Adam Morgan fyrrum framherji Liverpool, fær ekki að upplifa það að fara á úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ekki nema að eitthvað ótrúlegt gerist.
Morgan ólst upp hjá Liverpool og lék með aðalliði félagsins, áður en hann fór árið 2014. Hann leikur í dag með Curzon Ashton, í utandeildinni.
Hann lék með aðalliði Liverpool tímabilið 2012/2013 en síðan þá hefur hann farið víða. Hann ætlaði sér að fara á úrslitaleik Meistaradeildarinnar, til a sjá sína menn mæta Tottenham. Leikurinn fer fram á laugardag í Madríd.
Það er hins vegar búið að svindla á Morgan sem ætlaði til Belfast í dag til að sækja miðana sína. Hann er búinn að bóka flug og hótel í Madríd en miðana fær hann ekki.
,,Hvaða möguleika á maður þegar það er svona fólk til í heiminum,“ skrifar Morgan á Twitter.
,,Var að fara í flug til Belfast í morgun til að sækja miðana, fæ þá skilaboð um að hann geti ekki hitt mig. Flug og hótel í Madríd bókað, ég hélt ég væri með miða líka. Er í áfalli.“