Það er óvíst hvað Breiðablik gerir þann 1. júlí er félagaskiptaglugginn hér heima opnar á ný.
Það er mikið rætt bakvörðinn Jonathan Hendrickx sem er gríðarlega mikilvægur fyrir Kópavogsliðið.
Rætt var um það nýlega að Hendrickx væri með heimþrá en hann spilaði glimrandi vel í 1-0 sigri á Val í gær.
Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is og Hrafn Norðdahl ræddu stöðu Hendrickx í hlaðvarpsþættinum Sóknin í dag.
,,Fyrir mitt leyti þá breytti það miklu fyrir Blika að Jonathan Hendrickx var færður úr vinstri bakverði í hægri bakvörð. Hann er hrikalega gott vopn sóknarlega þegar hann kemur keyrandi þarna upp,“ sagði Hörður um Hendrickx.
Hrafn nefndi það þá hvort Belginn væri ekki á förum þegar glugginn opnar þann 1. júlí.
,,Sjöa í bakverði, hann er bara sjöa. Hann er hrikalega góður. Er hann ekki að fara?“ segir Hrafn.
Hörður þekkir vel til Breiðabliks og segir hann að flestir þar á bæ búist við því að Hendrickx sé á förum þegar glugginn opnar.
,,Ég talaði við einn Blika í morgun sem kannaði stöðuna og hann sagði að það væru allir að búast við því að hann myndi fara 1. júlí þegar glugginn opnar.“
,,Svo er hann samningsbundinn Blikum og ef Blikar eru í titilbaráttu 1. júlí þá hljóta þeir að selja honum það að hann geti hangið þar til í lok september og klárað mótið. Svona góður leikmaður getur skipt á milli þess hvort þeir endi í fyrsta eða þriðja sæti.“
,,Fyrstu fréttirnar voru þær að hann væri með heimþrá og að konan hans vildi ekki búa á Íslandi og eitthvað í þeim dúr. Svo er eitthvað belgískt úrvalsdeildarlið sem vill kaupa hann en enginn veit hvaða lið það er.“
Hrafn er mögulega með svarið fyrir Blika. Félagið þarf að gera allt sem til þarf svo að Hendrickx klári tímabilið.
,,Ef honum leiðist eitthvað, gefið honum bara árskort í bíó og tíu miða kort í Sæluna. Hann hlýtur að geta hangið hérna í nokkra mánuði í viðbót.“