-menn fengu blauta tusku beint í andlitið strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Maldini kom AC Milan yfir en þar var ítalska veislan rétt að byrja. Óhætt er að segja að AC Milan hafi gjörsamlega yfirspilað enska liðið í fyrri hálfleik og vægast sagt pínlegt að horfa uppá yfirburðina. Hernan Crespo þakkaði Ancelotti pent fyrir traustið með því að skora tvö mörk með fimm mínútna millibili rétt yfir hálfleik. Harry Kewell var ekki alveg jafn kurteis við sinn þjálfara því hann fór útaf meiddur á 23. mínútu leiksins en í stað hans kom Tékkinn Vladimír Smicer. Kaká hafði vægast sagt farið á kostum í fyrri hálfleik en sendingar hans voru jafn hættulegar og þær voru nákvæmar og sá hann tvívegis til þess að Crespo kom boltanum í netið.

Eitthvað þurftu Liverpool menn að gera í hálfleiknum, það var ljóst, enda liðið 3-0 undir. Benitez brá á það ráð að taka Steve Finnan útaf en í hans stað kom inná Þjóðverjinn Hamann. Spánverjinn breytti jafnframt um leikskipulag, fór í þriggja manna vörn og bætti í sóknina. Ekki er vitað hvaða kraftaverkaræðu Benitez galdraði fram í hálfleik en allt annað Liverpool lið mætti til leiks í seinni hálfleik. Á 54. mínútu leiksins fór allt að gerast. Steven Gerrard minnkaði muninn í 3-1 með frábærum skalla eftir alnorska fyrirgjöf. Fyrirliðinn vægast sagt öskraði lið sitt í gang og aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu þeir aftur. Þar var á ferðinni varamaðurinn Vladimír Smicer. Liverpool menn voru ekki hættir því örfáum andartökum seinna var dómari leiksins búinn að dæma vítaspyrnu eftir að fyrirliðanum hafði verið skellt í teignum. Xabi Alonso tók að sér að taka vítaspyrnuna en til að gera þetta allt saman örlítið dramatískara ákvað hann að láta Dida verja spyrnuna frá sér en fylgdi þó sjálfur eftir og skoraði, 3-3. Allt þetta á aðeins sjö mínútum!

90 mínútur liðnar, framlenging. Ótrúleg endurkoma Liverpool hafði skilað þeim í framlengingu. Í framlengingunni voru AC Milan grátlega nálægt því að koma boltanum í netið. Þegar örfáar mínútur voru eftir varði Dudek í tvígang frá Shevchenko á vægast sagt lygilegan hátt, ótrúlegar markvörslur og hreint með ólíkindum að boltinn hafi ekki farið inn. Myndband af þessari ótrúlegu atburðarás má sjá hér að neðan í sérstöku myndbandi.

Eftir allt saman fór leikurinn því í vítaspyrnukeppni en þar höfðu drengirnir frá Bítlaborginni betur og þar var Dudek, markvörður Liverpool, enn og aftur hetjan. Mörk frá Hamann, Cissé og Smicer tryggðu Liverpool sigur í vítaspyrnukeppninni en Riise lét hins vegar Dida verja frá sér. Hjá AC Milan misnotuðu Serginho, Pirlo og Shevchenko sínar spyrnur en mörk frá John Dahl Tomasson og Kaká dugðu ekki til.

Titillinn var þeirra. Liverpool voru sigurvegarar Meistaradeildarinnar árið 2005. Með sigrinum fékk klúbburinn að halda bikarnum til lífstíðar en þegar lið hafa unnið Meistaradeildina fimm sinnum fá félögin að halda gripnum. Þegar heim til Englands var komið voru hvorki fleiri né færri en ein milljón manna saman komnir til að fagna áfanganum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sturlun í Sunderland í gærkvöldi – Sjáðu hvað gerðist

Sturlun í Sunderland í gærkvöldi – Sjáðu hvað gerðist
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Einn sá launahæsti í heimi fær samningi sínum í Sádí rift

Einn sá launahæsti í heimi fær samningi sínum í Sádí rift
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Frábært framtak Amorim – Borgar úr eigin vasa svo starfsfólkið sjái úrslitin

Frábært framtak Amorim – Borgar úr eigin vasa svo starfsfólkið sjái úrslitin
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Viðræður um Cunha ganga virkilega vel

Viðræður um Cunha ganga virkilega vel
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Arsenal mjög óvænt á eftir þessum leikmanni Chelsea

Arsenal mjög óvænt á eftir þessum leikmanni Chelsea
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Þetta eru bestu menn Bestu deildarinnar hingað til ef rýnt er í gögnin – Fengið harða gagnrýni en eiga flesta á topp tíu

Þetta eru bestu menn Bestu deildarinnar hingað til ef rýnt er í gögnin – Fengið harða gagnrýni en eiga flesta á topp tíu
433Sport
Í gær

Hefur ekki neinn áhuga á því að fara frá Liverpool í sumar

Hefur ekki neinn áhuga á því að fara frá Liverpool í sumar
433Sport
Í gær

Diego Simeone vill fá Antony í sumar

Diego Simeone vill fá Antony í sumar