fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Morðóður brennuvargur

Móðir leitaði aðstoðar vegna dauða dóttur sinnar – Ýmislegt kom upp úr kafinu

Kolbeinn Þorsteinsson
Sunnudaginn 29. maí 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lítið vissi Bobbie Roberts hver framvinda mála yrði þegar hún leitaði aðstoðar lögfræðingsins Steve Keeney til að innheimta líftryggingu dóttur sinnar, Deönu Wild, á sumarmánuðum 1987.

Deana Wild hafði hrapað til bana í Big Sur, vinsælum ferðamannastað í Kaliforníu, 2. apríl, en þar hafði hún verið á ferð með hjónum, Virginíu og Billy Joe McGinnis. Bobbie hafði keypt líftryggingu upp á 2.500 Bandaríkjadali fyrir dóttur sína, til að eiga í handraðanum ef í harðbakkann slægi. Hún hafði árangurslaust reynt að fá líftrygginguna greidda en tryggingafélagið þrjóskaðist við, án skýringa.

Úrskurðað sem slys

Hin sorgmædda móðir snerti einhvern streng í Steve Keeney og augljós fátækt hennar gerði það að verkum að hann ákvað að veita henni liðsinni sitt.

Þrátt fyrir að allt umleikis dauða Deönu benti til slyss, sem hafði reyndar verið niðurstaða lögreglu á sínum tíma, komst Steve fljótlega að ýmsu sem ekki kom heim og saman.

Lögregla hafði ekki eytt tíma í að taka ljósmyndir á vettvangi, enda hafði Virginía lofað að senda þeim myndir sem hún hafði tekið. Það gerði hún aldrei, en sendi þær þess í stað til móður Deönu – myndirnar sýndu Deönu brosandi skömmu áður en hún hrapaði til bana.

Myndir frá krufningu Deönu vöktu einnig áhuga Steve, en þær sýndu hruflaðar hendur og brotnar neglur, sem benti til þess að Deana hefði hangið á höndunum í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga lífinu.

Steve brettir upp ermar

Í mars 1988 var að renna út frestur sem Steve hafði til að höfða mál á grundvelli manndráps. Hann lagði fram vitnisburð fólks sem hafði hitt Deönu og McGinnis-hjónin við Big Sur en samkvæmt þeim vitnisburði var Virginía missaga; hún ýmist sagði Deönu vera dóttur náins vinar eða verðandi tengdadóttur.

Einnig komst Steve að því að Virginía hafði líftryggt Deönu fyrir 35.000 Bandaríkjadali daginn áður en hún hrapaði til bana; fyrsti rétthafi var sonur hennar frá fyrra hjónabandi, Joe Coates, en Virginía sjálf var annar rétthafi.

Þrátt fyrir þessar upplýsingar höfnuðu yfirvöld í Monterey-sýslu að leggja fram kæru á hendur Virginíu, vegna skorts á sönnunargögnum. Steve sá fram á að þurfa að grafa dýpra og við þann gröft komst hann að ýmsu úr fortíð Virginíu sem ekki þoldi dagsbirtu.

Og bálið brennur

Keeney komst að því, til að byrja með, að Deana var gift Jay nokkrum Wild. Þau höfðu gengið í það heilaga 1985 en Jay var í sjóhernum og langar fjarvistir höfðu tekið sinn toll í sambandi þeirra. Engu að síður hafði Deana vonað að þau gætu náð saman að nýju.

McGinnis-hjónin höfðu gert sér dælt við Deönu og þrábeðið hana að búa hjá þeim, og að lokum lét hún undan – reyndar hafði hún á orði við systur sína að McGinnis-fjölskyldan væri hálf undarleg. Steve átti síðar eftir að komast að því að mat Deönu var rétt svo ekki væri meira sagt.

Steve rakti sögu Virginíu til Íþöku í New York þar sem hún fæddist 1932. Hún kynntist fyrsta eiginmanni sínum, Richard Coates, þegar hún barðist við elda í vel tryggðri hlöðu föður síns.

Richard og Virginía eignuðust tvo syni, en Virginía hafði lítinn áhuga á sonum sínum, var enda önnum kafin við að innheimta tryggingafé vegna elda sem virtust kvikna lon og lon við heimili hjónanna. Að lokum varð Coates nóg boðið og skildi við Virginíu.

Fleiri eldsvoðar og dótturdauði

Virginía flutti heim til föður síns og skömmu síðar fuðraði það upp og fylgdi eldsvoðanum fjárhagslegur ávinningur. Í reynd virtist sem öll heimili Virginíu væru einstaklega eldfim – vel tryggð.

Árið 1972 dó þriggja ára dóttir Virginíu. Henni hafði tekist að flækja reipi um hálsinn, á heimili þeirra í Louisville í Kentucky. Dauðsfallið var úrskurðað sem slys og virtist engum sem að rannsókninni komu undarlegt hvernig þriggja ára stúlku tókst að binda reipi í bjálka sem var í 240 sentimetra hæð, enda hafði Virginía skorið dóttur sína niður áður en lögreglu bar að. Virginía fékk greidda líftryggingu dóttur sinnar.

Þegar þarna var komið sögu var Virginía gift Sylvester „Bud“ Rearden. Hann fékk krabbamein 1974 og tókst Virginíu að telja heilbrigðisyfirvöldum trú um að hún væri hjúkrunarfræðingur og því vel fær um að annast eiginmanninn heima fyrir. Bud fór yfir móðuna miklu og enn og aftur átti Virginía erindi í tryggingafélagið.

Málalyktir

Skömmu áður en Deana mætti örlögum sínum hafði Virginía sinnt veikri móður sinni, en allt kom fyrir ekki; móður hennar varð ekki lífs auðið.

Með þetta í farteskinu tókst Steve Keeney að leggja fram kæru á hendur Virginíu tveimur dögum áður en frestur til þess rann út. Þrátt fyrir að móttaka tvær stefnur lét Virginía ekki sjá sig og tókst Keeney að telja yfirvöld í San Diego á að kæra Virginíu fyrir morð, ekki síst í ljósi þess að líftrygging Deönu hafði verið keypt í þeirra umdæmi.

Þá hafði einnig komið í ljós að Deana hafði innbyrt þunglyndislyf skömmu fyrir dauða sinn. Umræddu lyfi hafði ekki verið ávísað til Deönu heldur Billys Joe McGinnis, skömmu fyrir dauða Deönu.

Virginía og Billy Joe, sem þá voru skilin, voru ákærð fyrir morð, en Billy Joe dó í fangelsi, úr alnæmi, áður en réttarhöld hófust yfir honum. Virginía hins vegar var sakfelld, 30. mars 1993, og fékk lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn. Hún dó í fangelsi árið 2011.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum