Fókus

„Þú ert búin að rústa lífi mínu, ekki halda að ég vilji neitt með þig hafa“

Bjarney losaði sig úr ofbeldissambandi

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 26. september 2017 09:01

Bjarney Bjarnadóttir íþróttafræðingur og kennari skrifaði stöðufærslu á Facebooksíðu sína síðastliðinn sunnudag sem hún gaf DV góðfúslega leyfi til að birta. Í færslunni, lýsir hún eigin reynslu af ofbeldissambandi í erlendu landi og hvernig hún kom sér út úr því. Segir Bjarney að hún vilji deila sinni sögu, ef hún hjálpar einhverjum öðrum í sömu stöðu að finna leið út úr sínu ofbeldissambandi.

„Ástæðan fyrir því að mig langar að deila minni sögu er sú að það er fullt af fólki sem er í aðstæðum sem það sér ekki útgönguleið út úr. Ég get lofað ykkur því að það er fullt af fólki sem er tilbúið að hjálpa, fyrsta skrefið er alltaf að segja frá, viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þetta er óheilbrigt og óviðunandi ástand. Og ekki vera hrædd við að þiggja hjálp, ég veit það er erfitt fyrir stoltið en skömmin er ekki okkar,“ segir Bjarney einlæg.

„Að sama skapi er svo ótrúlega mikilvægt að fá langtíma húsnæði fyrir þolendur heimilisofbeldis þar sem margir hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa á eigin fótum og neyðast því til að fara aftur heim til ofbeldismannsins.

Fyrrverandi sambýlismaður Bjarneyjar er erlendur og bjuggum þau saman í sjö mánuði á Íslandi, áðu en Bjarney flutti með honum út. Ofbeldið byrjaði með afbrýðisemi og skömmum og vatt síðan upp á sig.

Kallaði Bjarney misheppnaða og heimska

Ofbeldið byrjaði fljótlega eftir að þau fluttu út. „Ég hellti niður einhverju í bílinn og var hikandi við að þrífa það með erminni á peysunni minni eins og hann skipaði mér heldur var að leita að bréfi til að þurrka upp. Þá kom þvílíkur fúkorðaflaumur, að ég væri svo misheppnuð og hvernig ég gæti verið svona fokking heimsk alltaf. Auðvitað brá mér þar sem það hefur aldrei neinn talað svona við mig áður og ég sem fullorðin manneskja vissi að þetta var ekki eðlileg hegðun,“ segir Bjarney.

Um kvöldið baðst hann síðan afsökunar og Bjarney sem var nýbúin að fórna öllu á Íslandi ákvað að fyrirgefa.

Bara forsmekkurinn að því koma skyldi

Ofbeldið hélt þó áfram. „ Nánast vikulega gerði ég eða sagði eitthvað „rangt“ og allt fór í háaloft. Hann var ekki byrjaður að lemja mig viljandi, það voru samt nokkur tilvik þar sem hann var að berja í hluti í kringum mig og ég var fyrir og tók höggið en hann viðurkenndi að hann langaði til þess: „Mig hefur aldrei áður langað til að berja kvenmann!,“ sagði hann orðrétt,“ segir Bjarney, sem efaðist ekki um að það væri bara tímaspursmál hvenær ofbeldið myndi þróast í líkamlegt ofbeldi.

Bjarney mátti ekki eiga í samskiptum við aðra karlmenn, átti að koma beint heim úr vinnunni og mátti ekki véfengja hann á neinn hátt.

„Sem betur fer var ég orðin fullorðin og vissi að þetta var á engan hátt eðlileg hegðun eða heilbrigt samband, þó að auðvitað hafi þetta haft áhrif á mann og oft hugsaði maður, „æ ég hefði kannski ekkert átt að segja þetta,“ þó að maður hafi ekki sagt eða gert neitt rangt.

Var fjárhagslega háð fyrrverandi

Bjarney segir að henni hafi fundist erfitt að flytja heim til Íslands með skottið á milli lappanna, auk þess sem hún var fjárhagslega háð sínum fyrrverandi. „Og einhvern veginn réttlætir maður hlutina fyrir sér og gerir lítið úr alvarleika þeirra.“

Góð vinkona kom henni hinsvegar til bjargar, Bjarney leigði íbúð og flutti út frá sínum fyrrverandi. Hann baðst síðan afsökunar og Bjarney gaf honum fleiri sénsa, en mánuði eftir að hún ákvað að slíta sambandinu endanlega komst hún að því að hún væri ólétt. „Þegar ég sagði honum fréttirnar og eftir að hann hafði reynt að panta tíma fyrir mig í fóstureyðingu að mér forspurðri, þá kom: „Þú ert búin að rústa lífi mínu, ekki halda að ég vilji neitt með þig eða „the little shit“ hafa og ef þú hefur samband við mig aftur þá skýt ég þig í fokking hausinn, ef þú trúir mér ekki láttu þá bara reyna á það!“

Flutt heim til Íslands og hamingjusöm í dag

Bjarney flutti í kjölfarið heim og bjó fyrst hjá foreldrum sínum, sem hún segir bestu ákvörðun sem hún hefur tekið á ævinni. „Við vorum þar í öruggu skjóli umvafin ást og umhyggju og ég þakka fyrir það á hverjum degi að barnið mitt hafi ekki þurft að alast upp í kringum mann með þetta innræti. Í dag er sonur minn 5 ára og enn hefur ekkert múkk heyrst frá blóðföður hans en við gætum ekki verið hamingjusamari, sonur minn er það besta sem hefur komið fyrir mig og ég held að hann sé þokkalega heppinn með mömmu líka,“ segir Bjarney.

„Að sjálfsögðu styð ég átakið #áallravörum og hvet aðra til að gera slíkt hið sama. Okkur kemur þetta öllum við,“ segir Bjarney, sem losaði sig undan heimilisofbeldi og deilir sinni sögu til að sýna öðrum sem eru i sömu stöðu að það er alltaf leið út.

Ragna Gestsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“