Sláandi upplýsingar í sjálfsvígsbréfinu

Hafði verið saknað síðan í maí. Lík hennar fannst á dögunum.
Theresa Hafði verið saknað síðan í maí. Lík hennar fannst á dögunum.

Í tæplega sex mánuði hafði lögreglan í Portage í Michigan í Bandaríkjunum svipast um eftir 44 ára konu, Theresu Lockhart, sem hvarf sporlaust þann 18. maí síðastliðinn.

Theresa var vel liðinn spænskukennari í menntaskóla í bænum og gift Christopher Lockhart, 47 ára.

Rannsókn lögreglu á hvarfinu leiddi ekkert í ljós; hún virtist hafa horfið af yfirborði jarðar og virtist enginn vita hvers vegna eða hvernig kona á besta aldri hyrfi með jafn dularfullum hætti. Eins og venja er var hugsanleg aðild makans, Christophers í þessu tilfelli, skoðuð en rannsókn lögreglu leiddi ekkert sérstakt í ljós.

Það var svo á dögunum að lögregla var kölluð að heimili eiginmanns hennar, Christophers. Hann hafði svipt sig lífi og skilið eftir bréf sem innihélt sláandi upplýsingar.

Í bréfinu viðurkenndi hann að hafa banað eiginkonu sinni þennan örlagaríka dag í maímánuði. Í bréfinu komu fram upplýsingar um hvar hann hefði komið líkinu fyrir og nákvæmt kort af staðnum um 80 kílómetrum frá heimili þeirra. Lögregla fór á staðinn þar sem lík Theresu fannst.

Í bréfinu sagðist Christopher hafa misst stjórn á skapi sínu þegar þau hjónin rifust þennan dag. Hann lýsti því ekki hvernig hann varð eiginkonu sinni að bana en lýsti mikilli iðrun og eftirsjá í bréfinu.

Á blaðamannafundi sem lögregla hélt vegna málsins kom fram að Christopher hefði legið undir grun á sínum tíma – makar þeirra sem hverfa liggja nær undantekningarlaust undir grun, en það sem vakti athygli lögreglu var sú staðreynd að vinnufélagar Theresu tilkynntu um hvarf hennar á undan Christopher.

Daginn áður en Christopher fannst látinn hafði lögreglan í Portage lýst því í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Dateline að eiginmaðurinn hefði ekki verið samvinnufús við rannsókn lögreglu. Hann hefði ítrekað haldið því fram að hafa síðast séð eiginkonu sína að morgni 18. maí og neitað aðild að hvarfinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.