fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Sannar íslenskar sögur sem gætu orðið stórmyndir

Tómas Valgeirsson
Miðvikudaginn 9. maí 2018 16:30

Saga Lofts Jóhannessonar er lyginni líkust.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin Vargur var frumsýnd í vikunni og hefur leikstjórinn Börkur Sigþórsson greint frá því að myndin sé innblásin af sönnum atburðum úr íslensku undirheimunum. Horfði Börkur þá helst til líkfundarmálsins, en í því voru Grét­ar Sigurðarson, Jón­as Ingi Ragnarsson og Thom­as Malakauskas ákærðir fyrir að standa á bakvið innflutning á 223,67 grömmum af amfetamíni sem maður að nafni Vai­das Jucevicius flutti innvortis til lands­ins. Jucevicius náði ekki að skila af sér öllu efninu, veiktist og lést. Grétar og Jónas vöfðu líkið inn í teppi, skutluðu því í skottið á bíl og óku austur á firði þar sem þeir sökktu líkinu í sjó við Neskaupstað.

Í tilefni af frumsýningu Vargs ákvað DV að varpa fram hugmyndum um hvaða aðrir atburðir í Íslandssögunni gætu veitt kvikmyndagerðarmönnum innblástur og orðið að stórmyndum, með hæfilegu magni af skáldaleyfi að sjálfsögðu.

 

Flóttinn mikli (e. On the Run)

Flótti Sindra Þórs Stefánssonar frá Sogni hefur allt sem til þarf til að búa til kvikmynd sem malar gull. Sindri er ungur, fluggáfaður og heillandi maður sem flæktist inn í alþjóðlegt samsæri tölvuhakkara og eitt stærsta rán Íslandssögunnar. Sindri er handtekinn, lokaður inni í fangelsi og allt bendir til að hann einn muni axla ábyrgð á glæpnum. Innilokaður fer hann að undirbúa flóttann. Sindri gerir sér upp veikindi, kemst í opið fangelsi og flýr að nóttu til út á flugvöll. Síðan flýgur hann úr landi í sömu vél og forsætisráðherra landsins.

Saga Sindra Þórs er efni í frábæra kvikmynd. Það vantar bara þrusuendi.

Það eina sem vantar í söguna er örlítið meiri dramatík. Sindri á konu og börn sem nota mætti til að Hollywood-krydda handritið enn frekar. Það eru þó vissulega dálítil vonbrigði að þessi nýjasti „óskasonur“ þjóðarinnar hafi látið handtaka sig í Amsterdam í stað þess að setjast að í Mexíkó líkt og Andy Dufresne gerði í Shawshank Redemption. Þá þyrftu erlendir mafíósar að fá fyrir ferðina með einhverjum hætti. Sindri yrði leikinn af Leonardo DiCaprio, sem sló í gegn í ekki ósvipuðu hlutverki í Catch Me If You Can. Peter Dinklage, sem gert hefur garðinn frægan í Game of Thrones, myndi síðan rúlla upp hlutverki Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

 

Vopn úr lofti (e. Weapons from Clear Sky)

Saga íslenska vopnasalans Lofts Jóhannessonar er lyginni líkust. Ungur maður frá lítilli eyju í Atlantshafi notar ástríðu sína fyrir flugi til að græða milljarða á vopnasölu til einsræðisherra um allan heim. Þetta handrit skrifar sig sjálft. Nálgunin gæti verið í anda Martin Scorsese, en líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum er talið að Loftur hafi auðgast ævintýralega á vopnasölu í samstarfi við erlendar leyniþjónustur, meðal annars CIA og Stasi. Hápunktur myndarinnar verður sjálfsagt þegar Loftur flytur skriðdreka til Írak og selur Sadam Hussein morðtólin, sem gerðist víst í raun og veru. Í raunveruleikanum hefur Loftur komist upp með voðaverk sín og nýtur lífsins, vellauðugur, á karabískri paradísareyju. Það er ekki útilokað að Hollywood-framleiðendur myndu fara fram á fall söguhetjunnar og makleg málagjöld.  Hvar er hinn íslenski Scorsese til að taka að sér verkefnið?

Saga Lofts Jóhannessonar er lyginni líkust.

Eldjökull (e. The Terror Nobody Could Pronounce)

Íslendingar eiga enga stórslysamynd þótt nægur efniviður sé í boði. Tveir atburðir í Íslandssögunni koma þar sterklega til greina. Eldgosið í Eyjafjallajökli yrði auðveldlega spennuþrungin stórslysamynd í höndum Baltasars Kormáks eða Darrens Aronofsky.

Fólk sagðist hata Ísland og úti um allan heim vafðist fólki tunga um tönn við að reyna að bera fram eldfjallið ógurlega sem stöðvaði flugumferð með ógnvekjandi öskuskýi. Myrkrið helltist ekki aðeins yfir sveitina, heldur myndaði öskufallið einnig myrkur í sál okkar Íslendinga sem voru enn að melta hrunið, enda vissum við ekki þá að þetta yrði ein besta auglýsing sem landið gæti fengið. Um alla Evrópu voru flugfarþegar strandaglópar.

Blessunarlega varð enginn mannskaði í náttúruhamförunum en það er ekki nógu gott fyrir kvikmyndaframleiðendur. Handritshöfundar gætu því þurft að krydda söguna en geta þess þó að myndin væri byggð á sönnum atburðum. Mögulega væri hægt að flétta atburði úr Skaftáreldum, þar sem bæði menn og dýr létust í kjölfarið á móðuharðindunum, sem áttu einnig hlutverk í því að ýta af stað frönsku byltingunni. Þá byltingu væri hægt að færa til nútímans þar sem verkalýðurinn er hvort sem er að fá upp í kok af auðjöfrum heimsins. Það færi vel á því að færa eldklerkinn Jón Steingrímsson til nútímans og sýna hann í dramatískri senu stöðva gosið í Eyjafjallajökli með ákalli til æðri máttarvalda.

Fannbreiðan og Fagranes (e. The Ice Inferno)

Snjóflóðið í Súðavík myndi einnig ganga upp sem sögusvið átakanlegrar stórslysamyndar, enda munu sár íslensku þjóðarinnar seint gróa vegna atburðarins. Þann 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið sem stendur við Álftafjörð. Af þeim tuttugu og fimm húsum á svæðinu urðu átján íbúðarhús fyrir flóðinu. Björgunarlið, sjálfboðaliðar, lögreglumenn og læknar voru flutt sjóleiðis og spilaði djúpbáturinn Fagranes stóran þátt í því. Fjórtán manns létust í snjóflóðinu og tíu slösuðust, en sá síðasti sem fannst á lífi var tólf ára gamall drengur sem hafði legið í húsarústum í tæpan sólarhring. Örlög fólksins sem lenti í flóðinu og þeirra sem fyrstir voru á vettvang er efni í magnþrungna sögu sem ekki þarf á neinu kryddi frá Hollywood að halda.

Gylfi Þór er mögulega aðeins of fullkomið eintak og því gætu handritshöfundar þurft að leika sér með baksögu hans.

Hreint hjarta og „Hú“-llumhæ (e. Clap Like a Viking)

Sigursögur lítilmagna þykja oft vera hollar fyrir sálina, jafnvel þegar svonefndir sigurvegarar komast ekki alla leið, Því væri ekki óviðeigandi að kvikmynda söguna af landsliði Íslands í knattspyrnu á Evrópumeistaramótinu árið 2016. Myndin hefði alla burði til þess að verða að stórsmelli, en eflaust ekki í Bretlandi. Ef til vill gæti Michael Bay útfært eitthvað dramatískt með fótboltasenunum. Líklega þarf þó að krydda aðeins bakgrunn aðalpersóna. Gylfi Sigurðsson er til dæmis aðeins of fullkomið eintak til þess að það geti verið sannfærandi. Gylfi  þyrfti helst að vera skrifaður sem drykkfelldur atvinnumaður sem er við það að leggja skóna á hilluna út af meiðslum og sífelldum agabrotum. Hann er kominn með pláss á togara og dreymir um að stofna eigin útgerð. Röð tilviljana leiðir til þess að hann fær eitt tækifæri hjá glaðlegum landsliðsþjálfara með fullkomnar hvítar tennur og endar með því að leiða þjóð sína á HM.

Sítt að aftan með söng í hjarta (e. The Mullets Conquer Europe)

Það er löngu orðið tímabært að áhugi Íslendinga á Eurovision-söngvakeppninni rati á hvíta tjaldið með einhverjum hætti. Því er eflaust sterka sögu hægt að segja af því þegar Pálmi Gunnarsson fór, ásamt Eiríki Haukssyni og Helgu Möller, með fyrsta framlag Íslands í keppnina. Atburðarásin yrði vissulega léttgeggjuð og hjartnæm saga um drauma, sítt að aftan, sönggleði og teymisvinnu hljómsveitarinnar. Ekki kæmi annað til greina en að útfæra þetta sem söngleik. Seinna meir væri hægt að skoða hugmyndina að sjálfstæðri framhaldsmynd, ef Ísland lendir einhvern daginn í fyrsta sæti í Eurovision. Til vonar og vara mætti alveg fylgja þessu eftir með kómedíu um Silvíu Nótt og þátttöku hennar í keppninni.

Kvikmynd um Eurovision-brjálæði Íslendinga væri augljós kostur.

Hófí (e. Memoirs of an Icelandic Beauty)

Í öðru sviðsljósi má nefna Hólmfríði Karlsdóttur þegar hún tók þátt í keppninni Ungfrú heimur árið 1985 og vann stóra titilinn. Hún var þar fyrst íslenskra kvenna, en fleiri fylgdu á eftir. Helst er að nefna að aðeins þremur árum síðar hlaut Linda Pétursdóttir sama heiður og sannaði þá enn fremur fyrir öllum heiminum að margar af fallegustu konum heimsins kæmu frá Íslandi. Það er dramatík fólgin í því að á hátindi frægðar sinnar hafi Hófí dregið sig alfarið í hlé.

Hófí. Fegurðardrottningin sem sigraði heiminn og dró sig svo í hlé.

Trúður í valdastóli (e. Clown-in-Chief)

Pólitískir farsar hitta oft í mark hjá áhorfendum og væri þar tilvalið að útfæra leikna kvikmynd um framboð Jóns Gnarr til borgarstjórnar og sigurinn sem fylgdi í kjölfar baráttu hans og Besta flokksins. Lars von Trier gæti unnið ýmislegt úr þessu, jafnvel Oliver Stone. Það hafa furðulegri hlutir orðið til.

 

Frumkvöðull í forsetann (e. First Lady)

Á móti er hægt að segja sláandi brautryðjendasögu af framboði Vigdísar Finnbogadóttur til forseta, fyrstu konunni sem bauð sig fram og var kosin til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja í lýðræðislegum kosningum. Jafnvel má tvinna saman sögu af ævi, lífi og feril Vigdísar við snjóflóðin á Súðavík og Flateyri, en það ár er talið hafa verið það erfiðasta á embættisferli hennar. Með framúrskarandi leikkonu í aðalhlutverkinu og beittu handriti væri verðlaunaefni hér á ferð.

 

Pirraðir baunar, þorskastríðin og nekt í búri

Sambandsslitin við Dani og stofnun lýðveldis 1944 er eitthvað sem gæti verið sniðugt að kanna með rándýru búningadrama. Hvað með að fjalla um þorskastríðin í dýnamískum þríleik frá Ridley Scott með Christopher Plummer fremstan? Svo má alltaf snúa að smærri striga af gjörningi Almars Atlasonar myndlistarnema, sem dvaldi í glerkassa í Listaháskóla Íslands í heila viku, allsnakinn og borðandi það sem gestir gáfu honum. Úr þessu gæti orðið hress ádeila eða abstrakt, íslensk útgáfa af Cast Away. Möguleikarnir á efniviðum eru takmarkalausir, en nektin óneitanlega selur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun