fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

„Algjör klaufi þegar kemur að hinu kyninu“

Þrátt fyrir að vísindamiðlarinn Sævar Helgi njóti mikillar velgengni í starfi og eigi sex ára son neyðist hann til að búa í foreldrahúsum. Hann segist jafnframt vera mikil matarsnobbari og óttast ekki heimsendi.

Kristín Clausen
Föstudaginn 28. október 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er alveg sannfærður um að það eru geimverur þarna úti,“ segir Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari sem hefur frá unga aldri verið hugfanginn af himingeimnum og öllu því sem hann hefur upp á að bjóða.

Sævar, sem í vikunni mælti sér mót við blaðamann á notalegum veitingastað, tók sérstaklega fram að ástæðan fyrir staðarvalinu væri sú að fiskurinn þar væri fyrsta flokks. Á slaginu tólf, þegar viðtalið hefði formlega átt að hefjast, sendi hann skilaboð um að sér seinkaði um nokkrar mínútur.

Þegar Sævar mætti stuttu síðar á umræddan stað, rennblautur eftir ískalda vetrarrigninguna, afsakaði hann sig með því að sýna mynd af stjörnuskoðunartjaldi sem hann ferðast með á milli grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og sagði að kennslustund morgunsins hefði tekið örlítið lengri tíma en hann hefði áætlað.

Stoltið leyndi sér ekki en Sævar, sem hefur einstaklega þægilega nærveru, virðist eiga mjög auðvelt með að ná til barna og miðla þekkingu sinni á vísindum á tungumáli sem allir skilja.

Þá kom ástæðan fyrir staðarvalinu fljótlega í ljós eftir að við tókum tal en Sævar er mikill áhugamaður um mat. Hann dreymir um að ferðast um heiminn í þeim tilgangi að borða með öllum skilningarvitunum á sem flestum Michelin-veitingastöðum. Þá kveðst hann vera algjör klaufi þegar kemur að hinu kyninu.

Með mörg járn í eldinum

Sævar gerði ástríðuna, sem eru vísindi, að ævistarfi sínu og starfar nú á ýmsum sviðum sem eiga það sameiginlegt að sólkerfi okkar kemur þar við sögu.

Þrátt fyrir að njóta mikillar velgengni í starfi glímir Sævar við vandamál sem stór hópur Íslendinga af þúsaldarkynslóðinni svokölluðu þekkir. Sævar neyðist til að búa í foreldrahúsum þar sem sparnaðarreikningurinn hans heldur ekki í við þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á fasteignaverði síðustu ár.

Hann kveðst oft hafa íhugað að flytja af landi brott en heldur í vonina um að Íslandi verði, áður en langt um líður, ákjósanlegri staður til að búa á.

Flestir muna eflaust eftir Sævari sem varð, nánast á einni nóttu, hálfgerð almenningseign og andlit sólmyrkvans árið 2015. Hann er maðurinn sem kom því í verk að þúsundir íslenskra grunn- og leikskólabarna fengu tækifæri til að fylgjast með þessum merkilega náttúruviðburði. Hann uppskar mikið skítkast fyrir og var meðal annars sakaður um mannréttindabrot.

Sævar er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann kennir stjörnufræði í MR og er höfundur bókarinnar Stjörnuskoðun sem kemur út í næsta mánuði. Sævar verður með innslög í Stundinni okkar í vetur um vísindi auk þess sem hann er reglulegur gestur í Morgunútvarpi Rásar 2. Að auki heldur Sævar reglulega fyrirlestra úti um allar trissur, tekur þátt í alþjóðasamstarfi og fræðir ferðamenn um norðurljós þegar veður leyfir. Sævari er mikið í mun að fræða börn um mikilvægi vísinda, vekja þau til umhugsunar um stjörnufræði og hvetja þau áfram.

Ákvað snemma að verða vísindamaður

Áhuginn á vísindum kviknaði snemma hjá Sævari sem kveðst hafa horft meira upp í himininn en fram fyrir sig þegar hann var lítill. „Stjörnurnar voru svo heillandi og um leið og ég var orðin læs vildi ég ekki lesa neitt annað en vísindabækur, þá helst bækur um stjörnurnar,“ segir Sævar sem var átta ára þegar hann horfði fyrst í gegnum sjónauka hjá frænda sínum. „Þá sá ég Satúrnus í fyrsta skiptið og eftir það var ekki aftur snúið.“

Eftir grunnskóla fór Sævar í Flensborg og í framhaldinu kláraði hann jarðfræði í Háskóla Íslands. „Ég ætlaði alltaf að fara í master í reikistjörnujarðfræði en svo kom lífið inn í og plönin breyttust hægt og rólega.“

Vonar að sonurinn verði nörd

Sævar, sem er 32 ára, og þáverandi sambýliskona hans, Inga Rún Helgadóttir, eiga soninn Arnór Braga sem er sex ára. Fyrst eftir að upp úr slitnaði árið 2013 og þar til í sumar skiptust þau vikulega á að vera með drenginn. Eftir að Arnór Bragi byrjaði í skóla í haust hefur þó dregið úr umgengninni þar sem Sævar býr í Hafnarfirði en sonur hans í Mosfellsbæ.

„Það er brjálað að gera hjá honum við að leika vini sína og svoleiðis. Á meðan ég get ekki búið nær þá fylgist ég með af hliðarlínunni og fæ að njóta hans um helgar.“

Aðspurður hvort sonurinn deili sama áhugamáli og faðir hans svarar Sævar: „Arnór Bragi er stórkostlegur karakter. Forvitinn, mikill Star Wars-aðdáandi og tölvuleikjakall. Ég vona að hann verði nörd því þá bíður hans björt framtíð.“

Feiminn við hitt kynið

Þegar talið berst nánar að ástinni, og hann er inntur svara við persónulegri spurningum, fer Sævar í algjöran hnút. Hann segist vera lokuð týpa og viðurkennir að sér þyki mjög erfitt að tala um sambandsmál þar sem hann fari sjálfur alveg í kerfi þegar eitthvað slíkt er í gangi. „Ég get auðveldlega talað uppi á sviði fyrir þúsund manns en þegar kemur að því að nálgast hitt kynið er ég alveg út úr korti.“

Þá segir Sævar að sökum þessa sé hann ekki mikið að „deita“: „Ég er svo afskaplega lélegur í þessu. Kannski vantar mig bara góðan vængmann.“

Sævar og barnsmóðir hans eru góðir vinir en þegar blaðamaður segir að hann geti nú varla verið alveg vonlaus þar sem hann eigi sjö ára samband að baki þá segir hann einfaldlega: „Hún náði í mig.“

Síðan segir hann frá því hvernig hann kynntist Ingu Rún. Árið 2006, mánuði eftir að hann byrjaði fyrst að kenna í MR, byrjuðu þau að hittast en hún var nemandi hans.

„Hún var á lokaárinu og ég var 22 ára svo aldursmunurinn á okkur var bara þrjú ár. Það vissu allir af þessu en enginn skipti sér neitt sérstaklega af því. Það eina sem breyttist var að ég fékk annan kennara til að fara yfir verkefnin hennar.“

Sævar segist alltaf bjóða nemendum sínum í stjörnuskoðun en þar upphófst ástarævintýrið. „Hún bað um far með mér í stjörnuskoðunina. Ég spáði ekkert frekar í það og sótti hana. Eitt leiddi af öðru og það tók ekki nema nokkra daga fyrir okkur að smella saman.“

Líkt og áður segir slitnaði upp úr sambandinu en Sævar kveðst þakklátur fyrir þann tíma sem þau áttu saman og soninn sem skiptir þau meira máli en allt annað í lífinu.

Michelin-stjörnu ferðamaður

Þá viðurkennir Sævar að hann myndi ekki slá hendinni á móti því að kynnast skemmtilegri konu. Að sama skapi er hann lítið að stressa sig á því þar sem hann hefur í nægu að snúast varðandi vinnu og barnauppeldið.

„Ég er nú ekkert að falla á tíma en auðvitað væri notalegt að hafa einhvern til að slaka á með og fara í ferðalög. Ég viðurkenni það alveg.“

Helstu áhugamál Sævars, fyrir utan vinnuna, eru ferðalög en að auki kveðst hann vera mikill matarsnobbari. Þá myndi hann ekki slá hendinni á móti því að gerast Michelin-stjörnu ferðamaður. Sævar hefur ferðast á marga framandi staði, á borð við Indónesíu og til Suður-Ameríku. Þess á milli nýtur hann þess að sökkva sér í fjölþjóðamenningu evrópskra stórborga.

„Ég á fjölda vina frá öllum heimshornum og er löngu búinn að komast að því hvað við erum öll svipuð, það er varðandi húmor og drauma, þrátt fyrir að eiga ólíkan bakgrunn.“

Sævar er líka sannfærður um að í framtíðinni muni ferðalangar fara í geimferðir í stað flugferða. Til dæmis fljúga einn til tvo hringi umhverfis jörðina, áður en geimflaugin lendir að lokum á áfangastað, annars staðar á jörðinni eða einhvers staðar í geimnum.

Stórkostlegasta uppgötvun sögunnar

Líkt og áður segir er Sævar handviss um að við séum ekki ein í alheiminum. „Heimurinn er svo stór að það getur eiginlega ekki verið. Ég vona að þarna úti séu vitsmunaverur sem við getum haft samband við, lært af og þær kennt okkur. En hvort sú er raunin er önnur og erfiðari spurning.“

Þá segir Sævar að ein stórkostlegasta uppgötvun sögunnar yrði að fá staðfestingu á að örverur væri að finna á Mars. „Þá fengjum við loksins staðfestingu á að við erum ekki ein. Ef það eru tveir hnettir í okkar sólkerfi þar sem líf finnst, þá er ansi mikill möguleiki á fjölbreyttu lífi í alheiminum. Og þá get ég dáið sæll og glaður.“

Hægfara útrýming lífs á jörðinni

Sævar óttast ekki yfirvofandi heimsendi af völdum áreksturs smástirnis eða halastjörnu við Jörðina. „Við höfum sem betur fer búnaðinn og tæknina til að finna þessa hnetti og koma þannig í veg fyrir yfirvofandi hamfarir, ef við finnum eitthvað, því það er alltaf verið að leita.“

Ef svo yrði gerir Sævar ráð fyrir að þjóðir heimsins tækju höndum saman og leystu vandamálið í sameiningu. „Kannski verður það fyrsta friðsamlega samvinna allra þjóða að koma í veg fyrir útrýmingu lífs á jörðinni?“

Hins vegar hefur Sævar töluvert meiri áhyggjur af því hvernig mannkynið hefur farið með Jörðina. „Þessi hægfara útrýming lífs á jörðinni er skelfileg. Eins og staðan er í dag þá erum við að fara illa með auðlindir jarðarinnar. Við þurfum að velta því rækilega fyrir okkur og bregðast við áður en það verður of seint.“

Sævar vísar til þess hve lofthjúpurinn er orðinn mengaður og að við brennum jarðefnaeldsneyti sem við ættum alls ekki að gera. „Það er mikil tregða hjá mannfólkinu að hætta því og byrja á einhverju nýju.“

Hann segir stóra vandamálið vera að enginn sé tilbúinn að taka af skarið og breyta eigin hegðun. Hann bindur þó vonir við að þegar einhver setji gott fordæmi þá fylgi aðrir og smám saman breytist heimurinn til hins betra. „Ég vona að það verði ekki of seint hvað varðar loftslagsbreytingar og umhverfismál almennt.“

Gaf 56 þúsund gleraugu

Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá árinu 1954 varð í mars árið 2015, en þá fór tunglið 98 prósent fyrir sólina. Í tengslum við sólmyrkvann tók Sævar af skarið, í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Hótel Rangá, og keypti 76 þúsund sólmyrkvagleraugu.

Öll grunnskólabörn og -kennarar landsins fengu afhent samtals 55 þúsund sólmyrkvagleraugu og leikskólar á Íslandi fengu samtals 1.000 gleraugu. Afgangurinn af gleraugunum var seldur á 500 krónur stykkið til að fá upp í kostnaðinn sem hljóp á milljónum.

Ástæða þess að Sævar ákvað að standa fyrir verkefninu var einfaldlega sú að efla áhuga barna á alheiminum. „Þetta var einungis gert í fræðsluskyni og til að efla skólastarfið.“

Langaði að skríða ofan í holu og deyja

Þrátt fyrir góðan hug gekk verkefnið, sem var gríðarlega umfangsmikið og kostnaðarsamt, síður en svo áfallalaust fyrir sig. „Ég á aldrei eftir að gleyma þessu. Allt gekk þó upp að lokum eftir smá fjárhagslega áhættu og vesen,“ segir Sævar kíminn.

Sólmyrkvagleraugun, sem voru ætluð almenningi, seldust upp á aðeins örfáum dögum. Þá var Sævar sakaður um mannréttindabrot fyrir að gefa aðeins grunnskólanemum gleraugu en ekki öllum leikskólabörnum.

„Margir voru ósáttir við að gleraugun skyldu seljast upp. Þá var ákveðinn hópur öskureiður yfir því að leikskólar fengju ekki gleraugu fyrir öll leikskólabörnin. Hugmyndin var einfaldlega sú að börnin myndu skiptast á líkt og tíðkast alls staðar í heiminum þegar svona viðburðir eru,“ segir Sævar.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var þetta mjög erfitt, sérstaklega vikuna fyrir sólmyrkvann, eins og til dæmis að heyra hvernig hlakkaði í sumum sem vonuðust til að þetta myndi falla um sjálft sig og að þurfa að þola aðkast fyrir eitthvað sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum. Mig langaði stundum að skríða ofan í holu og deyja. Síminn stoppaði ekki og áreitið var svakalegt.“

Þrátt fyrir allt sem á undan gekk segir Sævar að augnablikið, þegar sólmyrkvinn brast á, hafi verið stórkostlegt. Veðrið var með besta móti en það sem stendur þó helst upp úr varðandi daginn, að mati Sævars, er að börn á öllum aldri fengu tækifæri á að fylgjast með einstökum náttúruviðburði.

Gæsahúð í almyrkva

Sævar er ekki trúaður en segir náttúruna og alheiminn gefa sér andagift. „Jörðin er svo tignarleg og það er alveg augljóst að það er eitthvað stærra þarna út. Ég útiloka ekki að það hafi verið einhver skapari, en ég trúi ekki á það sjálfur.“

Fyrr á árinu fór Sævar til Indónesíu til að fylgjast með almyrkva á sólinni. „Það er það fallegasta sem ég hef séð og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um það. Almyrkvi er eitthvað sem allir ættu einhvern tímann að upplifa.“
Þá segir hann muninn á almyrkva, þegar tunglið skyggir 100 prósent af yfirborði sólarinnar, og deildarmyrkva, þegar sólin skyggir á hluta af yfirborðinu, eins og dag og nótt.

„Við fáum næst að upplifa þetta á Íslandi þann 12. ágúst 2026. Þá gengur almyrkvaslóðin yfir Vestfirði, Snæfellsnes og Reykjanes. Það verður gósentíð hjá okkur í ferðamennskunni. Mörg þúsund manns munu leggja leið sína til Íslands til að fylgjast með,“ segir Sævar og bætir við:

„Mín skilaboð til fólks eru: Fáið ykkur gleraugu tímanlega.“

Fastur í foreldrahúsum

Þrátt fyrir að Sævar sé orðin hálfgerð þjóðargersemi þegar kemur að miðlun á undrum alheimsins og vísindum almennt þá glímir hann við sömu vandamál og svo margir aðrir af þúsaldarkynslóðinni.

„Ég er í nákvæmlega sömu sporum og mjög stór hluti af minni kynslóð. Ég er fastur í foreldrahúsum.“

Eftir að slitnaði upp úr sambandi Sævars og Ingu Rúnar neyddist hann til að flytja aftur heim til foreldra sinna þar sem hann hafði ekki efni á að kaupa sér íbúð.

„Því miður virðist draumurinn um að eignast eigið húsnæði fjarlægjast frekar en hitt. Það er ekki möguleiki að eignast íbúð á næstunni, sem er mjög erfitt. Eins og allir í mínum sporum þá þrái að eiga mitt prívatlíf.“

Þá þykir Sævari hart hvað laun eru í litlu samræmi við íbúðaverð sem hækkar meira með hverjum deginum sem líður. „Það er líka ástæða þess að maður vinnur svona mikið. En það gengur óskaplega hægt að safna. Þetta er svolítið eins og að hlaupa í maraþoni en endamarkið fjarlægist hraðar eftir því sem maður hleypur lengra.“

Sævar bendir á að ýmislegt þurfi að breytast svo ungt fólk finni löngun til að festa rætur á Íslandi. „Ég er mjög sár yfir því hversu lítið var talað um það af alvöru, fyrir kosningarnar, hvernig eigi að leysa þau vandamál sem tengjast því að vera ungur á Íslandi í dag.“

Hann kveðst sjálfur oft hafa velt því fyrir sér að flytja úr landi. „Það þarf ýmislegt að breytast svo hægt sé að lifa sómasamlegu lífi hérna. En ég er til í það. Mig langar að breyta því svo ég, og margir aðrir í minni stöðu, finni löngunina til búa á Íslandi.“

Mikilvægt að auka atvinnumöguleika

Þá segir Sævar það mjög mikilvægt að auka atvinnumöguleika ungs fólks, til dæmis á vísindasviði. „Í síðustu viku var ég staddur á ráðstefnu í Hollandi. Þar hitti ég marga kollega mína sem taka þátt í alþjóðlegum vísindaverkefnum, til dæmis á vegum Geimvísindastofnunar Evrópu. Þessi verkefni standa okkur ekki til boða vegna þess að við erum ekki hluti af þessu stóra vísindasamstarfi og erum þar af leiðandi að fara á mis við svo mikið.“

Þá leggur Sævar til að Ísland gangi til liðs við stofnunina ekki aðeins til að leggja sitt af mörkum í alþjóðasamstarfi heldur til að sýna gott fordæmi. „Sleppum líka olíunni. Reynum frekar að leggja áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og verðum fyrirmyndarþjóð.“

Þá leggur Sævar til að auknu fjármagni verði varið í háskólana. „Þar byrja allar rannsóknirnar og þar menntum við, meðal annars, grunn- og leikskólakennara. Ef við ætlum að halda áfram að slaka á þar þá á það eftir að enda illa.“

Stjörnuskoðun

Bókin Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna kemur út í byrjun nóvember. Í bókinni tekur Sævar saman allt það sem honum þykir áhugaverðast frá því að sólin sest og þar til hún kemur upp aftur. Hann vonar að bókin verði samverubók fyrir fjölskylduna sem muni fyrir vikið horfa meira upp til himins og velta því fyrir sér hvað himingeimurinn hefur upp á að bjóða.

„Ég var í allt sumar að skrifa bókina og ég vona svo sannarlega að henni verði vel tekið. Það sem ég lagði helst áherslu á var að skrifa bók sem ég sjálfur hefði viljað lesa þegar ég var tíu ára.“

Börnin eru framtíðin

Sævar segir að ástæðan fyrir því að hann leggi svo mikla áherslu á að miðla upplýsingunum sem hann býr yfir áfram til barna og unglinga sé einfaldlega sú að börnin séu framtíðin.

„Við viljum öll skapa börnunum okkar góða framtíð. Besta leiðin til þess, að mínu mati, er að gera þau vísindalega læs svo þau geti tekið stórar ákvarðanir á upplýstan hátt og þannig skapað okkur velsæld og hagvöxt.“

Þá segir Sævar að meginmarkmið hans sé að gera fólki grein fyrir hve heimurinn er magnaður og benda á hvað við ættum að vera miklu duglegri að skoða hann og njóta.

„Það er líka mjög mikilvægt að glata ekki forvitninni. Mér finnst að fólk ætti að ríghalda í þessa barnslegu forvitni og vera óhrætt við að spyrja spurninga og þora að taka af skarið. Þannig sköpum við saman betri heim til framtíðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar