fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Ríkisstjórn Jóhönnu lyfti grettistaki: „Ég vil ekki meina að Samfylkingin sé fallin“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 27. maí 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

*Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er höfundur árbókar Ferðafélagsins 2017. Bókin nefnist Við Djúpið blátt – Ísafjarðardjúp. Ólína á ættir að rekja til Ísafjarðar, fluttist þangað 14 ára gömul með fjölskyldu sinni og var þar í menntaskóla. Síðar fluttist hún til Reykjavíkur og lærði íslensku, bókmenntir og þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún starfaði meðal annars sem sjónvarpsfréttamaður, borgarfulltrúi og háskólakennari en sneri aftur til Ísafjarðar árið 2001 til að taka við starfi skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Hún varð þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2009–2013 og 2015–2016.

Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Ólínu og ræddi við hana um nýju bókina, árin á Ísafirði, starfsferilinn, pólitíkina og skáldskapinn.*

Ríkisstjórn Jóhönnu lyfti grettistaki

Ertu jafnaðarmaður í eðli þínu?

„Ég er félagshyggjukona, kannski aðeins meira til vinstri en meginstraumurinn. Samt hef ég aldrei litið á mig sem sósíalista. Ég er sósíaldemókrati.

Meðan við greiðum til samfélagsins af okkar eigin tekjum þá á að nýta það fjármagn í þágu samfélagsins. Mér hefur sviðið að fylgjast með því undanfarna áratugi hversu hagsmunaöfl á Íslandi ráða miklu, þau hafa tekið stjórnun landsins í sínar hendur. Það er skuggalegt að horfa upp á það.“

Hvaða hagsmunaöfl?

„Sterkar atvinnugreinar til dæmis, eins og fjármálakerfið og útgerðarauðvaldið. Ferðaþjónustan er að komast í þessa stöðu, er orðin mjög sterk atvinnugrein og sýnir tilburði í þá átt að taka til sinna ráða. Stjórnmálamenn verða að hafa sterk bein gagnvart þessu og minna sig á það dag hvern að þeir eru í þjónustu almennings. Annars vegar eru almannahagsmunir, hins vegar sérhagsmunir. Það eru almannahagsmunirnir sem eiga alltaf að vega þyngst.“

Hvað varð Samfylkingunni að falli?

„Ég vil ekki meina að Samfylkingin sé fallin en hún missti fótanna. Ég held að hún hafi ekki þolað kjörtímabilið eftir hrun. Hún færðist of mikið í fang og gat ekki staðið við öll þau kosningaloforð sem gefin höfðu verið. Þrjú þungavigtarmál runnu út í sandinn á því kjörtímabili: Evrópusambandsmálið, sjávarútvegsmálin og stjórnarskrármálið. Ég held að það hafi ráðið úrslitum um hrun Samfylkingarinnar. Það skapaðist vantrú sem flokkurinn er ekki búinn að bíta úr nálinni með ennþá.

Eftir að Jóhanna steig til hliðar tók við forystukreppa. Það var greinilegt að það var ekki eining innan flokksins um hvert skyldi stefna og flokkurinn fylkti sér ekki einhuga á bak við þann formann sem kjörinn hafði verið. Við bættist svo stjórnmálaþreyta og reiði almennings.

Við skulum samt ekki gleyma því að ríkisstjórn Jóhönnu lyfti grettistaki. Reisti landið úr rjúkandi rúst og kom efnahagslífinu aftur á réttan kjöl. Sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem sat á síðasta kjörtímabili hafa í rauninni verið að njóta ávaxtanna af þeim ákvörðunum sem teknar voru í ríkisstjórn Jóhönnu.“

Heldurðu að Samfylkingin geti risið upp úr rústunum?

„Já, en ég held að þetta sé langhlaup en ekki spretthlaup. Stjórnmálaflokkar geta ekki krafist trausts, eins og manneskjur í lífinu verða þeir að ávinna sér traust. Það er ekki hægt að laga allt með auglýsingapésum og góðri kynningarstarfsemi. Heilindi verða að vera til staðar. Ef menn eru sjálfum sér samkvæmir þá verður málflutningur þeirra trúverðugur og traustið vex.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun