fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Gálgamaturinn George

Lítil heilsubót reyndist fólgin í nánum kynnum við George

Ritstjórn DV
Mánudaginn 5. mars 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var deginum ljósara að sækjandanum Sir Edward Carson leist ekki á George Chapman. „Ég hef aldrei augum litið slíkt illmenni. Hann leit út eins og einhver ill skepna. Ég átti allt eins von á að hann stykki yfir sakamannabekkinn og réðist á mig,“ sagði Sir Edward.

Umræddur George hét reyndar Seweryn Antonowicz Klosowski og hafði komið til Englands frá Póllandi árið 1888.

Hann gerðist aðstoðarmaður bartskera í East End í London, en kvæntist síðar og flutti búferlum til Bandaríkjanna.

Gerist veitingamaður

Árið 1895 hafði hann skilið við eiginkonu sína og sneri aftur til Englands. Þangað kominn flutti hann inn til Mary Spink. Mary var gift á þeim tíma, en eiginmaður hennar hafði fengið nóg af taumlausri drykkju hennar og látið sig hverfa.

Eitthvert fé átti Mary í handraðanum og gerðist George ástmaður hennar. Gekk hann síðan gegndarlaust í fjárhirslur Mary og nýtti féð til að gerast veitingamaður og húsráðandi á Prince of Wales-kránni við City Road í London.

Heilsutæpar ástkonur

Fór þá heldur að síga á ógæfuhliðina hjá Mary. Einhver magakrankleiki hrjáði hana og hún kvartaði tíðum yfir verkjum. Við þetta bættust uppsölur og henni elnaði sóttin og gaf upp öndina í desember 1897.

Harmurinn herjaði ekki lengi á George og áður en langt um leið hafði hann stofnað til sambúðar með nýjustu bardömunni sinni, Bessie Taylor. Fljótlega varð Bessie heilsulítil og George skeytti gjarna skapi sínu á henni. Þau færðu sig um set og komu sér fyrir á Monument Tavern við Union Street. Heilsu Bessie hrakaði stöðugt, hún kastaði sífellt upp og læknar voru ráðalausir. Hún skildi við, 36 ára aldri, árið 1901.

Grunur vaknar

Maud Marsh, 19 ára, tók við stöðu Bessie, hvort tveggja á barnum og í beði Georgs. Fljótlega varð ljóst að ekki var mikil heilsubót fólgin í nánum félagsskap við George. Maud sýndi brátt sömu sjúkdómseinkenni og fyrirrennarar hennar og dó árið 1902.

Þá bar svo við að læknir hennar neitaði að gefa út dánarvottorð. Hann hafði einnig séð um Bessie síðustu daga hennar og fannst sem maðkur væri í mysunni.

Að auki hafði móðir Maud haft á orði við lækninn að hana grunaði að dóttur sinni hefði verið byrluð ólyfjan. Læknir móðurinnar var sama sinnis.

Sannanir finnast

Líkið af Maud var krufið og, mikið rétt, fundust leifar af antímoni, sem hefur álíka virkni og arsenik. Lík Mary og Bessie voru þá grafin upp og þar var sömu sögu að segja. Einnig lá ljóst fyrir að George hafði endrum og sinnum keypt þetta efni.

Í Old Bailey í London var kveðinn dauðadómur yfir George og þann 7. apríl, 1903, átti hann stefnumót við gálgann.

Það sem síðan hefur vakið upp spurningar er hví George myrti konurnar. Ekki var hann kvæntur þeim og því var fjárhagslegur ávinningur, í formi arfs, enginn og honum hefði verið í lófa lagið að snúa við þeim baki hvenær sem hann vildi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum