fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

„ Fáránlegt að strákum séu gefnar krefjandi spurningar en ekki okkur stelpunum“

Aðalleikkonurnar í Hjartastein vilja ræða um eitthvað annað en ástina

Ritstjórn DV
Mánudaginn 16. janúar 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þær Katla Njálsdóttir 14 ára og Diljá Valsdóttir 16 ára fara með tvö af aðalhlutverkum í kvikmyndinni Hjartastein. Myndin fór í almennar sýningar í kvikmyndahúsum hérlendis í liðinni viku en hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í september. Síðan þá hefur hún ferðast víða og sópað að sér verðlaunum á alþjóðlegum hátíðum. DV spjallaði við þær Kötlu og Diljá um myndina og kvikmyndabransann eins og hann kemur þessum ungu leikkonum fyrir sjónir.

Diljá leikur Betu sem hún lýsir sem mjög sterklegum karakter og leiðtoga sem lætur ekki ráðskast með sig. Diljá var enginn nýgræðingur í bransanum þegar hún lék í Hjartasteini. „Ég hafði í tveimur kvikmyndum, Days of Gray og Málmhaus og svo á meðan á æfingarferlinu fyrir Hjartastein stóð var ég að leika í Billy Elliot í Borgarleikhúsinu. Ég hef líka leikið í stuttmyndum, auglýsingum og tónlistarmyndbandi svo ég er búin að vera í bransanum síðan ég var 11 ára,“ segir Diljá.

Katla fer með hlutverk Hönnu vinkonu Betu. „Hanna er mjög inní sér og ekkert svakalega opin, hún stendur oftast bakvið Betu og lætur lítið fyrir sér fara“ segir Katla en hún hafði líka smá reynslu af leiklist áður en hún lék í Hjartastein. „Ég byrjaði á barnaþáttum sem hétu Vasaljós, svo fór ég í Hjartastein og eftir það lék ég í Föngum,“ segir Katla en hún hefur eftir þessa reynslu orðið vör við ólíka framkomu gagnvart kynjunum sem hún vakti athygli á á Facebook síðu sinni í vikunni:

Þær Diljá og Katla voru viðstaddar frumsýningu myndarinnar í Feneyjum
Frumsýning Þær Diljá og Katla voru viðstaddar frumsýningu myndarinnar í Feneyjum

„Í gær fór kvikmyndin Hjartasteinn sem ég er afskaplega stolt af í kvikmyndahús. Vegna myndarinnar hafa verið viðtöl, strákarnir og stelpurnar í sitthvoru lagi. Fyndið að ennþá í dag séu spurningarnar milli kynja öðruvísi. Ég, Diljá, Rán og Jónína sem lékum saman í Hjartasteini fórum í viðtal. Við vorum spurðar um ástina, hvernig það er að vera ástfangin, hvernig manni líður þegar maður er ástfangin og eitthvað í þá áttina. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja, því ég hef hreinlega aldrei orðið ástfangin,“ skrifar Katla og heldur áfram:

„Það kom ein spurning sem kom að myndinni “þekktust þið áður en þið byrjuðuð á myndinni?”, Þetta var alveg skemmtilegt viðtal og við höfðum gaman af því. En svo las ég viðtal við Blæ og Baldur leikara í Hjartasteini, þá var það, “látinn síga niður kletta, var brellum beitt?” “af hverju sóttuð þið um að leika í myndinni?”, “hvernig undirbjugguð þið ykkur fyrir senur?”, “hvernig tókst ykkur að vera svona sannfærandi í hlutverkunum“, “Var þetta ekki erfitt?”…ég fatta þetta ekki.“

Þetta er alþjóðlegt vandamál

„Mér finnst mjög skrítið að stelpur fái oftast væmnari spurningar en strákar. Þetta er ekki bara á Íslandi, ástæðan fyrir því að ég setti þennan status á Facebook er sú að ég vildi vekja athygli á þessu, því þetta er alþjóðlegt vandamál. Of oft í viðtölum við frægar Hollywood stjörnur kemur þetta fyrir. Þannig að já ég hef tekið eftir þessu í viðtölum við fullorðna líka,“ segir Katla við DV.

Diljá tekur undir þetta, „Það er bara fáránlegt að strákum séu gefnar krefjandi spurningar en ekki okkur stelpunum. Ég og Katla bjuggum í burtu frá fjölskyldum okkar í rúmlega tvo mánuði, vorum að vinna vinnu sem tekur líkamlega og andlega á og við lærðum fljótt að vera sjálfstæðar og láta lítið fyrir okkur fara svo að fólkið í kring gæti unnið vinnuna sína til fulls. Þetta var mjög krefjandi og við höfum svo mikið að segja um þetta ferli og það er svo mikil synd að okkur séu bara gefnar spurningar um ástina og einkalíf okkar. Vissulega getur ástin verið krefjandi en það er allt annað viðtal.“

En hver ætli sé lausnin á þessari kynjaskekkju í kvikmyndabransanum?
„Það sem ég held að hægt sé að gera er bara það að hafa þetta í huga því þá ætti þetta að breytast hægt og rólega“ segir Katla og Diljá bætir við: „Það þarf bara einhvern kvikmyndahöfund sem er ekki hræddur við að skrifa krefjandi hlutverk fyrir stelpur. Vissulega er til kvikmyndaefni þar sem kona er í aðalhlutverki en satt best að segja þá hef ég oftast leikið í verkefnum þar sem strákur fer með aðalhlutverkið og laðast að mínum karakter,“

En snúum okkur aftur að Hjartasteini. Hvernig fannst ykkur að leika í myndinni?

Katla segir hafi þótt erfitt að vera langt frá langt frá fjölskyldunni á meðan á tökum stóð og geta ekki hringt á hverjum degi heim. Diljá er sammála því: „Ég er mjög vön að koma heim og tala við mömmu og pabba og vera bara í mínu umhverfi og þannig komist 100% úr karakter. En eftir langan tökudag þurfti maður að gista í eldgömlu húsi og oft vorum við búin mjög seint á kvöldin svo ég gat ekki hringt í neinn heima, en ég lærði bara að komast úr karakter og verða ég sjálf með því að hlusta á tónlist og spila á gítarinn minn.“

Stelpurnar segja að líklega hafi það hjálpað þeim að komast inn í karakterinn að vera svona langt að heiman „Að vissu leiti hjálpaði það því þessi sveitalífstíll er mjög lagt frá því sem ég er vön“ segir Diljá. Katla tekur undir þetta: „Já mér fannst það aðeins hjálpa, maður hafði meiri frið. Þá náðum við Diljá líka betur saman, við áttum að leika bestu vinkonur þannig að vera saman þarna á Borgafirði á næstum hverjum degi hjálpaði mér“

Aldrei erfitt að vakna á morgnanna

Þrátt fyrir að vera langt frá fjölskyldunni og langa vinnudaga fannst stelpunum þetta líka góð reynsla: „Ég held að fólk skilji ekki bara hversu mikinn áhuga ég hef á leiklist og kvikmyndagerð. Mér fannst aldrei erfitt að vakna á morgnanna og gera mig til fyrir tökur þótt að ég þyrfti að vakna klukkan korter í fimm,“ segir Diljá. Katla er sammála því, það var alltaf tilhlökkun að mæta í tökur sama hvað klukkan var.

„Skemmtilegast við að leika í myndinni var félagsskapurinn og reynslan.“ segir Katla. „Það var æðislegur hópur sem kom að þessari mynd, ég gæti bara ekki verið ánægðari.“ Kötlu langar mikið til að halda áfram að leika í framtíðinni, enda segir hún það vera það skemmtilegasta sem hún geri. „Mér finnst líka gaman að klippa og taka upp en leiklistin er ennþá númer eitt“

Diljá er sammála þessu. „Ég virkilega fæ útrás frá leiklistinni, ég nota hana við bæði söng og í dansi. Sviðslist hefur einnig heillað mig og hefur alltaf, en ég komst að því á Borgarfirði Eystra hversu mikið mig langaði að læra leikstjórn og áhuginn minn fer vaxandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta