fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Alexandra gerðist eggjagjafi: „Ég gaf líf“

Eggheimtuferlið var tilfinningarússíbani – Langur biðlisti fyrir gjafaegg

Auður Ösp
Laugardaginn 25. febrúar 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ákvað að leggja þetta á mig því ég vildi gera góðverk. Ég vildi aðstoða þá sem þurftu á því að halda, ég gaf líf. Vonandi nokkur lítil líf. Ég mun ávallt vera stolt af ákvörðun minni og stolt af sjálfri mér að hafa gengið í gegnum þetta ferðalag sem líkaminn minn fór í,“ segir Alexandra Björg Eyþórsdóttir sem tók þá ákvörðun á síðasta ári að gerast eggjagjafi.

Fjöldi kvenna hér á landi þarf að reiða sig á gjafaegg vegna ófrjósemi en eftirspurnin er meiri en framboðið. Á meðan geta pör og einstaklingar dottið út af biðlistanum, til að mynda vegna aldurstakmarkana eða heilsufars, og eiga þá fáa eða enga valkosti eftir.

Alexandra kveðst lengi hafa velt því fyrir sér að gefa egg, eða frá því hún var 18 ára gömul. Sjálf er hún barnlaus en hyggur á barneignir í framtíðinni ásamt unnustu sinni, Írisi Ósk.

„Ég gef reglulega blóð og er skráð sem líffæragjafi. Nákomin vinkona hefur gengið í gegnum eggheimtu þónokkrum sinnum þó fyrir sjálfa sig en ekki til að gefa. Það opnaði augu mín fyrir því að það eru eflaust mun fleiri í vanda með eggin sín en bara vinkona mín. Í kjölfarið varð ég staðráðin í að gefa egg.“

Í upphafi ferlisins ræddi Alexandra meðal annars við félagsráðgjafa.

„Hún útskýrði gríðarlega margt fyrir mér, til dæmis að ef ég gef tíu egg þá eru það mögulega tíu börn, kannski verða það bara fimm börn, en þessi fimm börn eignast svo maka og eignast fleiri börn. Ég gæti verið í Kringlunni eftir tvö ár og séð lítið barn sem er alveg eins og ég og þá er það mögulega barn með mín erfðaefni.

Félagsráðgjafinn ítrekaði líka mikilvægi þess að ef ég myndi sjálf eignast börn þá ætti ég að segja þeim frá því að ég hefði gefið egg, því á litla Íslandi eru talsverðar líkur á því að þessi börn hittist og myndi kannski ástarsamband og þá er kannski betra að geta stoppað það strax með þeim rökum að þau séu í raun blóðsystkini eða erfðalega séð hálfsystkini.“

Grét yfir hlutum sem skiptu engu máli

Hún segir eggheimtuferlið vissulega hafa verið tilfinningarússíbana en hún sé heppin að eiga góða að. „Allir í kringum mig skildu að ég var ekki með sjálfri mér á tímabili þegar ég var á lyfjum, hormónin voru úti um allt, og ég gat grátið og brosað með tíu sekúndna millibili.

Ég sagði fjölskyldunni, tengdafjölskyldu og vinnufélögum frá því að ég væri að gefa egg, svo að skapsveiflur mínar yrðu ekki misskildar. Vinnuveitandi minn var mjög skilningsríkur og það var ekkert mál að fá frí frá vinnu þegar ég þurfti að mæta í skoðun, og ég tók mér nokkurra daga í frí eftir eggheimtuna sjálfa.

Unnusta mín stóð við hlið mér og ljáði mér öxl þegar ég þurfti og knúsin voru mörg þegar ég grét af engri ástæðu. Ég var ákaflega viðkvæm á tímabili og grét yfir ýmsu sem engu máli skipti.

„Ég gæti verið í Kringlunni eftir tvö ár og séð lítið barn sem er alveg eins og ég.“

Einu sinni vorum við í sumarbústað með tengdó og það komu gestir sem heilsuðu okkur ekki, ég læddist inn í svefnherbergið okkar og sendi Írisi sms og bað hana um að koma til mín, svo grét ég í fanginu á henni af þeirri einu ástæðu að gesturinn heilsaði mér ekki. Eins fáránlegt og það hljómar þá virtist það stórmál einmitt þá.“

Alls náðist að heimta sex egg úr eggjastokk Alexöndru. Hún ákvað að vera svokallaður opinn gjafi, en það þýðir að þegar viðkomandi barn verður 18 ára mun það geta leitað hana uppi ef það óskar þess.
En hvernig er tilhugsunin um að eftir einhver ár verði mögulega nokkur börn þarna úti sem eru að hluta til „þín“ það er að segja með þínu erfðaefni?

„Tilhugsunin um að eftir nokkur ár geti ég mætt litlu barni sem lítur nánast alveg eins út og ég er góð, því ég veit að fjölskylda þessa barns hefur lagt svo mikið að veði til að eiga möguleika á að eignast barn og elskar þetta litla barn svo óendanlega mikið. Það að ég hafi getað hjálpað þeim að láta draum sinn rætast gerir mig hamingjusama. Þó það komi ekki nema eitt barn úr gjöfinni sem ég gjaf þá gerir það mig glaða.“

„Þegar ég hugsa um góðverkið sem ég gerði þá fyllist ég stolti“

„Myndi ganga í gegnum þetta allt aftur“

Alexandra útilokar ekki þann möguleika að gerast aftur eggjagjafi og hvetur aðrar konur hiklaust til þess að íhuga þennan möguleika, enda sé þörfin mikil. „Það er afskaplega langur biðlisti eftir gjafaeggi og fólk sem þarf að bíða lengi og eyða miklum peningum í barn, það virkilega vill eignast barnið.

Eftir á að hyggja þá virkar þetta hræðilegt, algjör martröð að fara í eggheimtu, en þegar ég hugsa um góðverkið sem ég gerði þá fyllist ég stolti, ég gaf mögulega sex pörum von um að eignast barn. Það lætur mér líða vel í hjartanu, og ég myndi ganga í gegnum þetta allt aftur.“

Hver dagur getur skipt máli

IVF klíníkin í Reykjavík er í dag eini aðilinn sem býður upp á tæknifrjóvgunarmeðferð á Íslandi. Í samtali við blaðamann segir Snorri Einarsson, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, að biðin eftir gjafaeggi sé allt að tvö ár.

„Þörfin er mjög mikil og um það bil hundrað manns eru nú á biðlista. Eggjagjöf er oftast lokaúrræði, þegar fólk er búið að reyna í nokkur ár að eignast barn. Þannig að skiljanlega er erfitt að þurfa síðan að bíða í eitt og hálft til tvö ár í viðbót.

Snorri Einarsson, fæðingar og kvensjúkdómalæknir hjá IVF klíníkinni í Reykjavík.
Snorri Einarsson, fæðingar og kvensjúkdómalæknir hjá IVF klíníkinni í Reykjavík.

Því miður er biðin svo löng eftir eggjagjöf að einstaka par leitar erlendis þó að þau vildu frekar fá gjöf héðan. Við vonum innilega að hægt verði að fá fleiri konur til að gefa egg og stytta þannig biðlistana.

Hver dagur getur skipt máli í þessu ferli,“ segir Snorri jafnframt, en ólíkt gjafasæði stendur ekki til að boða að fá gjafaegg að utan. Ástæðan er sú að það fylgir því meiri fyrirhöfn að ná í eggin og geyma þau. Snorri útilokar þó ekki að boðið verði upp á þann möguleika í framtíðinni.

Á seinustu árum hafa 20 til 30 konur gefið egg hér á landi ár hvert. Konur sem gefa egg hjá IVF klíníkinni fá greitt svokallað óþægindagjald að upphæð 150 þúsund króna en Snorri tekur fram að ekki sé um að ræða umbun heldur sé þannig verið að vega á móti þeirri fyrirhöfn og vinnutapi sem hugsanlega getur orðið á meðan ferlið stendur yfir.

Eggjagjöf getur annaðhvort verið nafnlaus eða undir nafni og ráða þá óskir bæði eggjagjafa og eggþega. Hvetjið þið foreldra sem hafa farið þessa leið til þess upplýsa börnin síðar meir um uppruna sinn?

„Já, og við styðjum fólk og upplýsum með aðstoð sérmenntaðs félagsráðgjafa,“ segir Snorri og bætir við að eggjagjafarnir séu einnig hvattar til að upplýsa sín eigin börn að þær hafi gefið egg. „Okkur finnst það best að þetta sé uppi á borðinu.“

Mynd: (c) Mark Goddard 2007

Konur á aldrinum 20–35 ára sem ekki eru haldnar neinum þekktum arfgengum sjúkdómum, kynsjúkdómum eða öðrum sjúkdómum sem gætu aukið áhættu fyrir þær við eggjagjöf koma til greina sem eggjagjafar. Snorri segir þær konur sem gerast eggjagjafar margar hverjar á fertugsaldri og búnar með sinn „barneignapakka.“ Margar þeirra eru þó á seinni hluta frjósemisskeiðsins, á meðan ákjósanlegast er að eggjagjafi sé á þrítugsaldri.

„Ef til vill vita ekki allar konur á þessum aldri af þessum möguleika, eða ferlið vex þeim í augum. Oft er það hins vegar mun minna mál en það virðist við fyrstu sýn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar