Einn af konungum hryllingsmyndanna fallinn frá

Var 74 ára þegar hann lést.
Tobe Hooper Var 74 ára þegar hann lést.

Tobe Hooper, maðurinn sem færði okkur hryllingsmyndir á borð við The Texas Chainsaw Massacre og Poltergeist, er fallinn frá, 74 ára að aldri.

Hooper var fæddur í Texas árið 1943 en hann sló fyrst í gegn árið 1974 með fyrrnefndri mynd um snarbilaða og morðóða fjölskyldu í Texas. Í kjölfarið fylgdu myndir eins og Eaten Alive, The Funhouse og Poltergeist árið 1982 sem sló rækilega í gegn, en myndin var gerð eftir handriti Stevens Spielberg.

Áður en Hooper leikstýrði The Texas Cainsaw Massacre fékkst hann við heimildarmyndir og sjónvarpsauglýsingar, en myndin kostaði aðeins 300 þúsund Bandaríkjadali í framleiðslu. Eins og mörgum Íslendingum er kunnugt fór Gunnar Hansen með hlutverk Leatherface í myndinni. Myndin var ein áhrifamesta hrollvekja 20. aldarinnar og ruddi brautirnar fyrir aðrar sambærilegar myndir.

Myndin var mjög umdeild og bönnuð í nokkrum löndum. Þrátt fyrir það sló myndin í gegn og þénaði hún tæplega 31 milljón Bandaríkjadala í kvikmyndahúsum eftir að hún kom út.

Hooper, ásamt mönnum eins og George Romero, John Carpenter og Wes Craven, var hátt skrifaður í hryllingsmyndageiranum á seinni hluta 20. aldarinnar. Síðasta mynd Hoopers var myndin Djinn sem kom út árið 2013, en myndin gerist í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.