Ömmumorðinginn

Olaf Däter var skuldum vafinn – Misnotaði traust aldraðra kvenna

Kolbeinn Þorsteinsson skrifar
Mánudaginn 12. desember 2016 22:00

Þann 14. júní, 2001, var dyrabjöllunni hringt hjá Mörthu Neubauer, 82 ára gamalli konu í Bremerhaven í Þýskalandi. Fyrir utan stóð maður sem hún þekkti vel, Olaf Däter, Bangsi eins og hann var stundum kallaður í vinsemd, enda 193 sentimetrar á hæð og vóg 130 kíló.

Olaf, sem starfaði við umönnun aldraðra, sagði Mörthu að hann þyrfti að kanna hvort baðherbergi hennar fullnægði þörfum hreyfihamlaðra. Martha hleypti Olaf inn í góðri trú.

Missti meðvitund

Þegar Olaf var kominn inn réðst hann á Mörthu aftan frá, dró hana að rúmi hennar og þrýsti andliti hennar niður í koddann. „Hvað viltu frá mér?“ tókst Mörthu að stynja upp. „Peninga,“ hvæsti Olaf.

„Drengur minn, hirtu peningana og farðu,“ gat Martha sagt rétt áður en hún missti meðvitund.

Ein kona hélt lífi og varð það Olaf að falli.
Í haldi lögreglu Ein kona hélt lífi og varð það Olaf að falli.

Olaf Däter fann 3.700 mörk í íbúðinni og lét sig síðan hverfa, þess fullviss að Martha væri liðið lík. En Martha tórði; með þrjú brotin rifbein, sár á höfði, glóðarauga og illa marin víða á líkamanum.

Fyrir vikið gat hún vísað lögreglu á ódæðismanninn.

„Drengur minn, hirtu peningana og farðu.“

Meira á samviskunni

Innan skamms var Olaf kominn í vörslu lögreglunnar og þá kom ýmislegt upp úr kafinu. Því fór fjarri að Martha væri fyrsta og eina fórnarlamb Olafs. Reyndar vildi svo til að hann hafði farið rakleiðis heim til hennar eftir að hafa heimsótt 89 ára konu, Anneliese K., en hún hafði ekki verið jafn lánsöm og Martha og var ekki til frásagnar.

En fleiri konur höfðu lent í klónum á „Bangsa“ sem hafði öðlast traust þeirra í gegnum starfa sinn.
Fjórar aldraðar konur höfðu dagana áður fundist látnar í rúmum sínum og höfðu læknar úrskurðað að dauða þeirra hefði borið að með eðlilegum hætti.

Kyrktar með trefli

Olaf Däter hafði verið séður er hann réð konunum bana. Ávallt hafði hann gætt þess að koma þeim fyrir í rúminu áður en hann kyrkti þær með trefli og beitti þunga sínum til að kæfa þær. Við fyrstu sýn virtist sem konurnar hefðu andast í svefni.

Fyrsta fórnarlambið, Lisbeth N., 87 ára ekkja, féll fyrir hendi hans 5. júní. Tveimur dögum síðar myrti Olaf Margarethe M., 85 ára, sem greiddi honum 850 mörk svo hann þyrmdi lífi hennar, sem hann svo gerði ekki.

Þann 10. júní réðst Olaf til atlögu við Helene K. Hún var engin fyrirstaða, enda 83 ára, 151 sentimetri á hæð og vóg 45 kíló.

Fjórða fórnarlambið var Lieselotte S., sem Olaf myrti 12. júní og síðan, sem fyrr segir, Anneliese og sú sjötta Martha, sem varð honum að falli.

Einföld ástæða

Olaf Däter, sem fjölmiðlar gáfu viðurnefnið Ömmumorðinginn – „Oma-Mörder“, fékk lífstíðardóm í nóvember 2001 án heimildar til að sækja um reynslulausn að 15 árum liðnum.

Ástæða morðanna var ekki flókin; fjárhagsvandamál og skuldir. Afraksturinn nam 5.000 þýskum mörkum, jafnvirði 892.000 íslenskra króna þá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af