Unai Emery, stjóri Arsenal, hefur ekki upplifað góðar vikur undanfarið en tímabilinu á Englandi er nú lokið.
Arsenal endaði tímabilið virkilega illa í ensku úrvalsdeildinni og tapaði svo 4-1 gegn Chelsea í úrslitum Evrópudeildarinnar.
Eftir tapið í Evrópudeildinni skellti Emery sér til Spánar og sá úrslitaleik Meistaradeildarinnar á milli Liverpool og Tottenham.
Emery bókaði flug ásamt eiginkonu sinni en hann þurfti að hlusta á verulegt áreiti á leið sinni til heimalandsins.
The Times greinir frá því að Emery hafi þurft að skipta um sæti í fluginu en hann fékk mikið áreiti frá stuðningsmönnum Tottenham sem voru í sama flugi.
Emery gat sjálfur sætt sig við það áreiti sem hann fékk en vildi ekki að eiginkona sín þyrfti að upplifa það sama.
Það er mikill rígur á milli Tottenham og Arsenal en eiginkona Emery tengist því ekki neitt og var áreitið því óverðskuldað á alla vegu.