Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í kvöld eftir að tilkynning barst um flugvél sem hafði nauðlent í Kinnafjöllum, sunnan Skálavatns. Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér nú á tólfta tímanum kemur fram að tveir hafi verið um borð í vélinni og verða þeir fluttir til aðhlynningar á Akureyri.
Tilkynnt var um málið rétt eftir klukkan 21 í kvöld og í fyrstu tilkynningu lögreglu vegna slyssins kemur fram að þeir tveir sem voru um borð séu ekki taldir alvarlega slasaðir. Aðgerðaáætlun flugslysa var virkjð og aðgerðastjórn sett upp á Akureyri og Húsavík. Auk þyrlu Landhelgisgæslunnar voru bjögunarsveitir ræstar út.
Talið er að vélin hafi lent í snjó en um borð voru maður og kona. Flugmenn á lítilli flugvél fóru fljótlega í loftið eftir að tilkynning barst og náðu þeir að sjá fólkið og koma búnaði til þeirra til að þau gætu haldið á sér hita. Tveir björgunarsveitarmenn á vélsleðum sem voru á eigin vegum á ferð á þessu svæði voru sendir í áttina að þeim og náðu þeir að komast fyrstir á staðinn og hlúa að þeim. Fólkið hafði þá tjaldað til að halda á sér hita.
Rannsóknarlögreglumenn frá Akureyri og menn frá Rannsóknarnefnd flugslysa eru byrjaðir að undirbúa vettvangsrannsókn, að sögn lögreglu en fólkið sem var í vélinni er nú á leið til Akureyrar, sem fyrr segir.