fbpx
Fókus

10 bestu kvikmyndir Stephens King

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 25. desember 2017 18:00

Bækur og smásögur rithöfundarins Stephens King hafa verið vinsæll efniviður í kvikmyndir og sjónvarpsþætti allt frá því að hann sló fyrst í gegn um miðjan áttunda áratuginn. Ekki hefur skipt máli hvort um hefur verið að ræða hrollvekjur, vísindaskáldskap, drama eða jafnvel spennumyndir. Hér eru nokkrar af þeim allra bestu.

1. The Shining (1980)

The Shining frá árinu 1977 var þriðja skáldsaga höfundarins og sú sem skaut honum upp á stjörnuhimininn. Kvikmyndin, eftir leikstjórann Stanley Kubrick, fékk hins vegar mjög misjafna dóma þegar hún kom út og King sjálfur sagðist hata hana. Sagan fjallar um Torrance-hjónin og son þeirra Danny sem taka að sér að vakta hótel yfir vetur. Hótelið er hins vegar byggt á fornum indjánagrafreit og eftir nokkurn tíma í einmanaleikanum fer fjölskyldufaðirinn að missa vitið. Ekki leið á löngu uns fólk fór að kunna að meta The Shining og nú þykir hún ein besta hrollvekja sögunnar. Sagan var endurgerð árið 1997 sem þáttaröð, King til mikillar ánægju en áhorfendum til mikilla leiðinda.

2. Stand by Me (1986)

Myndin, sem gerist árið 1959 í Oregon, er byggð á smásögunni The Body frá árinu 1982. Hún fjallar um fjóra unga drengi sem halda af stað í leiðangur til að finna lík drengs sem þeir fréttu að væri talinn af. Þeir ganga eftir brautarteinunum og lenda í ýmsum ævintýrum og erfiðleikum á leiðinni, sérstaklega í tengslum við gengi eldri drengja. Myndin sker sig nokkuð úr verkum King þar sem hún er hvorki hrollvekjandi né yfirnáttúruleg, þetta er fyrst og fremst hjartnæm saga sögð frá sjónarhóli barna. Stand by Me er sérstaklega þekkt fyrir leikarahópinn sem innihélt meðal annars Kiefer Sutherland, Wil Wheaton, Corey Feldman og River Phoenix heitinn sem allir voru að stíga sín fyrstu skref.

Ný kynslóð leikara
Stand by Me Ný kynslóð leikara

3. The Green Mile (1999)

Myndin er byggð á smásagnasafni frá 1996 og segir frá dauðadeild fangelsis í Louisiana á kreppuárunum. Líkt og í bókinni er ekki um eina heildstæða sögu að ræða heldur er fylgst með hverjum fanga fyrir sig og sá sem bindur þær saman er yfirvörðurinn Paul Edgecomb, leikinn af Tom Hanks. Myndin er hádramatísk og að hluta til yfirnáttúruleg þar sem einn fanginn, John Coffey, hefur hæfileika til að lífga fólk og dýr við. Leikarinn Michael Clarke Duncan var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt sem Coffey.

Michael Clarke Duncan bræddi áhorfendur
The Green Mile Michael Clarke Duncan bræddi áhorfendur

4. Misery (1990)

Þegar rithöfundurinn Paul Sheldon lendir í bílslysi í miklum snjóstormi kemur hjúkrunarkonan Annie Wilkes honum til bjargar og flytur hann á afskekkt heimili sitt. Hún reynist vera aðdáandi númer eitt af bókum hans um Misery Chastain. En þegar hún kemst að því að Sheldon hyggist láta Misery deyja í nýjustu bókinni tryllist hún og heldur honum föngnum í húsinu. Stephen King hefur lýst skáldsögunni frá árinu 1987 sem baráttu sinni við fíkn og að Wilkes sé myndlíking fyrir kókaín. Helsti styrkur kvikmyndarinnar er túlkun leikkonunnar Kathy Bates á Wilkes, sem bæði gerði hana að stórstjörnu og færði henni Óskarsverðlaun.

Kathy Bates fékk verðskuldaðan Óskar
Misery Kathy Bates fékk verðskuldaðan Óskar

5. Carrie (1976)

Stephen King var nánast óþekktur höfundur þegar kvikmyndin Carrie, byggð á fyrstu útgefnu skáldsögu hans frá árinu 1974, kom út. Sagan fjallar um unglingsstúlku sem elst upp hjá ofstækisfullri móður og er lögð í einelti í skólanum. Hún hefur þó dulræna eiginleika sem koma fram þegar hún verður fyrir áföllum og því ljóst að um tifandi tímasprengju er að ræða. Myndinni, sem er blanda af hrollvekju og vísindaskáldskap, er leikstýrt af Brian de Palma og hefur hún þau sterku höfundareinkenni að vera subbuleg. Sissy Spacek og John Travolta fara með aðalhlutverk en leikkonan Piper Laurie stelur senunni sem móðir Carrie.

Sissy Spacek tortímir ballinu
Carrie Sissy Spacek tortímir ballinu

6. It (1990)

Hin nýlega kvikmynd It, byggð á fyrri helmingi skáldsögu King frá árinu 1986, hefur notið mikilla vinsælda. En hún er í raun endurgerð á mun betri sjónvarpsmynd. Sagan fjallar um hóp af krökkum í smábæ í Maine-fylki árið 1960 sem þurfa að takast á við óvætt sem birtist þeim sem hinn morðóði trúður Pennywise. Lykilþemu sögunnar eru ímyndunaraflið og óttinn sjálfur en án hans er Pennywise máttlaus. Seinni hluti sjónvarpsmyndarinnar gerist 27 árum síðar þegar Pennywise vaknar enn á ný en sá hluti er ekki jafn áhrifamikill og hinn fyrri. Galdur myndarinnar er aðallega fólginn í trúðnum sjálfum, leiknum meistaralega af Tim Curry.

Tim Curry sem trúðurinn Pennywise
It Tim Curry sem trúðurinn Pennywise

7. The Shawshank Redemption (1994)

Myndin er af mörgum talin sú besta sem gerð hefur verið eftir verki Stephens King, enda hlaut hún sjö Óskarstilnefningar, hefur trónað á toppi IMDB-listans um áraraðir og er oft nefnd sem ein af bestu kvikmyndum allra tíma. Hún er þó byggð á lítið þekktri smásögu frá árinu 1982 sem nefnist Rita Hayworth and Shawshank Redemption. Sagan fjallar um Andy Dufresne sem er dæmdur fyrir tvöfalt morð og fær lífstíðar fangelsisdóm. Fylgst er með Dufresne og samföngum hans yfir áratuga skeið og hvernig þeir bregðast við því að vera innilokaðir svo lengi.

Morgan Freeman fer á kostum sem Red
The Shawshank Redemption Morgan Freeman fer á kostum sem Red

8. Apt Pupil (1998)

Apt Pupil var gerð eftir samnefndri smásögu frá árinu 1982 en myndin fékk nokkuð misjafna dóma. Sumum fannst hún líkjast The Marathon Man (1976) enda fjalla báðar um unga ameríska menn sem koma upp um fyrrverandi stríðsglæpamenn Þriðja ríkisins. Líkt og Marathon Man er Apt Pupil spennumynd sem er hlið Stephens King sem áhorfendur eru ekki vanir að sjá. Í myndinni myndast sjúkt samband milli hins unga Todd Bowden og nágranna hans sem reynist vera SS-foringinn Kurt Dussander. Apt Pupil er einstaklega vel leikin en fór lágt hjá bæði gagnrýnendum og bíógestum.

Ian McKellen sem nasistinn Kurt Dussander
Apt Pupil Ian McKellen sem nasistinn Kurt Dussander

9. The Running Man (1987)

Stephen King skrifaði The Running Man árið 1982 undir dulnefninu Richard Bachman. Sagan gerist í dystópískri framtíð og fjallar um Ben Richards sem ákveður að taka þátt í lífshættulegum veruleikasjónvarpsþætti. Í kvikmyndinni er Richards, leikinn af Arnold Schwarzenegger, mun meiri hetja en í bókinni og hann er neyddur til að taka þátt í sjónvarpsþættinum. Myndin var ekki jafn vinsæl og margar aðrar sem vöðvafjallið lék í á níunda áratugnum en snerti þó á málefnum, svo sem áróðri og brenglun skemmtanabransans, sem á enn við í dag.

Arnold Schwarzenegger í dystópískri framtíð
The Running Man Arnold Schwarzenegger í dystópískri framtíð

10. The Langoliers (1995)

The Langoliers er sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem var gerð eftir smásögu frá árinu 1990. Hvorki leikstjórn né leikur er til fyrirmyndar, hún er fremur illa unnin tæknilega séð og meira að segja nokkuð langdregin. Einhverra hluta vegna er hún þó ákaflega heillandi og telst lítil költ-perla í dag. Sennilegasta ástæðan er sú að hún tekst á við þá furðulegu hugmynd um að tíminn sé étinn. Myndin gerist um borð í flugvél sem hefur flogið í gegnum einhvers konar tímagat. Einungis farþegarnir sem voru sofandi eru til staðar en hinir horfnir með húð og hári. Seinna komast þeir að því að þeir eru fastir í fortíðinni og litlar verur eru á leiðinni að éta þá alla.

Dean Stockwell í klemmu
The Langoliers Dean Stockwell í klemmu
Kristinn H. Guðnason
Kristinn Haukur Guðnason er blaðamaður og sagnfræðingur sem starfað hefur hjá DV síðan 2017 en áður skrifaði hann fyrir Kjarnann.
Kristinn skrifar almennar fréttir, mannlífsviðtöl, um söguleg málefni og menningu.
Hann er ólæknanlegur nörd sem eyðir laugardagskvöldum í að spila við sjálfan sig og leggja höfuðborgir heimsins á minnið.

netfang: kristinn@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Fyrsta borgaralega giftingin þvinguð upp á landsmenn

Fyrsta borgaralega giftingin þvinguð upp á landsmenn
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Í fangelsi vegna trúar sinnar

Í fangelsi vegna trúar sinnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Salmonellusmitaðir kjammar

Salmonellusmitaðir kjammar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Verk í náttúru Þeystareykja – Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlýtur fyrstu verðlaun

Verk í náttúru Þeystareykja – Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlýtur fyrstu verðlaun