fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Bjargaði Heiðari frá alkóhólisma

Dvaldi á geðdeild sem barn og var fastagestur í lögreglubílum sem unglingur

Auður Ösp
Laugardaginn 11. febrúar 2017 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég sótti í hluti sem örvuðu mig af því að ég varð alltaf að hafa adrenalínið flæðandi í æðunum þegar ég var krakki. Það kom á daginn að þegar ég var ekki í vatninu þá fékk ég sama adrenalínkikkið út úr því að lenda í veseni og ég fékk út úr því að vera á brimbrettinu,“ segir Heiðar Logi Elíasson, fyrsti og eini atvinnumaðurinn á brimbretti á Íslandi en í nýlegu viðtali við Rolling Stone lýsir hann því hvernig brimbrettaíþróttin bjargaði honum meðal annars frá alkóhólisma, og hjálpaði honum að takast á við slæman athyglisbrest.

Í umræddu viðtali kemur fram að Heiðar Logi hafi alist upp í Sandgerði, litlu þorpi á Íslandi. Sem barn bjó hann um tíma í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni og var þá greindur með ADHD á háu stigi. Í kjölfarið tók við vist á geðdeild fyrir börn auk þess sem Heiðari Loga var gefið rítalín en hann var að eigin sögn algjörlega stjórnlaus krakki. Einkennin versnuðu eftir því sem Heiðar Logi varð eldri og tóku læknar upp á því að auka sífellt við lyfjaskammtinn þar til móðir Heiðars tjáði þeim að þess væri ekki lengur þörf.

Fjölskyldan flutti til Íslands á ný og var það þá sem Heiðar Logi kynntist öðrum strák í gegnum snjóbrettaiðkun. Sá piltur kynnti hann fyrir brimbrettaíþróttinni og varð Heiðar Logi strax gagntekinn. Í gegnum snjóbrettaíþróttina fann hann það sem hann skorti heima fyrir og í skóla; hugarró og stjórn á sjálfum sér og var hann staðráðinn í að verða atvinnumaður í íþróttinni. Það átti þó eftir að setja strik í reikninginn þegar Heiðar Logi komst í kynni við áfengi snemma á unglingsaldri en við tóku þá taumlaus fyllerí með félögunum sem oftar en ekki enduðu illa. Vinirnir voru fastagestir aftan í lögreglubílum og voru stöðugt að koma sér í vandræði gagnvart foreldrum sínum. Heiðar Logi náði sér síðan á strik eftir að móðir hans lofaði honum brimbretti ef hann myndi taka sig á í skólanum.

Brimbrettið og sjórinn átti þó hug hans allan og segir Heiðar Logi ekkert annað hafi komið til greina en að leggja íþróttina fyrir sig. Hann hætti því í skóla 16 ára um leið og hann sagði skilið við áfengið, sem og öll ofvirknilyfin sem hann hafði tekið frá barnsaldri. Hann segir íþróttina hafa verið sitt haldreipi en viðurkennir að fráhvörfin eftir drykkjuna hafi reynst honum erfið. Eftir að hafa komist yfir versta hjallann fékk hann hins vegar nýja sýn á lífið.

„Það rann upp fyrir mér að það er ekki hægt að verða besta útgáfan af sjálfum sér ef maður er endalaust að sinna hlutum af tómri skyldurækni,“ segir hann og bætir við að hann hafi upplifað stjórnleysi þegar hann var eingöngu að sinna verkefnum sem hann hafði enga ánægju af.

„Ég er hamingjusamur þegar ég er að gera það sem ég elska. Ég vil að líf mitt snúist um að sinna því sem mér er annt um,“ segir Heiðar Logi jafnframt en hann var staðráðinn í að láta drauminn um atvinnumennsku rætast og stundaði því þrotlausar æfingar á brettinu á milli þess sem hann vann sem barþjónn á skemmtistað í Reykjavík.

Draumurinn rættist að lokum, en Heiðar Logi segir þjóðernið hafa unnið með sér í brimbrettaheiminum; það veiti honum sérstöðu. Þá segir hann íslenska brimbrettakappa fljótari að læra að stunda íþróttina við krefjandi aðstæður, enda séu öldurnar á Íslandi ekkert lamb að leika sér við.

„Ég kann að takast á við stórar og kraftmiklar öldur, vegna þess að það er það eina sem við höfum.“

Heiðar Logi segir átökin við öldurnar hafa kennt sér að ef hann óski einhvers í lífinu þá þurfi hann að gefa sig allan í það.

„Þegar þú sleppir takinu á þeim hlutum sem þú vilt ekki hafa í lífi þínu, þá hefuru pláss fyrir hvað sem er,“ segir hann en í grein Rolling Stone er einnig minnst á heimildarmynd um Heiðar Loga, The Accord þar sem hann ræðir meðal annars brimbrettaíþróttina og tengsl sín við Ísland.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=eG5jA-HcntY&w=600&h=314]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta