fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Helgi opnar sig um harmleikinn: Trúir á líf eftir dauðann

„Það getur ekki verið að við séum látin fæðast hérna bara til að puða“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 27. febrúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hann heitir Siimm, kemur hingað einu sinni til tvisvar á ári og er einn af okkur.“

Helgi Vilhjálmsson, eða Helgi í Góu, eins og hann er venjulega kallaður, er ötull talsmaður lífeyrisþega og sömuleiðis ungs fólks sem á í erfiðleikum með að koma sér þaki yfir höfuðið. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Helga og ræddi við hann um þessi málefni og forvitnaðist auk þess um fyrirtækjareksturinn og lífshlaupið.

Blaðamaður hittir Helga í höfuðstöðvum Góu og Kentucky Fried í Hafnarfirði. Helgi hefur lengi haft brennandi áhuga á málefnum lífeyrissjóðanna og hag lífeyrisþega og þetta eru vitanlega málefnin sem viðtalið snýst um.

„Það er engin smáupphæð sem er tekin af okkur í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðirnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við peningana, þeir eiga svo mikið af þeim. En ef eldri borgarar vilja að fá eitthvað af sínum eigin peningum til baka þá blæðir þeim hjá lífeyrissjóðunum alveg óskaplega. Lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta í húsnæði sem hentar öldruðum,“ segir Helgi. „Mér finnst leiðinlegt að það skuli hafa farið framhjá öllum að í hruninu sögðust lífeyrissjóðirnir hafa tapað 500 milljörðum. Hvernig stóð á því? Það var ekki skoðað. Ég hef spurt: Af hverju töpuðu lífeyrissjóðirnir með alla sína sérfræðinga? Sjálfur tapaði ég engu í hruninu. Ég vil fá svar við þessari spurningu en það virðist enginn hafa tíma til að kafa ofan í það mál. Hvernig væri að fjölmiðlar sinntu því.“

„Ég hef farið úr 100 fermetrum í 7.000 fermetra.“
Velgengni „Ég hef farið úr 100 fermetrum í 7.000 fermetra.“

Mynd: © Heiða Helgadóttir

Lífeyrissjóðir eiga að byggja fyrir aldraða

Þú hefur lengi látið þig málefni eldri borgara miklu varða. Hefur eldra fólk mikið samband við þig?

„Ég má varla hitta mann án þess að hann nefni þetta á nafn og segi: „Helgi, þú verður að halda áfram!“ Ég segi: stundum: „Jú, jú, ég held áfram að berjast en þið verðið að standa á bak við mig.“ Við ellilífeyrisþegar eigum eitt sterkt vopn, þótt við notuðum það ekki í síðustu kosningum. Þetta vopn er kosningarétturinn. Við getum merkt við þann sem ætlar að gera eitthvað.“

Hverjir eru það sem þú treystir helst til þess gera eitthvað í málefnum ellilífeyrisþega?

„Maður verður að sjá til með það. Maður kýs þá sem maður heldur að muni koma hlutunum í rétt far en svo virðast þeir ekki hafa áhuga á því. Sjáðu ungu Sjálfstæðismennina. Þeir eru æstir í að koma brennivíni inn í allar búðir en þeim er alveg sama um okkur eldri borgarana. Ég vil sjá þá eins æsta í að gamla fólkinu líði vel í ellinni. Svo mega þeir ekki gleyma því að þeir verða sjálfir gamlir einn góðan veðurdag. Þeir ættu að huga að því frekar en að leggja alla áherslu á að koma rauðvíninu sínu inn í Hagkaup.“

Hvað viltu að verði helst gert í málefnum eldri borgara?

„Ég ítreka það að lífeyrissjóðirnir eiga að byggja yfir aldraða. Við eldri borgarar eigum ekki að þurfa að bíða í tvö til fjögur ár eftir að komast úr íbúðinni okkar í hentugt húsnæði fyrir aldraða. Það gleymist alveg að tala um það að ef við förum úr okkar íbúð þá losnar um leið íbúð fyrir fjölskyldufólk. Ég lét einu sinni teikna snyrtilega 27 fermetra einstaklingsíbúð með baðherbergi. Þegar ég gerði þetta sögðu einhverjir menn að þetta væri allt of lítið rými, þetta yrðu að vera allavega 40 fermetrar. Það getur alveg verið rétt en ég var að reyna að brúa ákveðið bil því stundum eru tveir einstaklingar í 12 fermetrum þar sem er hvorki klósett né snyrtiaðstaða. Eldri borgarar eiga rétt á því að hafa að minnsta kosti aðgang að því sem er nauðsynlegt, eins og klósetti og vaski, þó maður sé ekki að biðja um mikið meira. Af því að ég er orðinn eldri borgari sjálfur þá veit ég hvers virði það er að hafa aðgang að þessum hlutum.“

Hvernig finnst þér að eldast?

„Mér finnst það allt í lagi enda ekki hægt að koma í veg fyrir það. Ég á mitt einbýlishús skuldlaust og hef alla tíð reynt að skulda lítið. Þess vegna hef ég kannski lifað af. En mér finnst hræðilegt þegar fólk sem er búið að þjóna landi og þjóð þarf að hafa áhyggjur og neyðist til að fara á biðlista og bíða í nokkur ár eftir að komast í þjónustuhúsnæði fyrir aldraða. Manni finnst líka skelfilegt að hjón geti ekki fengið að vera saman síðasta ævikvöldið, jafnvel er annað þeirra sent út á land á stofnun fyrir aldraða. Svona hlutir eiga ekki að gerast.

Það verður að gera eitthvað fyrir okkur eldri borgarana, þetta nær engri átt. Og hvernig stendur á því að ef við eigum rétt á lífeyrissjóði þá megum við varla vinna? Af hverju breytist fólk í annan skattborgara þegar það er orðið 67 ára. Hvaða rugl er það?“

Bankar eiga að leysa málin

Það eru ekki einungis málefni ellilífeyrisþega sem Helgi hefur brennandi áhuga á. Hann hefur miklar áhyggjur af húsnæðisvanda ungs fólks. „Ég fór að heiman 15 ára, nú fer fólk ekki að heiman fyrr en 30–35 ára,“ segir hann. „Það er rosalegt að fólk sem vinnur hjá manni þurfi að vera í skollaleik til að komast í gegnum greiðslumat. Það er sagt við það: Geturðu ekki átt tvær milljónir á bankabók í tvo sólarhringa? Ég vildi aðstoða mann sem var í vandræðum með að kaupa íbúð. Ég sagði honum að við skyldum setja íbúðina á mitt nafn en ég komst ekki í gegnum greiðslumat upp á 17 milljónir fyrr en í þriðja sinn.

Ég á lóð hér á Völlunum og langaði til að byggja þar 20 litlar íbúðir, um 50 fermetra, fyrir unga fólkið sem er í vinnu hjá mér. Ég hugsaði þetta þannig að unga fólkið fengi 100 prósent lán. Auðvitað þarf að borga af því en þegar maður er ungur hefur maður mikla orku, spýtir í lófana og getur tekið á sig aukavinnu. Ef það er útskýrt fyrir ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð að það þurfi að vinna nokkra tíma í næturvinnu til að borga lán þá er þetta ekkert mál. En þessir ágætu menn sem stjórna þessu vildu það ekki. Þeir sem áttu hús þarna fyrir fengu að breyta iðnaðar- og verslunarhúsnæði í hótelíbúðir. „Geturðu ekki látið þetta heita hótelíbúðir?“ var sagt við mig. En ég vildi ekki taka þátt í einhverjum skrípaleik. Ég fæ ekki að byggja þessar íbúðir eins og er en það koma aftur kosningar í bæjarfélaginu. Ég á leik þá.

Mér finnst forkastanlegt að þegar ungt fólk kemur í bankann í dag þá er það ekki spurt hvað sé að. Ef spurt væri að því myndi bankinn komast að því að það er í rauninni ekkert að, viðkomandi þarf bara tveggja milljóna króna lán í tvö til fimm ár. Bankar eiga að vera í þannig bisness í stað þess að snúa öllu á hvolf og taka af fólki í staðinn fyrir að leysa málin.

Bankarnir eru ekki að hjálpa ungu fólki og þess vegna segi ég enn og aftur, það eru lífeyrissjóðirnir með alla þessa peninga sem eiga að hjálpa því. Ég vil að lífeyrissjóðirnir láni ungu fólki skyndilán. Ef ég ræki lífeyrissjóð myndi ég segja við fólk: „Ef þið borgið til mín þá skal ég hugsa um ykkur.“ En þeir sem reka lífeyrissjóðina þegja allir.“

„Með hverju árinu sem líður velti ég því æ meir fyrir mér hvort maður stjórnar sjálfur framvindunni.“
Hver stjórnar? „Með hverju árinu sem líður velti ég því æ meir fyrir mér hvort maður stjórnar sjálfur framvindunni.“

Mynd: © Heiða Helgadóttir

Ertu flokkspólitískur?

„Nei, en kannski hefði ég átt að vera það. Þá hefði ég kannski komið einhverjum málum á framfæri þannig að pólitíkusarnir hefðu tekið mark á þeim.“

Klessuverk Kjarvals

Helgi er mikill baráttumaður, eins og hann hefur sýnt og sannað, en hvaðan kemur hann? Aðspurður segist hann hafa alist upp í Kamp Knox, braggahverfinu. „Pabbi var til skiptis á sjó og í landi. Á þessum tíma var slegist um að fá að vera smiður eða múrari en þótt pabbi væri sérstaklega laghentur maður komst hann ekki á samning. Hann vann um tíma í Völundi og þangað kom mikill listamaður sem hét Kjarval og bað hann að gera lista í kringum málverk. Listamaðurinn kunni það vel að meta vinnu pabba að hann kom einu sinni í heimsókn í braggana og gaf pabba málverk af hrauni. Kona í minni fjölskyldu, sem hafði vit á listum, var heilluð af þessu málverki. Ég var bara tíu ára og fannst þetta vera mikið klessuverk.

Það var gaman að eiga heima þarna vestur frá, stutt að ganga niður í bæ og stutt í Melaskólann. Þarna voru tugir stráka og stelpna að leik alla daga og þar var mikið fjör. Þegar ég varð fimmtugur sagði vinur minn: „Helgi, við strákarnir þurfum að fara að hittast allir.“ Það dróst á langinn en svo sagði ég einn daginn: „Ég skal bjóða þeim öllum í mat.“ Þeir voru ekki nógu áhugasamir um það svo ég sagði við vin minn: „Segðu þeim að það verði líka frítt á barinn.“ Þá mættu þeir allir og höfðu gaman af. Ég hugsaði með mér: „Svakalega er barinn sterkur auglýsingamiðill.“ Eftir þetta erum við tuttugu til þrjátíu sem hittumst einu sinni á ári.“

Hann er spurður hvort umhverfi Kamp Knox hafi mótað hann. „Ef það hefur mótað mig þá er ég ánægður með það,“ segir hann. Íbúðirnar í bröggunum voru lítil hreiður, eins og ég kalla það. Ég fór að heiman fimmtán ára gamall og tók á leigu sex fermetra geymsluherbergi uppi á lofti á Hjarðarhaganum. Ég var himinlifandi með þetta húsnæði.“

Heppinn í lífinu

Ákvaðst þú meðvitað að koma undir þig fótunum og stofna fyrirtæki?

„Með hverju árinu sem líður velti ég því æ meir fyrir mér hvort maður stjórnar sjálfur framvindunni. Ég fór að hugsa sérlega mikið um þetta eftir að ég missti son minn og eiginkonu. Maður heldur að maður stjórni flestu en kannski stjórnar maður ósköp litlu.“

Helgi var einungis 26 ára gamall þegar hann stofnaði sælgætisverksmiðjuna Góu. „Ég var búinn að gera ýmislegt áður, enda hafði ég áhuga á svo mörgu. Ég var að reyna að bjarga mér,“ segir hann. „Ég fór ungur maður að gera við barnavagna og reiðhjól. Ég fór líka til Grindavíkur á sjóinn og mér dugði ekki að vera bara á bátnum, mér fannst ég líka verða að opna sjoppu í plássinu. Þar var Mánaborg með afgreiðsluborð og sæti fyrir 50 manns. Eigandinn gat ekki rekið staðinn og ég hringdi í hann og spurði hvort hann vildi leigja mér hann. Svo opnaði ég sjoppuna þegar komið var í land á kvöldin. Það var mjög gaman að vera í Grindavík og kynnast lífinu þar.“

Ertu fæddur rekstrarmaður?

„Rekstur er eitthvað sem hefur verið í mér. Kannski hef ég hugsað eitthvað aðeins lengra en margir – eða svo er líka spurning hver stjórnar, hvort það sé maður sjálfur eða eitthvert annað afl. Ég tel mig hafa verið heppinn í lífinu og hef verið laus við tóbak og brennivín og það er engin spurning að það skapar miklar tekjur. Svo hef ég líka alltaf haft gott fólk í kringum mig. Í starfi eins og mínu verður maður að hafa fólkið með sér, maður gerir lítið án þess. Þar hef ég sannarlega verið mjög heppinn.“

Peningar hafa ekki truflað

Helgi lét sér ekki nægja að stofna sælgætisgerðina Góu heldur kom með Kentucky Fried til Íslands, fjölmörgum landsmönnum til mikillar gleði. „Já, 1980 datt mér þetta í hug. Þá gengum við í EFTA og þá hélt fólk að það væri engin framtíð í því lengur að framleiða íslenskt sælgæti. Mér fannst tilvalið að koma með Kentucky Fried til Íslands en menn höfðu ekki mikla trú á þeirri hugmynd. Þetta er hreint kjúklingakjöt, ekki hænur eins og einn sagði við mig. „Ég borða engar hænur, Helgi,“ sagði hann. „Þetta er kjúklingur, bara sex vikna gamall,“ sagði ég. Það tók mig tíu ár að fá hann til að borða kjúklinginn en ég held að hann hafi borðað Kentucky í hverri viku eftir það.“

Þú borðar Kentucky en borðaðu líka sælgætið sem þú framleiðir?

„Já, ég geri það. Þú sérð hvað ég er myndarlegur!“

Hvaða máli skipta peningar þig?

„Ekkert óskaplega miklu máli. Að vísu er gott að hafa þá en þeir hafa ekki truflað mig eða mína fjölskyldu mjög mikið. Mér hefur sýnst fólk sem á peninga vera yfirleitt mjög jarðbundið og passasamt. Maður eignast reyndar ekki peninga nema vera passasamur. Mér hefur gengið mjög vel, á næsta ári eru 50 ár síðan þetta fyrirtæki var skrásett og það hefur alltaf haft sömu kennitölu.“

„Á næsta ári eru 50 ár síðan þetta fyrirtæki var skrásett og það hefur alltaf haft sömu kennitölu.“
Fyrirtækið „Á næsta ári eru 50 ár síðan þetta fyrirtæki var skrásett og það hefur alltaf haft sömu kennitölu.“

Mynd: © Heiða Helgadóttir

Ertu mjög vinnusamur?

„Ég hef haft afskaplega gaman af að vinna, hef verið í skapandi og skemmtilegu starfi með góða vöru og uppbygging hefur verið mikil. Ég hef farið úr 100 fermetrum í 7.000 fermetra. Ég hef líka verið mjög heilsuhraustur og er það enn í dag. Enda sit ég hérna við borðið með þér, 75 ára gamall.“

Harmleikurinn

Helgi segist hafa átt gott líf en harmleikurinn í lífi hans er morðið á syni hans, Hannesi Þór. Eiginkona hans til fimmtíu ára, Jóna Steinunn, lést ári seinna úr krabbameini. „Mér er sagt af fólki sem hefur lent í svipuðum sporum og við að það reyndist konunum afar þungbært að missa barn sitt og dæmi eru um að þær hafa dáið stuttu seinna. Allt var þetta mjög erfitt en það hjálpaði mér mikið að ég á bæði góða vini og góða fjölskyldu. Vinnan hjálpaði mér líka.“

Þegar þú lítur til baka, varstu reiður og ertu reiður vegna þess sem gerðist?

„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ætli ég sé ekki bæði reiður og sár. Ég vorkenni þessum manni að hafa gert þetta. Ég spyr mig hvað hafi verið að honum? Ég missti bæði son minn og konu mína. Ég og sonur minn vorum mjög nánir og hann hafði mikinn áhuga á fyrirtækjarekstrinum. Konan var mín hægri hönd í þessu öllu saman í gegnum tíðina. En svona er lífið, það ekkert hægt að gera við því og maður verður að reyna að vinna úr sorginni. Mér hefur tekist það þokkalega og sömuleiðis fjölskyldunni. Þetta tók mjög á systur Hannesar og sömuleiðis afabörnin. Þetta var öllum afar erfitt.“

Trú á það góða hinum megin

Stuttu eftir lát Hannesar kom í ljós að hann hafði eignast barn með eistneskri konu „Þetta er skrýtið því við vissum ekki af honum fyrr en eftir að Hannes dó. Þá kom bara allt í einu lítill drengur inn í líf fjölskyldunnar,“ segir Helgi. „Við erum í eins miklu sambandi og hægt er. Hann heitir Siimm, kemur hingað einu sinni til tvisvar á ári og er einn af okkur,“ segir Helgi. „Hann var hjá okkur síðasta sumar í mánuð. Mamma hans sem er gift kom líka með nýja manninum og tveimur börnum þeirra. Ég bauð þeim öllum vegna þess að ég get það. Siimm verður átta ára á þessu ári og kemur þá í heimsókn og er mjög spenntur fyrir því.“

Eins og þú hefur talað í þessu viðtali þá finnst mér eins og þú trúir á líf eftir dauðann?

„Ef ég ræki lífeyrissjóð myndi ég segja við fólk: Ef þið borgið til mín þá skal ég hugsa um ykkur. En þeir sem reka lífeyrissjóðina þegja allir.“

„Já, það er engin spurning í mínum huga. Það getur ekki verið að við séum látin fæðast hérna bara til að puða. Ég held ekki. Ég ætla að minnsta kosti að hafa þá trú.“

Þú talaðir oftar en einu sinni í þessu viðtali um það hver stjórnar. Trúirðu á Guð?

„Ég held að maður verði að gera það. Ég trúi á það góða hinum megin. En svo verður hver að hafa trúna fyrir sig. Ég ætla ekki að reyna að troða minni trú upp á nokkurn mann. En væri búið að tala svona mikið um Guð almáttugan um allar þessar aldir ef hann væri bara einhver playboy?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir