Ágústa Eva ósátt: „Ógeðslegur útúrsnúningur“ - Unglingsstúlkur hraunuðu yfir leikkonuna eftir frétt Mbl.is

„Mmm... allir leikstjórar i kvikmynda og sjónvarpi hérlendis eru algerir herramenn og trooperar af eigin reynslu. Win.“

Þetta skrifaði leik- og söngkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir á Facebook fyrir skömmu. Mbl.is gerði sér mat úr færslu Ágústu Evu á nokkuð sérkennilegan hátt. Fyrirsögn greinarinnar var: „Ágústa Eva hefur aldrei verið áreitt.„ Þá kom löng upptalning á afrekum og hlutverkum Ágústu á leiksviði og á hvíta tjaldinu. Í grein mbl.is er hvergi minnst á Harvey Weinstein eða að ótal konur hafi sett fram frásagnir undir myllumerkinu #Metoo

Ágústa Eva er afar ósátt við að Mbl.is hafi nýtt sér þessa einu setningu í frétt sem og fyrirsögn fréttarinnar. Fyrirsögninni var síðar breytt í: Ekki verið áreitt í bransanum. Ágústa segir að færsluna sem um ræðir fjalli einfaldlega um það að á 13 ára ferli sem leikkona hafi hún aldrei verið áreitt af leikstjóra. Bætir Ágústa við að með þessu hafi hún ekki verið að stíga fram eða átt sér þá ósk að verða fréttamatur. Hún hafi verið að lýsa yfir ánægju sinni með sína reynslu af íslenskum leikstjórum með stuttri setningu sem hafi verið ætluð vinum og fjölskyldu. Ágústa segir:

„Nú undir kvöldmat sendir frænka mín mér frétt með fyrirsögninni að ég Ágústa Eva hafi aldrei verið áreitt. Þetta finnst mér andskoti illa gert, ógeðslegur útúrsnúningur hugsaður til að fá klikk [...] Þetta var ekki viðtal. Ég myndi aldrei einu sinni gefa viðtal um þetta og vissi ekki að þessi status á minni privat síðu væri orðinn að úrkynjaðri fyrirsagnarklikki með ljósmynd sem er ekki notuð með leyfi. Ég í kjölfarið fæ svo holskefluna frá unglingsstúlkum sem hrauna yfir mig að hafa verið að „stíga fram“ með fullyrðingar um fólk sem ég veit ekki allt um og gefið er í skyn með þessari fyrirsögn að ég sé að sörfa einhverskonar athyglissýkisöldu í nafni kynferðisbrotaþola, það er algerlega óásættanlegt og ekki eitthvað sem ég tek léttúðlega. Þó að ég hafi aldrei lent í neinu... mhm, einmitt.. Því er flaggað að ég HAFI ALDREI VERIÐ ÁREITT svo ekki sé vægar tekið til orða... og líkurnar á því eru??“

Ágústa segir að í játningarbylgjum á Facebook sé krafa um að láta allt flakka, segja frá öllu.

„Hvort og hvernig og hvenær ég hef verið beitt ofbeldi ber mér engin skylda til að útlista á nákvæman hátt opinberlega. Það er ég sem kýs eða kýs ekki að tjá mig um hvenær, hvort og hvernig, er algerlega undir mér sjálfri komið, hvort sem það er í játningarbylgju á FB eða annars staðar.“

Ágústa Eva segir fólk á öllum aldri, af báðum kynjum hafi upplifað hrottalegt ofbeldi og margir tjái sig ekki um það opinberlega.

„Megnið af mínum nánustu kk vinum hafa verið áreittir, beittir ofbeldi af ýmsu tagi, misnotaðir. Ég veit líka að ENGINN þeirra hefur talað um það frjálslega og enginn sem ég veit, af þessum manneskjum hafa leitað sér hjálpar eða sagt frá. Ég þekki líka einstaklinga sem hafa nauðgað og misnotað, ég veit líka að þeir fá virðingu, gegna störfum og ganga um stræti og fólk fílar jafnvel þessa einstaklinga. Þeir jafnvel læka og kommenta á kynferðisofbeldi.“

Ágústa segir þetta ógeðslegt en um leið flókin staða.

„Og hver erum við að dæma eða eyrnamerkja sársauka eða upplifun annara. Okkur BER að bera virðingu fyrir öllum, hvort sem þau hafa tjáð sig um eða orðið fyrir ofbeldi. Að þessu sögðu vil ég segja að af sjálfsögðu dáist ég að þeim sem deila reynslu sinni af erfiðum atburðum til að hjálpa öðrum í sömu stöðu, við erum ekki öll eins en eigum öll skilið virðingu og plís svolítið ljós og kærleika frá hvort öðru.“

Þá segir Ágústa:

„Það að markaðssvæða ofbeldi og notfæra sér þekktar eða óþekktar manneskjur, stilla því upp við vegg, dæma það, draga fólk í metorðalista eftir þekktum hindrunum í lífinu er gjörsamlega off. Skammist ykkar, heimurinn og sagan er aðeins dýpri og lengri en þetta. Að sjálfsögðu vinnum við ótrauð áfram gegn ofbeldi og ég trúi því einlæglega að kynjastríðinu muni ljúka. Samhugur, skilningur, virðing.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.