fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Miklu frekar feit og heilbrigð!

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir er baráttukona fyrir líkamsvirðingu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 23. október 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Meirihluti íslensku þjóðarinnar er óánægður með líkama sinn og eyðir drjúgum tíma af lífi sínu í að reyna að breyta honum,“ segir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, sem hefur á undanförnum misserum verið ötul baráttukona fyrir líkamsvirðingu en hún kannast því miður við þessa staðreynd af eigin raun.

„Ég hafði alltaf tekið skilaboðunum frá samfélaginu um að feitt væri ömurlegt og grannt væri gott sem heilögum sannleik. Vegna þessa hélt ég lengi vel að ef ég væri feit myndi ég aldrei geta lifað hamingjusömu lífi og væri í rauninni dæmd til að vera hálfgert úrhrak. Vandamálið var að ég var í feitum líkama sem samfélagið var búið að kenna mér að hata. Þess vegna reyndi ég af öllu afli að breyta líkama mínum, svo mikið að ég bar verulegan andlegan og líkamlegan skaða af.“

Tilraunir Töru Margrétar til að mæta samfélagslegum kröfum leiddu til þess að hún leitaði margsinnis á geðdeild vegna lystarstols og búlimíu. Hún óskar engum að ganga í gegnum það sama og hún upplifði og þess vegna var það hálfgerð himnasending þegar hún komst yfir bókina „Heilsa óháð holdafari“ (Health at Every Size) sem Tara segir að hafi markað ákveðin tímamót.

„Já, það var vendipunktur í mínu lífi þegar ég las þessa bók því hún fjallar um það hvernig heilsuefling án þess að einblína á þyngd eða holdafar sé best til þess fallin að bæta heilsu. Þar er komið inn á samfélagslega merkingu holdafars og hvernig samfélagið okkar er orðið fitufordómafullt og fituhatandi. Þetta opnaði fyrir mér nýja nálgun og í rauninni nýtt og betra líf.“

Samtök um líkamsvirðingu

„Líf mitt snerist um að hata líkama minn. Ég dó næstum því við það. Þá vil ég miklu frekar vera feit og heilbrigð. Ég var mjög veik með ranghugmyndir, sjálfskaðandi hegðun, einangraðist og þetta var bara algjör hryllingur. Það kom því sá tími að ég þurfti að taka ákvörðun um að halda þessu áfram og vera grönn eða lifa lífi mínu, ná bata og brjótast úr þessum kröfum sem samfélagið hafði sett á mig. Ég tók ákvörðun um það síðarnefnda en það gerðist ekki á einni nóttu. Aftur á móti hef ég aldrei verið sterkari og með betri líkamsmynd en núna. Og örugglega betri en flestir vegna þess að ég hef verkfærin sem til þarf.“

Tara Margrét er einn forsprakki samtaka um líkamsvirðingu en samtökin voru stofnuð árið 2012 fyrir tilstilli nokkurra kvenna sem höfðu tengst hver annarri í gegnum svipaðar skoðanir í orðræðu um líkamsvirðingu og líkamsmynd á netinu.

„Við vorum nokkrar konur sem höfðum fundið hver aðra með því að rekast á svipaðar athugasemdir frá hver annarri á netinu og í gegnum pistlaskrif. Við byrjuðum að tengjast, fórum að hittast reglulega og urðum vinkonur. Allar vorum við að berjast fyrir sömu hugsjóninni, hver í sínu horninu, og fannst því kominn tími á að stofna samtök sem hafa sameinaða rödd og er aðeins formlegra batterí en við vorum búnar að koma okkur upp.“

Tískubloggari

Sem ákveðna ádeilu á litlausa og einhæfa flóru þegar kemur að útlitstengdum þáttum hefur Tara Margrét haldið úti tískubloggi á Instagram. Hún segir það í rauninni segja allt sem segja þarf ef fjallað sé um það undir formerkjum þess að stíga út fyrir kassann í fjölmiðlum.

„Það finnst mér sýna einna best þörfina fyrir að birta fjölbreyttari flóru fólks í alls kyns samhengi. Síðan hvenær er það nýtt af nálinni að konur birti af sér tískumyndir og hafi áhuga á því að taka sig til? Þú myndir ekki taka þetta viðtal við mig nema vegna þess að ég er feitari en gengur og gerist í þeim heimi.“

Það er augljóst að Tara Margrét talar af mikilli hugsjón enda segist hún hafa gríðarlega trú á því að með markvissum hætti sé hægt að breyta því samfélagsmeini sem hefur þjakað vestrænt samfélag á undanförnum áratug.

„Já, klárlega er hægt að breyta þessu og ég hef fundið persónlega fyrir því og séð árangur af því starfi sem samtökin hafa unnið að. Þar held ég að fræðsla skipti mestu máli. Í dag samþykkti til dæmis Reykjavíkurborg að setja ákvæði inn í mannréttindastefnu sína sem kveður m.a. á um að bannað sé að mismuna fólki vegna holdafars. Það var gert vegna þess að þessi mannréttindabarátta er að vekja athygli og ná árangri. Svo er líkamsvirðing orðið þekkt hugtak, sem er árangur út af fyrir sig. Ég sé það greinilega á kommentakerfum þegar við erum að vekja máls á einhverju að það er fólk þarna sem skilur hvað við erum að segja og stendur með okkur. Áður varð ég miklu frekar vör við að orðræðan gat orðið mjög einhliða. Það að þú sért að taka þetta viðtal við mig sýnir að samfélagið er að sýna þessu áhuga. Ég held líka að mjög margir séu einfaldlega orðnir þreyttir á því að hata líkama sinn. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar