Þetta agnarsmáa, útþanda, mölbrotna egó

Kristín Eiríksdóttir veltir fyrir sér brotnum og útþöndum egóum, einangrun og andlegum veikindum, í skáldsögunni Elín, ýmislegt

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 31. janúar 2018 09:30

Kristín Eiríksdóttir hlaut í gærkvöldi Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 í flokki fagurbóka fyrir skáldsögu sína Elín, ýmislegt. Að því tilefni endurbirtir DV viðtal Kristjáns Guðjónssonar við Kristínu, en það birtist upphaflega 19. nóvember 2017.


Það hafa eflaust margir beðið með eftirvæntingu eftir annarri skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur, en það eru fimm ár frá því að hin frábæra fjölskyldusaga Hvítfeld kom út. Nýja bókin, Elín, ýmislegt, er hvorki löng né tyrfin en snertir á stórum spurningum og fléttar saman marga áleitna þræði, er bæði fyndin og átakanleg. Hún fjallar meðal annars um rætur og skort á þeim, einsemd og tengsl, andleg veikindi, egóið, listsköpun og vofu snillingsins – sem sagt ýmislegt.

Sögumaðurinn er síðmiðaldra leikmunasmiðurinn Elín. Henni hefur vegnað vel og er virt í sínu fagi en er sérstök og sérlunduð – munaðarleysingi sem hefur þróað með sér sérstaklega þykkan og harðan skráp. Þegar hún er beðin um að hanna muni fyrir nýtt leikrit eftir 19 ára dóttur eins dáðasta snillings íslenskra nútímabókmennta verður hún sérstaklega áhugasöm um þetta undrabarn, sem virðist eiga ýmislegt sameiginlegt með henni sjálfri. Báðar eru einfarar sem hafa horft upp á ástvini missa samband við veruleikann – og hefur þetta mótað afstöðu þeirra til lífsins. „Ætli þetta sé ekki dýpsti ótti allra – að missa vitið og að vera ekki partur af hjörðinni?“ veltir Kristín fyrir sér.

Þessi nýjasta skáldsaga Kristínar fjallar meðal annars um listsköpun og listheiminn, en sagan er ekki sögð af hinum yfirlýsta snillingi heldur konu sem er í þjónustuhlutverki við listirnar.

Skrifaði sig eiginlega sjálf

„Þetta byrjaði sem smásaga. Ég hélt að hún væri bara búin og ég birti hana þess vegna í Tímariti Máls og menningar. Ég var svo á fullu að vinna í annarri skáldsögu, stærri og flóknari, þegar þessi fór að sækja á mig aftur í desember í fyrra. Ég settist niður og hún skrifaði sig eiginlega bara sjálf,“ útskýrir Kristín.

„Ég held að ég hafi bara ennþá verið svo forvitin um þessar tvær persónur sem voru kynntar í smásögunni. Það er svo áhugaverð speglun í gangi hjá þeim. Þær eru á hvor á sínum staðnum í lífinu, Elín er orðin að eins konar meistara á meðan Ellen er aðalsöngvari – maður fær bara að vera það þangað til maður er 25 ára,“ segir hún og hlær.

„Svo var það rödd þessarar konu, þessi frásagnarháttur, sem kom til mín og mér fannst ég þurfa að klára. Þannig að ég skrifaði bókina á frekar stuttum tíma.“

Röddin sem um ræðir er rödd Elínar. Það er hún sem segir söguna, af sjálfri sér og unga leikskáldinu sem hún hefur svo mikinn áhuga á. Þó að hún sé heiðarleg og langt frá lygasjúku sögukonunni í Hvítfeld , get ég ekki varist þeirri hugsun að á svipaðan hátt megi lesandinn varast að taka frásögn hennar of bókstaflega. Er hún að segja okkur allt? En kannski er það bara eðli mannlegra samskipta og frásagna – fólk setur sig í stellingar og segir frá hlutum eins og þeir blasa við þeim sjálfum, frá eigin sjónarhorni og upplifun, og aðrir þurfa að lesa á milli línanna.

Sögukonan, Elín, er vinalaus einstæðingur sem hefur brynjað sig fyrir öðru fólki – „hún er alveg búin að loka“ eins og Kristín lýsir því. Einstæðingshátturinn smitast meira að segja í frásögnina þar sem hún stendur sig að því, og hættir við, að nota fyrstu persónu fleirtölu – við – í frásögn sinni: „Ég segi það bara til að firra mig ábyrgð, er að tala um sjálfa mig en reyni að draga ykkur með mér í svaðið,“ skrifar persónan. Pælingar um fleirtöluna koma fyrir oftar í bókinni og varpa ágætis ljósi á valdbeitinguna sem getur falist í því að tala um „okkur“, hvernig maður getur firrt sig ábyrgð eða jafnvel eignað sér afrek annarra – kannski mætti tala um ofbeldi fleirtölunnar.

„Elín er af annarri kynslóð en ég og mér fannst hún forvitinleg að því leyti. Eitt af því sem mér fannst svo skemmtilegt við að fara inn í þennan frásagnarhátt var hvað Elín er hátíðleg og svolítið dramatísk án þess að gangast við því, svolítið laumu-dramatísk. Þegar hún er í hátíðlegum gír þá fer hún svo að tala í fleirtölu. En þegar maður gerir það er maður farinn að vera svolítill predikari, farinn að útskýra hvernig lífið sé.

Ég fæ oft pínu verk ef ég nota þetta sjálf, þegar ég fer að tala um hvernig „við“ séum, en ég geri það samt. Þetta er svo ofsalega inngróið. En Elín upplifir sig ekki sem hluta af neinum hópi og um það er bókin líka, um það að skera sig úr. Hún er komin svo langt út úr að hún hnýtur um sammannlega frasa og getur ekki lengur beitt þeim.“

Elín upplifir sig ekki sem hluta af neinum hópi og um það er bókin líka, um það að skera sig úr.

Áferð og kraftur hlutanna

Kristín er lærð myndlistarkona og hefur það vafalaust haft áhrif á það hvernig hún nálgast skrifin, nú síðast blandaði hún til dæmis saman ljóðum og myndum í ljóðabókinni Kok sem kom út árið 2014. Maður tekur einnig eftir því hvernig hún lýsir áferð hluta af næmni sem mótar upplifun manns og skapar öflug hughrif. Í Elín, ýmislegt er áferðin enn fremur hluti af sjálfri sögunni, þar sem Elín vinnur við að búa til leikmuni – silíkonfingur, sundurbútuð lík, græna kyrkislöngu – og þarf því að veita öllum smáatriðum í áferð og ásýnd hlutanna sérstaka athygli.

„Fyrir mig er áferð eitt af því mikilvægasta, en auðvitað bara einn þáttur af mörgum sem gerir það að verkum að maður nær að spyrna við fótum og fara inn í sögu. Mér finnst það vera galdurinn, að komast inn í annan heim í gegnum skáldskap. Kannski finnst mér þetta líka bara áhugavert almennt af því að ég er persónulega mjög viðkvæm fyrir efnum og áferð. Ég er svo klígjugjörn. Það fer þess vegna mjög í taugarnar á mér ef mér finnst vera eitthvert fúsk varðandi þetta í skáldskap, fúskað með áferð – til dæmis ef það eru ómeðvitað notuð efni saman sem eru óþægileg,“ segir Kristín en viðurkennir að hún noti einmitt þessa klígju og óþægindi meðvitað til að magna upp tilfinningar í verkum sinum.

En það er ekki bara áferðin heldur virðist vera einhver óhugnanlegur kraftur í sjálfum hlutunum í verkum Kristínar, þeir virka dulmagnaðir og lifandi, en eru kannski fyrst og fremst tákn um það sem hefur gerst og á eftir að gerast. Afskorin nashyrningshorn, litlir glerskúlptúrar af dýrum og rótarlausar plöntur sem birtast á óvenjulegum stöðum.

„Táknin er afskaplega mikilvæg fyrir þessa sögupersónu. Þetta er eitthvert andlegt ástand, að lesa heiminn í táknum. Ég hef heyrt að þegar það er mikið seratónín í heilanum, þegar maður er í mikilli vellíðan, þá sjái maður tengingu allra hluta betur – þá sé auðveldara að finna fyrir trúartilfinningu, ást og öllu þessu. En þegar maður er hinum megin, í vanlíðan, verða þessar tengingar hins vegar að samsæriskenningum – þær eru eins og önnur hlið á sama pening.

Það er svo sterkt í okkur að leita að táknum. Þessi tákn geta verið hvað sem er, vísindagreinar eða hvað sem við notum til að tengja saman raunveruleikann okkar. En ef við sjáum engin tákn í hversdeginum þá erum við ekki tengd, þá vantar einhverja tengingu, þá er eitthvað rofið. Í upphafi segir Elín sjálf að bókin fjalli um heilann og það er líklega rétt, þetta er ákveðin stúdía um geðið.“

Hlutir missa merkingu sína

Frekar en að bókin fjalli um heilann, má kannski segja að hún skoði hvernig heilinn bilar og veruleikinn rofnar. Móðir Kristínar, Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, lést í lok síðasta árs úr Alzheimer-sjúkdómnum, og viðurkennir Kristín að það geti haft áhrif á skrifin – þótt það hafi verið óvart.

„Ég hvarf alveg inn í þessa sögu á mánuðunum eftir að mamma dó en skáldskapurinn á sitt eigið líf og sagan fór þessa leið. Það er kannski ekki skrítið að Alzheimer sé mér hugleikinn. Fólkið mitt hefur margt farið úr þessum sjúkdómi, amma mín móðurmegin og föðurafi minn. Það er samt kannski mikilvægt að taka fram að þetta er algjörlega skáldsaga og persónurnar sprottnar úr sjálfri mér en eiga sáralítið sameiginlegt með ástvinum mínum sem hafa fengið heilabilun,“ segir hún.

„Mig langar heldur ekki að njörva þetta of mikið niður. Sjúkdómur eins og Alzheimer birtist aðstandendum nefnilega að mörgu leyti eins og andleg veikindi. Fólk missir í rauninni tökin andlega – og svo líkamlega í kjölfarið. Það er fyrst og fremst þetta sem ég var að skoða,“ segir Kristín og bætir við hvernig andlegu veikindin eru eins og veruleikarof, tengsl við hlutina glatast.

„Það var auðvitað hræðilegt en líka mjög merkilegt að sjá hvernig hlutirnir missa merkingu sína fyrir manneskju. Allt í einu er hversdagslegur hlutur eins og glas orðinn algjörlega framandi. Það er eitthvað sem hefur losnað. Fyrst þegar þetta var að byrja hjá mömmu sagði hún sjálf að þetta væri eins og hún væri föst í Beckett-verki.

En það að missa tökin á raunveruleikanum getur verið rosaleg einangrun í sjálfu sér,“ heldur Kristín áfram. „Það var líka þessi einangrun sem var að leita á mig. Af hverju sem hún svo sem stafar.“

Ég hvarf alveg inn í þessa sögu á mánuðunum eftir að mamma dó en skáldskapurinn á sitt eigið líf og sagan fór þessa leið.

Nýjasta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur fjallar meðal annars um listsköpun og listheiminn, en sagan er ekki sögð af hinum yfirlýsta snillingi heldur konu sem er í þjónustuhlutverki við listirnar.
Af listfengri natni Nýjasta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur fjallar meðal annars um listsköpun og listheiminn, en sagan er ekki sögð af hinum yfirlýsta snillingi heldur konu sem er í þjónustuhlutverki við listirnar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vandi snillingsins

Á undanförnum árum hefur Kristín skrifað mikið fyrir leikhús og fengið að kynnast starfi í þeim hluta menningarheimsins, og fjallar bókin að stórum hluta um listsköpun og listsamfélagið. Þegar maður les um karlana sem stjórna, snillingana sem aðrir snúast í kringum, og samskipti þeirra við þessar tvær kvenpersónur leitar hugurinn óneitanlega til umræðu undanfarinnar vikna, þar sem mikill fjöldi fólks hefur risið upp og opnað sig um áreiti og ofbeldi valdamikilla karla í kvikmynda- og leikhúsbransanum. Kristín segir bókina vissulega geta tengst þessari umræðu, og sérstaklega umfjöllun um egóið og snillinginn.

„Ég var upptekin af feðraveldinu þegar ég var að skrifa bókina og því sem þessar kvenpersónur segja okkur um það. Svo hef ég líka verið að velta egóinu fyrir mér, metnaðinum og óttanum við dauðann, allt mjög háleitt. En mig langaði til þess að sá sem segði söguna væri í þjónustuhlutverki við listirnar, sinnti praktísku hliðinni af listfengri natni. Amma hennar sem ól hana upp var líka hárkollumeistari. Sem tákn um breytta tíma er hin aðalpersónan nítján ára „séní“, sjálft leikskáldið, sú sem á hugmyndina að hausunum sem vantar kannski kollur. Hugsa sér, og þá þarf hárkollumeistarinn að kýla hvert einasta hár fyrir sig, slík er ábyrgð unglingssénísins, þetta er mjög flókið. En svo spilar annað inn í þetta sem kemur kyni ekkert við og það er að hvorug þessara persóna hefur þannig bakland eða stuðning að krafan sé sanngjörn um heilbrigt egó, auðvitað eru þær annaðhvort drasl eða best og það er einmitt vandi snillingsins.

Klassíska hugmyndin um snillinginn gengur svo aftur í gegnum bókina, Álfur – þessi mikli höfundur, þetta stóra, agnarsmáa, útþanda, mölbrotna egó og rústar sjálfum sér og þeim sem verða á vegi hans og hjörtun slá örar og allir eru mjög hrifnir, vilja auðvitað bara að blóðið renni aðeins hraðar og gefa frípassa og peppa og dá og slúðra. Og snillingurinn er auðvitað vanrækt barn og biður um mörk en er alltaf súkkulaði frá því hann var efnilegastur þangað til hann varð mestur og bestur og aldrei meiri en eftir að hann dó og hann er alltaf karlmaður. Konur sem haga sér svona fá yfirleitt sjúkdómsgreiningu eða sorgarívaf sem yfirskyggir ævistarf þeirra.“

Og snillingurinn er auðvitað vanrækt barn og biður um mörk en er alltaf súkkulaði frá því hann var efnilegastur þangað til hann varð mestur og bestur og aldrei meiri en eftir að hann dó og hann er alltaf karlmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Að bylta kapítalismanum – meira að segja The Economist talar um það

Að bylta kapítalismanum – meira að segja The Economist talar um það
433
Fyrir 2 klukkutímum

Er í engu standi og fékk ekki samning – Má mæta á æfingar

Er í engu standi og fékk ekki samning – Má mæta á æfingar
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Tillagan um að dæmdir menn fái að sitja í stjórn FME kom frá starfshópi Bjarna Ben

Tillagan um að dæmdir menn fái að sitja í stjórn FME kom frá starfshópi Bjarna Ben
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Ómar rifjar upp erfiða reynslu: Skildi hundinn eftir deyjandi – „Erfið ákvörðun, sem þurfti að taka“

Ómar rifjar upp erfiða reynslu: Skildi hundinn eftir deyjandi – „Erfið ákvörðun, sem þurfti að taka“
433
Fyrir 4 klukkutímum

Chelsea vill Martial: Gæti Willian farið í skiptum? – Tölfræðin skoðuð

Chelsea vill Martial: Gæti Willian farið í skiptum? – Tölfræðin skoðuð
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Fjárfestingar í norrænum gagnaverum gætu tvöfaldast fram til ársins 2025

Fjárfestingar í norrænum gagnaverum gætu tvöfaldast fram til ársins 2025
433
Fyrir 5 klukkutímum

Sturridge reynir að kaupa sér frest – Þarf að svara til svaka

Sturridge reynir að kaupa sér frest – Þarf að svara til svaka
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Sonur Hákonar Helga var laminn af skólabræðrum sínum – „Ég var reiður og er ennþá“

Sonur Hákonar Helga var laminn af skólabræðrum sínum – „Ég var reiður og er ennþá“