fbpx

Vor í dal

sagnalist kvikmyndaleikstjóra í öðru ljósi

Ritstjórn DV
Laugardaginn 22. júlí 2017 13:00

Það þekkja allir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kvikmyndaleikstjórann Friðrik Þór Friðriksson og hans bíómyndir sem sumar eru með þeim vinsælustu sem gerðar hafa verið hér á landi, nægir þar að nefna Engla alheimsins, Djöflaeyjuna, Börn náttúrunnar, Skytturnar, Bíódaga, Mömmu Gógó og Rokk í Reykjavík. Hitt vita kannski færri að hann hefur lifað um margt ansi skrautlegu lífi, ferðast til flestra landa í heiminum og lent í allskonar ævintýrum og sérkennilegum atvikum. Og að hann er sömuleiðis frábær sögumaður, orðheppinn og hittinn á að sjá eitthvað sögulegt og frásagnarvert út úr flestum aðstæðum. Þetta veit sá sem þessar línur skrifar, en við Friðrik höfum verið vinir í áratugi, gamlir skólabræður, samstarfsmenn og knattspyrnufélagar í Lunch United.

Sýnishorni af sagnamennsku Friðriks geta allir fengið að kynnast af lestri bókar með sögum hans sem kom út fyrir 23 árum; árið 1994 kom semsé út bókin Vor í dal, þar sem nokkrar af sögum Friðriks eru frábærlega skráðar af Árna Óskarssyni. Merkilegt nokk þá fékk bókin tiltölulega litla athygli þegar hún kom út, og ekki bara jákvæða; það var eins og fólk vissi ekki hvernig átti að taka húmor sagnanna, sem sumum þótti víða raupsamur – hún seldist lítið og spurðist ekki víða. Þeir sem hana þekkja halda hinsvegar nær allir upp á þetta skemmtilega kver, sem sjálfsagt er að rifja upp.

Sögurnar eru úr ýmsum áttum, úr barnæsku hans, ferðalögum, atvikum við kvikmyndagerð, sumardvölum í sveit og af vinnustöðum sem Friðrik kynntist. Þar á meðal eru nokkrar sögur af því er hann vann nokkur ár meðfram skóla í kirkjugörðum aðallega við að setja upp legsteina. Sem dæmi um þá frásagnarlist er sagan Maðurinn með ljáinn:
Alltaf nóg að gera

Kirkjugarðar Reykjavíkur auglýstu jafnan eftir sláttumönnum á sumrin til þess að slá gras þar sem vélum varð ekki við komið. Í starf þetta réðu sig ýmsir merkir menn, svo sem Skeggi Ásbjarnarson sem landskunnur varð fyrir barnatíma sína í Ríkisútvarpinu. En flestir voru sláttumennirnir gamlir uppflosnaðir bændur. Einn þeirra var afar ófrýnilegur ásýndum en einstakur ljúflingur. Það var einhverju sinni í dumbungsveðri að við Ólafur Þorsteinsson verkstjóri gengum fram á hann þar sem hann brýndi ljáinn af mikilli eljusemi. Í sömu andrá heyrðist tregabundinn hljómur útfararklukknanna. Þá gaut gamli maðurinn augunum til okkar frá ljánum, tannlaus munnurinn rifnaði í gleiðu glotti, og sagði: „Það er alltaf nóg að gera.“

Münchhausen stíll

Eins og áður var nefnt þá má stundum greina gamaldags raup- eða grobbstíl í sumum sagnanna, sem heita þá nöfnum eins og Uppruni veðurspeki minnar eða Prestsverk mín, en að sjálfsögðu skiptir í því sambandi máli hvaða frásagnarhátt höfundurinn Árni Óskarsson hefur valið sögunum; á milli þeirra tveggja, sögumanns og skrásetjara, má greina bæði afar skemmtilega og húmoríska fjarlægð og jafnframt náælægð. Sumar af þessum sögum birtust í DV fyrir margt löngu, með fínum myndskreytingum Guðmundar heitins Thoroddssen. Og kannski var það stundum full-glannalegt, því að fólk náði ekki eða skildi hinn dásamlega Münchhausen stíl sem á þeim er (eða Múnkhásen, eins og mörgum er tamta að segja). Og margir skildu sömuleiðis allt bókstaflega, eða þeim „jarðlega skilningi“ sem Snorri nefnir í Eddu um þá sem ekki var gefin „andlega spektin.“ Þessi saga, Brotamálmur, gerði til dæmis allt vitlaust þegar hún birtist í DV:

Alltaf var kaupið heldur lágt í kirkjugarðsvinnunni. Þess vegna reyndi ég að hafa allar klær úti til að afla mér aukatekna. Einhverju sinni fékk ég þá snjöllu hugmynd að safna saman öllum kopar sem fyrirfinndist í Fossvogskirkjugarðinum, brjóta hann og bræða og selja síðan. Ég ákvað að taka Örn Daníel Jónsson félaga minn með mér í þetta verk, en hann var ákafur kommúnisti og niðurrifsmaður á þessum árum. Þar sem ég var öllum hnútum kunnugur í garðinum sóttist verkið vel en þó var þetta erfið vinna. Eftir heillar nætur strit höfðum við gjörsamlega hreinsað allan kopar úr garðinum, hvort sem það voru stafir, krossar, styttur, englar eða dúfur. Þóttumst við hafa aflað vel og vorum kampakátir þegar við ókum á brott með fenginn í morgunsárið. Við bræddum svo koparinn, seldum og fengum gott verð fyrir.

Fólk í skinnklæðum eskimóa

Það var auðvitað ærið djarft að birta svona sögu staka, og án samhengis við ýkju- og grobbstílinn sem er aðall bókarinnar, en auðvitað var hér tómur uppspuni á ferðinni, þeir félagar höfðu aldrei stolið neinum kopar, en máttu samt sitja undir hörðum ákúrum og fordæmingum fyrir þetta og blaðið líka; Örn vinur Friðriks sem nefndur er í sögunni var meðal annars settur af sem stjórnarmaður í virðulegu fyrirtæki vegna þess sem sagt er í þessum sögubút, að því ég hef heyrt.

Friðrik Þór hefur eiginlega lifað svo viðburðaríka æfi að það hefur hvarflað að mörgum að hann eigi níu líf eins og kötturinn. Hann hefur blandast inn í róstur og árásir og stóra heimsviðburði, auk þess að kynnast öllum helstu mógúlum og stjörnum kvikmyndaheimsins. Þannig er til dæmis sagt frá því þegar hann ásamt föruneyti héðan af Íslandi fór og var viðstaddur sem einn hinna tilnefndu á Óskarsverðlaunahátíðinni í Hollywood. Það var í fyrsta sinn sem Íslendingar voru komnir þarna í þessum tilgangi og skipuleggjendur athafnarinnar voru greinilega ekki alveg klárir á hvernig það fólk yrði sem kæmi frá okkar landi, eins og segir frá í söguþættinum Staðgenglarnir:

Við Óskarsverðlaunaafhendingu tíðkast það að fólk er ráðið til þess að hlaupa í skarðið fyrir þá sem þurfa að rísa úr sætum sínum og bregða sér frá. Þetta er gert til þess að salurinn virðist aldrei tómur. Athöfnin er löng, tekur fimm tíma, og á að vera svo eftirsóknarvert að sitja þarna að aldrei má sjást nokkurstaðar autt sæti. Þegar við Íslendingarnir vorum viðstaddir slíka athöfn vegna Barna náttúrunnar brugðum við okkur á barinn einhvern tíma á meðan á dagskránni stóð. Sáum við þá okkur til furðu að fjórir eskimóar í skinnklæðum settust umsvifalaust í sæti okkar.

Hlógu stelpurnar

Eins og áður sagði tók ég eftir því, sem mjög hélt fram gildi þessarar bókar þegar rætt var um það nýjasta á markaðnum á sínum tíma, að það var ýmislegt sem fólk lét fara í pirrurnar á sér, það tók margt sem átti að vera tvírætt mjög bókstaflega, eins og sögur af íþróttaafrekum höfundarins, veðurspeki hans og dulrænum hæfileikum. Þannig segir hann sögu af samskiptum sínum við stærðfræðikennnara í Vogaskóla um mengjareikning, en kennarinn vildi að Friðrik svaraði því hvað einn og hálfur köttur yrði lengi að éta eina og hálfa rottu, og veifaði orðabók sem átti að jafngilda einni og hálfri rottu. Þegar Friðrik segist hafa svarað því því að það ylti á hversu rottan væri margar blaðsíður bætir hann við „Þá hlógu meira að segja stelpurnar.“

Svona komment strjúka auðvitað mörgum í bókmenntaheiminum öfugt, en þeir sem muna þá tíma að stúlkur voru mun prúðari í kennslutímum og ólíklegri til að hlæja að kennurum þótt yfir þá gengi flóð af fúlum bröndurum frá athyglissjúkum strákum, þeir skilja alveg meininguna með þessari athugasemd.

En margar eru sögurnar hreinar perlur, draga upp brilljant smámyndir. 1980 var rekinn svokallaður Klúbbur FS í Félagsstofnun stúdenta, þetta var í tengslum við Listahátíð og Friðrik starfaði þar á barnum. Og þaðan er þessi síðasta saga sem ég birti hér:

Björn Jónasson var forsprakki klúbbs FS sem rekinn var í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut sumarið 1980. Hann kom að máli við mig og bað mig um að hanna auglýsingaplakat fyrir þennan skemmtistað. Ég valdi mynd úr einni af stórmyndum Cecil B. de Mille um hnignun Rómarveldis þar sem karlar sitja á sundlaugarbarmi með vínbikara en léttklæddar meyjar ganga um beina. Plakati þessu var dreift víðs og vegar um bæinn. Mæltist það vel fyrir og jók aðsókn að staðnum til muna. Kvöld eitt tek ég eftir því að þangað er kominn miðaldra maður með sunddót undir arminum og týrólahatt á höfði. Hann er vandræðast þarna frammi í anddyri svo að ég geng til hans og spyr hvort ég geti aðstoðað hann eitthvað. Hann svaraði: „Þér gætuð kannski vísað mér á búningsklefana.“

Ég held að sem flestir ættu að skoða þessa bók Friðriks Þórs og Árna Óskarssonar. Og ég held að vel mætti birtast meira af þessu tagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 3 klukkutímum

Heimir vann deildina með HB – Magnaður árangur

Heimir vann deildina með HB – Magnaður árangur
433
Fyrir 3 klukkutímum

Útskýrir af hverju Salah á verðlaunin skilið frekar en Ronaldo og Modric

Útskýrir af hverju Salah á verðlaunin skilið frekar en Ronaldo og Modric
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

„Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hvor öðrum“

„Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hvor öðrum“
Bleikt
Fyrir 3 klukkutímum

Svona lítur Ben úr Friends út í dag – Hversu gömul erum við orðin?

Svona lítur Ben úr Friends út í dag – Hversu gömul erum við orðin?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Þrjú lið geta enn unnið titilinn í lokaumferðinni – Fjölnir í Inkasso-deildina

Þrjú lið geta enn unnið titilinn í lokaumferðinni – Fjölnir í Inkasso-deildina
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Þessa líkamshluta máttu ekki snerta

Þessa líkamshluta máttu ekki snerta
433
Fyrir 5 klukkutímum

Augljóst af hverju Sarri fékk Jorginho – Mögnuð staðreynd

Augljóst af hverju Sarri fékk Jorginho – Mögnuð staðreynd
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Fyrrum landsliðsmaður Englands lofsyngur Jóa Berg – ,,Sendi bakvörðinn á bekkinn“

Fyrrum landsliðsmaður Englands lofsyngur Jóa Berg – ,,Sendi bakvörðinn á bekkinn“