Bergþór Másson og bróðir hans Snorri halda úti hlaðvarpsþættinum Skoðanabræður, sem hefur notið talsverðra vinsælda. Í nýjasta þætti sínum ræða þeir um hin ýmsu mál. Eitt af þeim málum sem þeir ræða eru rasísk ummæli sem Björgvin Stefánsson, framherji KR lét falla.
Bergþór hefur starfað sem blaðamaður á Vísir.is og er skráður umboðsmaður Club Dub, sem er vinsæl hljómsveit hjá unga fólkinu.
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ mun í dag taka mál Björgvins fyrir ef allt er eðlilegt. Björgvin sagði að stutt væri í villimannseðli svarta mannsins, þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar. Björgvin baðst síðar afsökunar á ummælum sínum.
Bergþór fór mikinn í umræðunni um Björgvin og sagði að margir knattspyrnumenn væru með rasískar skoðanir og kvenfyrirlitningu. Bergþór viðurkenndi þó að hann fylgdist ekkert með fótbolta, hann styður KR og Dijon í Frakklandi.
,,Þetta er mest fucking lame viðhorf. Það er ekki endilega það að hann hafi sagt þetta, ég ætla ekki að taka ábyrgð á orðum mínum. Meirihluti fótboltamanna og kúltúrinn þar er mjög rotið. Það er mikill rasismi og kvenfyrirlitning þarna inni, hjá mörgum fótboltamönnum, það er staðreynd. Ég get spurt hvern sem er, sem þekkir til fótboltamanna. Þetta er lenskan þarna, að fyrirlíta minnihlutahópa,“ sagði Bergþór.
Hann sagði að ummæli Björgvins sanni þá skoðun hans að knattspyrnumenn séu upp til hópa rasistar og þoli ekki konur.
,,Mér finnst þetta sýna það, ég fylgist ekki með fótbolta og horfi ekki á fótbolta. Það eina sem ég frétti af fótbolta, er þegar vinir mínir tala um það, sem er frekar mikið. Þegar ég næ ekki að loka eyrunum, mér finnst þetta uppljóstra hvernig menn eru venjulega. Hann missti þetta út úr sér í beinni útsendingu, ímyndið ykkur hvernig hann hefur talað alltaf.“
Bergþór segir þetta fáránlega skoðun, hann vill að Björgvin verði rekinn frá KR, liðinu sem hann styður. Einnig vill Bergþór að Björgvin verði útilokaður frá fótboltanum hér á landi.
View this post on Instagram
,,Þetta er sýktur rasismi, hann byrjaði svo næsta leik. Það á að setja fordæmi og reka hann, aldrei að spila aftur í íslenskum fótbolta. Hvað er annað hægt að gera, til að uppræta svona? Ég er fyrir róttækar aðgerðir, hvað er annað hægt að gera?
,,Ég ætla að segja það en tek ekki ábyrgð, það ríkir rasismi í mörgum þessum mönnum (Knattspyrnumönnum).“
Bergþór segir að venjulegt fólk hafi nú þegar útilokað Björgvin en þetta sjúka viðhorf, sem hann lýsir á meðal knattspyrnumanna, útiloki aldrei neinn.
,,Hann er útilokaður hjá venjulegu fólki en að fótboltinn geri það, pælið í því hvað þarf til að fótboltinn útiloki einhvern. Cristiano Ronaldo er sakaður um kynferðisbrot, hann yrði dæmdur en myndi alltaf koma til baka. Ef þessi fótboltamaður (Björgvin) yrði útilokaður, það væri geggjað. Hann gæti verið góður inn við beinið en með ömurlegar skoðanir.“