Ófögur sjón blasti við ökumanni og farþega húsbíls sem stóð á malarstæði við Arnarfell, nærri Krýsuvík, í vikunni. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur fram að búið hafi verið að brjóta rúðu til að komast inn í bifreiðina.
Dýrum lausamunum var stolið úr bifreiðinni, en að sögn lögreglu voru tveir erlendir ferðamenn með bifreiðina á leigu. Tjáðu þeir lögreglu frá því að þeir hefðu brugðið sér í göngu og aðkoman verið þessi þegar þeir komu til baka. Meðal þess sem stolið var voru persónuskilríki, Dell-fartölva, Nikon-myndavél og linsur.
Málið er í rannsókn, að sögn lögreglu.