fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

16. aldar rabbíni aðstoðaði Sjón í krísu

Setti stein við gröf hans og lofaði að skrifa skáldsögu byggða á gólemsögunni

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 11. desember 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sumarið 1990, rétt eftir flauelsbyltinguna og fall múrsins, fór ég til Tékklands ásamt Sykurmolunum. Þau höfðu verið beðin um að spila á styrktartónleikum fyrir verkefni sem var í höndum Olgu, eiginkonu Václavs Havel [rithöfundar og fyrsta forseta Tékklands.] Þetta var mjög sérstakur og fallegur viðburður haldinn í hálfgerðu félagsheimili. Ég var búsettur í Maastricht í Hollandi á þessum tíma og tók lestina yfir til Prag. Þarna varð ég fyrir mikilli uppljómun. Á þeim tíma þekkti ég borgina aðeins í gegnum kvikmyndir, skáldskap og súrrealismann – hina huglægu Prag – en hin raunverulega borg stóð algjörlega undir væntingum,“ segir Sjón um tildrög þess að hann byrjaði að skrifa CoDex 1962, þríleik sem inniheldur skáldsögurnar Augu þín sáu mig, sem kom út árið 1994, Með titrandi tár, sem kom út 2001, og Ég er sofandi hurð, sem kom út nú í haust.

„Ég var einn í borginni í viku og heimsótti þá meðal annars gröf Löwe rabbína. Hann var einhver mesti lærdómsmaður í evrópskum gyðingdómi og átti í mjög sérstöku sambandi við Rúdólf II, keisara heilaga rómverska ríkisins, sem er fyrst og fremst frægur fyrir söfnun sína á sérkennilegum gripum og fólki, bæði afreksfólki á sviði vísinda og ýmiss konar furðufuglum. Á þessum tíma fengu gyðingarnir nokkurn veginn að vera í friði í gettóinu í Prag, en Löwe er þó sagður hafa skapað mann úr leir og gefið honum líf, gólem sem varð verndari gettósins.

Margir hafa unnið út frá sögunni um Löwe rabbína og góleminn, hér má sjá þá félaga eins og þeir birtast í síðustu kvikmyndinni í þríleik þýska kvikmyndagerðarmannsins Paul Wegener sem byggð er á gólemsögunni.
Góleminn Margir hafa unnið út frá sögunni um Löwe rabbína og góleminn, hér má sjá þá félaga eins og þeir birtast í síðustu kvikmyndinni í þríleik þýska kvikmyndagerðarmannsins Paul Wegener sem byggð er á gólemsögunni.

Ég var í ákveðinni krísu á þessum tíma. Að gyðinglegum sið skrifaði ég því ósk til rabbínans á pappír, lagði á gröf hans og stein þar hjá. Ég gerði samkomulag við hann, ef hann myndi leysa úr mínum málum myndi ég skrifa verk sem byggði á gólemsögunni,“ segir Sjón.

„Upphaflega ætlaði ég mér að skrifa eina bók. Bók sem gerðist í nútímanum og hafði aðalpersónu sem er að reyna að sannfæra áheyranda sinn um að hann sé gólem, búinn til úr leir, og afsprengi þessarar menningar og þessara tíma. Svo datt mér í hug að skrifa örfáar blaðsíður sem lýstu brottför föður aðalpersónunnar frá gistiheimili í Norður-Þýskalandi þar sem hann hafði verið í felum. En þar sem ég er að skrifa þessa lýsingu þá sá ég skyndilega fyrir mér borðsalinn, sporöskjulaga glugga við endann og þar stóð ung kona handan dyranna. Á þeim tíma sá ég bara skuggann af henni en mig langaði að fá hennar sjónarhorn á atburðina. Svo var bara allt í einu komin heil skáldsaga,“ segir Sjón um fyrsta hluta þríleiksins.

En hvernig fór um samning ykkar rabbínans?

„Löwe stóð við sinn hluta samningsins mjög fljótlega eftir að ég hóf ritun verksins. Þetta hefur því hvílt á mér æ síðan. Svo var ég í Prag í febrúar á þessu ári, þá fór ég aftur að gröfinni og sagði honum að nú sæi ég loksins fyrir endann á mínum hluta.“

Máttu segja frá því hvaða krísa það var sem hann aðstoðaði þig í gegnum?

„Nei, það má ekki. Það er bara á milli okkar tveggja,“ segir Sjón og glottir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta