fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Fælir vonbiðla frá með því að ferðast með giftingahring

Ævintýrakonan Katrín Sif Einarsdóttir hefur ferðast til 197 landa þrátt fyrir ungan aldur

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 1. janúar 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta er brot úr helgarviðtali DV við Katrínu Sif Einarsdóttur, ævintýrakonu með meiru. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild sinni hér.

Ferðast með giftingarhring

Það er dýrt að ferðast og því hefur Katrín Sif tileinkað sér lífsstíl „couch-surfers“. Um er að ræða samfélag á netinu þar sem einstaklingar bjóða ferðalöngum að gista á heimili sínu í stuttan tíma þeim að kostnaðarlausu. „Þar sem er internet er hægt að finna einstaklinga sem eru virkir í þessu samfélagi. Ég var að ferðast um Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og þrátt fyrir að fólk byggi í tjöldum þá voru allir á netinu í símunum sínum og voru virkir á samfélagsmiðlum,“ segir Katrín Sif. Hún er nýkomin úr þriggja mánaða reisu til Íran, Afganistan og Pakistan þar sem hún gisti allar nætur hjá nýju fólki. „Það var áhugaverð upplifun að ferðast um þessi lönd en undir lokin var ég alveg búin að fá nóg. Ég var hulin svörtu frá toppi til táar á hverjum degi með slæðu yfir hárinu. Ég þurfti að ganga um göturnar með karlmann mér við hlið og þurfti að fylgja þúsund reglum. Ég mátti ekki reykja, hvorki syngja né dansa opinberlega, ekki drekka kaffi, ekki ganga inn tilteknar götur eða heimsækja moskur. Ég vil vera frjáls og mig var farið að dreyma um að komast á sólríka eyju, klæðast bara bikiníi og vera laus við boð og bönn,“ segir Katrín Sif.

„Þetta er mjög skemmtilegur ferðamáti og maður kynnist innfæddum mun betur og þar með menningu landsins. Hins vegar eru vissulega hættur og stundum óþægindi sem fylgja þessum ferðamáta. „Viðreynslan“ er sérstaklega hvimleið og ég held að það hafi verið reynt við mig á flestum tungumálum heimsins,“ segir Katrín Sif og tekur fram að það séu ekki bara karlmenn sem geri hosur sínar grænar, konurnar láta líka til skarar skríða. Til þess að forðast slíkar uppákomur hefur Katrín Sif tekið upp á því að ferðast með hring á fingri og bent ástleitnum á að ímyndaður eiginmaður bíði hennar handan hafsins.

Uppáhaldslönd Katrínar Sifjar

Fongafale, Tuvalu. Þetta er einn af eftirlætisstöðum Katrínar Sifjar.

Fongafale, Tuvalu. Þetta er einn af eftirlætisstöðum Katrínar Sifjar.

Japan

Það var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist einsömul og í fyrsta skipti sem ég upplifði algjört menningarsjokk. Ekkert var eins og heima hjá mér og ég elskaði þennan framandi stað og líka að vera sjálf framandi. Fólk starði á mig á götum úti því ég var óvenjuleg og síðan þá hefur mig alltaf langað til þess að upplifa þessa tilfinningu á öðrum stöðum á hnettinum.

Tuvalu

Ég heimsótti aðeins Fongafale og hvet fólk til að skoða myndir þaðan á Google. Þetta er í raun bara örmjótt 12 kílómetra strik úti í miðju Kyrrahafi. Hæsti punktur Fongafale er aðeins um fjóra metra yfir sjávarmáli. Eina flugbrautin á eyjunni er afar fyrirferðarmikil og þegar hún er ekki í notkun þá breytist hún í völl fyrir margvíslegar íþróttir. Tvisvar í viku lenda flugvélar þarna og þá keyrir bíll eftir flugbrautinni og rýmir hana af fólki og svínum.

Argentína

Hér er allt í boði. Frumskógar, vötn, snjór, jöklar, eyðimerkur, fjöll, strendur, heit sumur og kaldir vetur. Matar- og vínmenningin í landinu er svo kapítuli út af fyrir sig auk þess sem útivistarmöguleikarnir eru endalausir. Að mínu mati er ferðalag til Argentínu eins og að bragða á öllum hornum heimsins.

Frakkland

Ég elska mat, vín, súkkulaði, listir og sögu. Í Frakklandi er ofgnótt af öllu þessu. Gæði menningarlífsins þar eru svo mikil að stundum óska ég þess að ég gæti varið dögunum í að hjóla um frönsku Rívíeruna með bagette og osta í körfu framan á hjólinu og íklædd sumarkjól.

Namibía

Þetta er líklega einmanalegasti staðurinn sem ég hef ferðast til. Ég fór þar um svæði þar sem villt dýr réðu ríkjum, eyðimerkur ná svo langt sem augað eygir og skipsflök eru á víð og dreif við strendur landsins. Þetta er töfrandi ævintýraland, sérstaklega fyrir ljósmyndara og útivistarfólk. Dularfull blanda af Afríku, Hollandi og Þýskalandi.

Suðurskautslandið

Ímyndaðu þér að ferðast að endimörkum jarðar og koma á stað sem er svo ósnortinn og náttúrulegur að það eina sem verður á vegi þínum er ógrynni mörgæsa af öllum stærðum og gerðum. Síðan er það sjávarlífið. Pirruð sæljón, hlébarðaselir með blóðuga skolta, háhyrningar og ógnarstórar steypireyðar. Í bakgrunni eru snæviþaktir fjallgarðar og jöklar. Ef fólk heimsækir staðinn yfir sumarmánuðina er sólarljós allan sólarhringinn sem eykur á upplifunina.

St. Vincent og Grenadíneyjar

Þetta er sú eyja í Karíbahafinu sem erfiðast er að heimsækja. Sú staðreynd gerir það að verkum að minna er um túrista þar og upplifunin verður sérstakari. Maður kemst betur í samband við heimamenn og upplifir menningu þeirra í stað þess að vera fastur á hóteli sem gæti verið hvar sem er í heiminum. Það er líka mun minna um rusl á eyjunni og strendurnar eru ótrúlega fallegar.

Líbanon

Þetta land kemur ótrúlega á óvart. Þegar ég lenti þá vissi ég varla hvort ég var stödd í Evrópu eða Mið-Austurlöndum. Þarna ægir öllu saman, kristnum og múslimum og allir tala ensku, arabísku eða jafnvel frönsku. Maturinn er stórkostlegur og nóg af góðu líbönsku víni. Þarna er hægt að skemmta sér þar til sólin kemur upp, liggja á ströndinni allan daginn, ganga á fjöll eða skella sér á skíði yfir vetrarmánuðina. Þetta allt er hægt að gera í örlitlu landi sem er umkringt löndum þar sem ofbeldi og voðaverk eru daglegt brauð.

Egyptaland

Algjört öngþveiti ríkir þar en á skemmtilegan og spennandi hátt. Saga landsins er ótrúleg og nánast erfitt að meðtaka hana alla. Kaíró er hávær borg og lyktin þar er afar framandi en eyðimerkurnar endalausu og sú draumsýn að ríða á arabískum hesti út í sólsetrið hefur alltaf dregið mig aftur til landsins. Að stinga sér til sunds í Rauðahafinu er önnur heillandi minning. Ég íhugaði einu sinni að fara að læra arabísku og magadans, bara til þess að hafa ástæðu til þess að ílengjast í Egyptalandi. Þar ríkir hins vegar talsverður órói nú um stundir þannig að sá draumur er á ís.

Ísland

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og það á við um samband mitt við Ísland. Mér finnst landið verða fallegra í hvert skipti sem ég sný aftur heim og ég kann hvergi betur við mig en við að kanna hálendi Íslands, helst á hestbaki. Þá líður mér eins og raunverulegum landkönnuði.

Tvöhundruðasta landið innan seilingar

„Ég hef aldrei lent í neinum alvarlegum vandræðum þegar ég gisti hjá einhverjum í „couch-surfing“ samfélaginu. Ég rannsaka alla sem ég hyggst gista hjá og skoða allar umsagnir um þá. Ef ekkert virðist athugavert þá sendi ég viðkomandi skilaboð og spjalla aðeins við hann. Síðan staðfesti ég komu mína. Ég hef örugglega gist hjá um 400 einstaklingum og fjölskyldum undanfarin ár,“ segir Katrín Sif.

Eins og áður segir hefur Katrín Sif ferðast til 197 landa en samkvæmt lista Sameinuðu þjóðanna eru löndin aðeins 193. „Ég tel með lönd eins og Grænland, Færeyjar og til dæmis Gíbraltar. Með þessum hætti eru um 230 lönd til í heiminum öllum þannig að ég á nóg eftir að skoða. Ég setti mér það markmið að ná tvö hundruð löndum fyrir þrítugsaldurinn og það er enn á dagskrá,“ segir Katrín Sif. Hún vill helst verja löngum tíma í hverju landi, kynnast menningarheimi landsins og innfæddum. „Ég ferðast yfirleitt ein þó að ég mæli mér stundum mót við vini mína í einhverjum löndum. Ég vil helst hafa frelsi til þess að haga hverjum degi eins og mér sýnist og því er ég ekki mikið fyrir að vera í samfloti með ferðafélaga,“ segir Katrín Sif. Hún hagar seglum eftir vindi á hverjum stað. „Ef ég er í Frakklandi þá reyni ég að drekka í mig menningu og listir á söfnum og í tónleikasölum. Þegar ég var að ferðast um eyjarnar í Kyrrahafi þá var lítið að gera eða skoða og þá var ég á ströndinni í fjóra mánuði að slaka á,“ segir Katrín Sif og hlær.

„Stan-löndin“ á dagskrá næsta árs

Það eru fá svæði í heiminum sem Katrín Sif á eftir ókönnuð. „Ég á eftir að fara til Sýrlands og Líbíu og reikna ekki með að fara þangað alveg á næstunni vegna aðstæðna þar. Ég á síðan eftir að ferðast til landanna í miðri Afríku, til dæmis Tsjad, Mið-Afríkulýðveldisins, Kongó og Suður-Súdan. Ástandið þar er líka frekar ótryggt, því ætla ég aðeins að bíða með heimsókn þangað. Síðan á ég eftir að ferðast til „Stan-landanna“ í Mið-Asíu, það er að segja Kasakstan, Úsbekistan, Túrkmenistan og Tadsjikistan. Þar er mikil hestamenning og ég er að íhuga að brjóta upp munstrið og heimsækja þessi lönd í sumar og ferðast þar um á hestbaki,“ segir Katrín Sif.

Eins og gefur að skilja hefur Katrín Sif lent í fjölmörgum ævintýrum á ferðalögum sínum. Hún hefur haldið úti bloggsíðu, fyrst á vef dohop en síðan á eigin bloggsíðu. Í vinnslu er bók um ferðalögin sem verður að öllum líkindum tilbúin á næsta ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta