fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Bryndís minnist móður sinnar: „Nokkrum dögum síðar var hún mér glötuð að eilífu. Tækifærið hafði runnið mér úr greipum“

Auður Ösp
Föstudaginn 24. mars 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég man enn hina miklu hlýju, sem stafaði af mjúkum líkama hennar. En samtímis skynjaði ég angist og örvæntingu í faðmlagi konu, sem hafði aldrei látið bilbug á sér finna, aldrei opnað sig – og eiginlega aldrei á ævinni tekið utan um mig á þennan hátt. Á þessu augnabliki var ég hin sterka, hún hin veika – munaður, sem hún hafði aldrei leyft sér áður.“ Þannig rifjar Bryndís Schram upp seinasta augnablikið sem hún átti með móður sinni, Aldísi Þorbjörgu Brynjólfsdóttur Schram vorið 1991.

Móðir Bryndísar eignaðist alls sjö börn en í einlægum pistli á vef Eyjunnar lýsir Bryndís henni sem sannkallaðri kjarnakonu sem gaf sig alla í heimilið og börnin.

„Saumaði á okkur, prjónaði á okkur, fór í ber á hverju ári, sultaði, tók slátur, bakaði reglulega og eldaði mat upp úr danskri kokkabók, sem lá alltaf á eldhúsborðinu. Fiskur alla daga – ýsa var það, heillin – ýmist soðinn eða steiktur, saltaður eða reyktur. Stundum bollur eða kássur.“

Bryndís segir móður sína hafa verið færa í flestan sjó þó svo að hún hefði aldrei lokið námi. „Samt kunni hún allt – jafnvel að reikna! Og sá hæfileiki kom sér vel seinna, þegar hún fór að stunda bridge af ástríðu – Íslandsmeistari í kvennaflokki, ef ég man rétt! Og hvað hún hafði gaman af því að leysa heimadæmin fyrir mig – algebra var hennar eftirlæti! Mamma var nefnilega að upplagi stærðfræðingur – hefði notið sín sem reiknimeistari á verkfræðistofu!
En þar fyrir utan hafði hún næmt eyra fyrir tungumálum. Hafði gaman af að glósa fyrir mig dönsku, þýsku, ensku – og jafnvel frönsku, þegar ég var komin í fimmta bekk í menntó. Hún var alger nörd, hún mamma – þó að hún væri líka fegurðardrottning.“

Bryndís kveðst jafnframt eiga margar fallegar myndir í huganum af móður sinni. „Hún bar heitan mat á borð og spurði frétta. „Hvað gerðuð þið í dag? Er mikil heimavinna? Má ég kíkja?“ Kannski leiddist henni, kannski saknaði hún einhvers, hún mamma. Langaði hana kannski til að vera einhvers staðar annars staðar? Í fínni dragt á stórum vinnustað úti í bæ? Hefði það fært henni meiri hamingju? Var það það, sem hún þráði? Stundum var hún döpur, og þá leið mér illa, gat ekki einbeitt mér. Stundum – og oftast – var hún þó glöð, og þá geislaði af henni.“

Seinasta minningin sem Bryndís á um móðir sína er um vorið 1991. Á þeim tíma lá móðir hennar banaleguna, og upplifði Bryndís það í fyrsta sinn að hún væri sterkari aðilinn.

„Ég var að koma úr sundi og ákvað að líta inn. Í eldhúsinu sátu Malla systir, Aldís, elsta dóttir mín, og einhverjar fleiri. Mamma var að bera þeim kaffi. Hún var föl í andliti, ögn þreytuleg og ekki eins einbeitt og hún átti að sér. Aldrei þessu vant – og alveg óvænt – kom hún á móti mér og tók utan um mig þarna í eldhúsinu. Ég man enn hina miklu hlýju, sem stafaði af mjúkum líkama hennar. En samtímis skynjaði ég angist og örvæntingu í faðmlagi konu, sem hafði aldrei látið bilbug á sér finna, aldrei opnað sig – og eiginlega aldrei á ævinni tekið utan um mig á þennan hátt. Á þessu augnabliki var ég hin sterka, hún hin veika – munaður, sem hún hafði aldrei leyft sér áður. Og það var svo gott, og ég var svo hamingjusöm – og mér þótti svo vænt um hana. Héðan í frá mundi ég annast hana.

Hún hallaði sér upp að mér og hvíslaði: „Ég er alveg að gefast upp, Bryndís, ég get ekki meir“. Nokkrum dögum síðar var hún mér glötuð að eilífu. Tækifærið hafði runnið mér úr greipum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun