fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Víg veitingakonunnar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 24. mars 2018 22:11

Janelle Patton Var ekki í uppáhaldi hjá öllum eyjarskeggja.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Janelle flutti til Norfolkeyjar – Var ekki vel liðin af öllum – Mætti örlögum sínum á páskasunnudag 2002 – Fyrsta morðákæran í yfir 100 ár

Kyrrahafseyjarnar hafa í hugum fólks löngum tengst friðsæld og fallegu sólsetri. Svo sannarlega var sú raunin hjá um 1.800 íbúum Norfolkeyju sem liggur 1.600 kílómetra frá ströndum Ástralíu.

Árið 2002 töldu flestir íbúanna að þeir væru óhultir gagnvart því ofbeldi sem tíðkaðist víða um lönd. Afkomendur uppreisnarmanna af HMS Bounty höfðu sest þar að en eyjan hafði fyrr meir verið fanganýlenda breska heimsveldisins.

Hvað sem því öllu líður þá varð breyting þar á páskasunnudag, 31. mars 2002.

Stungin og skorin

Janelle Patton, 29 ára framkvæmdastjóri veitingahúss, hvarf daginn þann þegar hún skrapp í göngutúr sér til ánægju. Síðar þennan sama dag fannst líkið af henni, vafið inn í svart plast á Cockpit Waterfall-friðlandinu á öndverðum enda eyjarinnar miðað við þann sem hún hafði síðast sést.

Heilmiklir varnaráverkar á höndum gáfu til kynna að Janelle hafði veitt árásarmanni sínum harða mótspyrnu.

Hún hafði verið stungin og skorin 64 sinnum, önnur mjöðmin var brotin sem og annar ökklinn. Einnig var höfuðkúpan brákuð.

Ekki vel liðin af öllum

Ástralskir rannsóknarlögreglumenn komu frá Canberra í Ástralíu og tóku að sér rannsókn málsins. Þeir voru ekkert að drolla og byrjuðu á að taka fingraför allra eyjarskeggja á aldrinum 15 til sjötugs.

Rannsóknarlögreglan komst einnig á snoðir um að Janelle, sem hafði komið til eyjarinnar tveimur árum fyrr, var ekki allra hugljúfi og nöfn nokkurra íbúa Norfolkeyju skutu upp kollinum og þóttu þess virði að verða könnuð nánar.

Sýndist lögreglu sem í þeim hópi grunaðra kynni morðinginn að leynast, en fátt fréttnæmt gerðist þó í málinu næstu tvö árin.

Sá fyrsti í yfir 100 ár

Einhverjum árum síðar fékk lögreglan áhuga á Glenn McNeill, 28 ára kokki. Hann hafði haldið til á Norfolkeyju en farið á sínar heimaslóðir, í Nelson í Auckland, í maí 2002. Árið 2004 skipaði Glenn efsta sætið á lista lögreglunnar yfir grunaða. Honum var gert að snúa aftur til Norfolk sem hann og gerði.

Það var síðan þann 1. febrúar, 2007, að Glenn var ákærður fyrir morð, fyrstur manna á Norfolkeyju allar götur frá árinu 1893.

Heilmiklum vandkvæðum var bundið að skipa hlutlausan kviðdóm, enda ekki margir á lausu sem ekki höfðu þekkt annaðhvort þann ákærða eða fórnarlambið. Einnig hafði fjöldi manns þá þegar myndað sér ákveðna skoðun í málinu.

Næg sönnunargögn

Þegar loks hafði tekist að finna 12 manns í kviðdóminn var þeim sagt að Glenn hefði þá þegar viðurkennt að hafa fyrir slysni keyrt á Janelle. Síðar dró hann þá frásögn til baka.

Sagðist Glenn hafa farið í kerfi og skellt Janelle í farangursrými bifreiðarinnar. Síðar, þegar hún komst til meðvitundar, banaði hann henni með hníf.

Fingraför Glenns fundust á svarta plastinu sem vafið hafði verið utan um líkið og fleiri sönnunargögn í bifreið Glenns og þeirri íbúð sem hann hafði búið í fyrrum.

Árangurslaus áfrýjun

Kviðdómur komst að niðurstöðu 9. mars, 2007. Glenn McNeill var fundinn sekur og fékk þegar upp var staðið lífstíðar fangelsisdóm. Hann áfrýjaði dómnum 23. maí, 2008, en áfrýjuninni var vísað frá og upprunalegur dómur staðfestur.

Örstuttur fortíðarsnúningur

Í ágúst árið 2006 var saksóknari önnum kafinn við að undirbúa málsókn á hendur Glenn. Upplýsti hann friðdómara, svonefndan, um sönnunargögn sem bentu til sektar Glenns með það fyrir augum að sannfæra hann um að full ástæða væri til að fara með málið fyrir rétt. Einnig var tekinn niður vitnisburður fólks og þá féll sprengja, eins og það var orðað í ástralska fjölmiðlinum The Age. Óvænt vitni, Tracy Wilkinson, fyrrverandi vinnufélagi Janelle, skaut upp kollinum.

Tracy sagði að hún héldi að Aliesha Taylor, þáverandi eiginkona Glenns, hefði orðið Janelle að bana.

Blóð eða málning

Sagði Tracy að 31. mars, 2002, hefði hún séð Alieshu rífast heiftarlega við einhvern. Tracy sagði að henni hefði verið gengið út um bakdyr Hillcrest-hótelsins þar sem hún og Aliesha unnu þá og séð Alieshu öskra á einhvern á bak við runna.

Tracy sá annan handlegg Alieshu sveiflast „í boga“, en sá ekki á hverju hún hélt. Hún hrópaði á Alieshu sem kom til hennar en viðmælandi hennar, sem Tracy ályktaði að væri Glenn, var í hvarfi við runnann.

Tracy sagðist hafa séð það sem hún taldi vera blóðbletti á treyju Alieshu, og spurt: Aliesha, er í lagi með þig? Aliesha þér blæðir.“ Aliesha hefði svarað að bragði: „Nei, þetta er málning.“

Sennilega Janelle

Tracy sagði að Aliesha hefði verið afar rauð í framan og hún hefði dregið þá ályktun að Aliesha skammaðist sín fyrir að hafa verið gripin glóðvolg í hávaðarifrildi við eiginmann sinn.

Um korteri síðar sá Tracy hjónakornin standa við hvíta fólksbifreið sem hafði verið bakkað inn í verkfæra- og viðhaldsskúr hótelsins. Hún hafði séð Glenn koma þaðan út um opnar dyrnar.

Hún velti því ekkert frekar fyrir sér á þeirri stundu, hélt enda að aðeins þau tvö hefðu staðið í rifrildi.

Það var ekki fyrr en þó nokkru seinna sem það rann upp fyrir henni að óþekkta manneskjan á bak við runnann gat ekki hafa verið Glenn. Sennilega hefði verið um Janelle að ræða.

Janelle forvitnaðist um Glenn

Í öðrum framburði sínum, hjá lögreglunni í febrúar 2006, sagði Tracy að tveimur vikum áður en Janelle var myrt hefði hún komið inn á veitingastað Hillcrest með hópi fólks. Þegar Janelle fékk tækifæri til að vera ein með Tracy hefði hún spurt hvort Aliesha ynni á hótelinu.

Tracy sagði Janelle sem var, að Aliesha ynni í gestamóttökunni og aðspurð sagði hún einnig að Aliesha væri verulega indæl.

Enn fremur sagði Tracy: „Maður Alieshu, Glenn, barst í tal. Ég man að ég sagði að Glenn væri svolítill asni og að ég hefði heyrt orðróm þess efnis að hann væri lausgirtur. Ég spurði Janelle af hverju hún væri að forvitnast um hann, en þá breytti hún um umræðuefni.“

Óvenjumikill áhugi

Í samtali sem Tracy og Aliesha áttu síðar spurði sú síðarnefnda Tracy hvort mögulegt væri að ekið hefði verið af ásettu ráði á Janelle, eða eitthvað í þeim dúr. „Ég sagði að það væri mögulegt því Janelle hefði reitt sumt fólk á eynni til reiði,“ sagði Tracy við lögregluna.

Má, í ljósi frásagnar Tracy, ætla að Aliesha og Glenn hafi verið óvenju áhugasöm um morðið.

„Innan við viku eftir þetta var ég í vinnunni, í starfsmannaherberginu, og Aliesha kom út af skrifstofunni og sagði mér að Glenn hefði heyrt orðróm þess efnis að ég hefði séð þegar Janelle var myrt, og að ég væri dauðskelfd. Ég sagði henni að þetta væri ósatt,“ sagði Tracy enn fremur.

Aliesha í uppnámi

Að sögn Tracy var hún um kvöldið við vinnu sína á bar hótelsins og Glenn og Aliesha gáfu sig á tal við hana enn og aftur. Aftur höfðu skötuhjúin á orði að umtalað væri að hún hefði verið vitni að morðinu á Janelle. Síðan sagði Glenn eitthvað á þessa leið: „Hafðu engar áhyggjur Tracy, ég heyrði því líka fleygt að þú hefðir gert það [myrt Janelle].“

Að endingu sagði Tracy lögreglunni, þennan dag í maí 2002, að þegar eyjaskeggjar hefðu verið beðnir að upplýsa um ferðir sínar daginn þegar Janelle var myrt hefði hún orðið við þeirri ósk. Tracy hefði þá tekið eftir því að Aliesha Taylor varð óvenjulega taugaóstyrk þegar hún sá Tracy mætta í þeim erindagjörðum.

Á öndverðum meiði

Svo mörg voru þau orð og hvað sem frásögn Tracy líður þá ákvað saksóknarinn, Graham Rhead, að beina sjónum sínum að Glenn McNeill. Hafði hann á orði að fyrir lægju næg sönnunargögn til að sannfæra kviðdóm um sekt Glenns.

Verjandi Glenns, Peter Garling, var ómyrkur í máli og sagði málatilbúnaðinn á hendur skjólstæðingi sínum morandi í gloppum og að ekki ætti að rétta yfir honum.

Verjandanum varð ekki að ósk sinni og sem fyrr segir var Glenn McNeill sakfelldur fyrir morðið á Janelle Patton og fékk, þegar upp var staðið, lífstíðardóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum