Fókus

Jón Gnarr skammaður í Kringlunni: „Ég svaraði: „Um að gera að stoppa alla sem þú þekkir ekki“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 13. september 2017 20:00

Flest sem Jón Gnarr tekur sér fyrir hendur vekur athygli landsmanna. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti hann á dögunum og meðal annars var spjallað um pólitík og bókmenntir, en Jón verður með bók í jólabókaflóðinu.

Eins og að vinna Eurovision

Þú átt öflugan aðdáendahóp hér á landi en samt þína gagnrýnendur sem telja að það sé hneisa að þú skulir hafa orðið borgarstjóri.

„Ég hef ekki velt mér mikið upp úr því. Þetta er eins og að vinna Eurovision. Það eru alltaf einhverjir sem eru ósáttir við að þú hafir unnið. Þeir komast aldrei yfir það og tauta: Ég gleymi aldrei Eurovision árið 1992, þetta var náttúrlega bara hneyksli!

Um daginn hitti ég gamla konu í Kringlunni. Hún sagði: „Ég er voða ánægð með þig og þú hefur alltaf staðið þig svo vel í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur, nema þegar þú varst borgarstjóri, mér fannst það alveg ömurlegt.“ „Já, frábært. Takk fyrir að deila því með mér,“ sagði ég. „Já, ég var mjög óánægð með það,“ endurtók hún. Ég svaraði: „Um að gera að stoppa alla sem þú þekkir ekki á förnum vegi ef þú ert óánægð með eitthvað sem þeir hafa gert. Ég þekki þig ekki en það er örugglega eitthvað í sambandi við þig sem ég gæti verið óánægður með.“

Við ættum að hætta að taka hluti svona óskaplega alvarlega. Það skiptir álíka miklu máli hver er borgarstjóri í Reykjavík og hver er forstjóri Toyota. Í rauninni skiptir það engu máli. Við getum sagt: Toyota er miklu betra eftir að Úlfar tók við – en það er samt ekki þannig. Toyota er bara Toyota og bílamarkaðurinn stjórnast af svo mörgu öðru en forstjóranum.

Fólk tekur íslensk stjórnmál alltof persónulega og of bókstaflega. Þetta minnir mig svolítið á það þegar fólk horfði á Dallas í uppnámi og spurði: Hvað er eiginlega að honum J.R. að koma svona fram við Sue Ellen!

Stjórnmál snúast fyrst og fremst um samskipti, hluti sem erum eða ættum að gera saman sem heild. Ég á erfitt með að draga fólk í pólitíska dilka. Ég hef aldrei náð því að fólk sé fífl og fávitar af því það er í Framsóknarflokknum. Mér finnst það ekki. Eða að allir sem eru í VG eða Sjálfstæðisflokknum séu á einhvern ákveðinn hátt. Það er bara ekki þannig.

Ég hef sjaldnast haft afgerandi afstöðu gagnvart stjórnmálaflokkum. Þar hefur verið fólk sem mér hefur líkað við og annað fólk sem mér hefur ekki líkað við. Stjórnmálaflokkar eru soldið eins og knattspyrnulið. Fyrir mörgum árum skráði ég mig í Sjálfstæðisflokkinn til að styðja Gísla Martein í prófkjöri. Ég vissi ekkert hvað prófkjör var. Gísli var bara strákur sem ég hafði kynnst á RÚV og kunnað vel við og mig langaði til að styðja hann. Í vinahópnum bauð Guðrún Ögmundsdóttir sig fram. Mér hefur alltaf fundist hún yndisleg og vildi allt gera til að styðja hana svo ég skráði mig þá í Samfylkinguna.

Í áramótaskaupi var ég eitt sinn fenginn til að leika stjórnmálamann í borginni sem átti að vera hluti af Tjarnarkvartettinum. Ég hafði ekki hugmynd um hvaða fyrirbæri þessi kvartett væri. Ég vissi hver Gísli Marteinn var, en ég vissi ekkert um borgarpólitík eða þennan kvartett.

Það er ríkjandi tilhneiging að taka hluti óþarflega alvarlega. Lífið er uppfullt af alvöru en svo er allur þessi tilbúni alvarleiki. Eins og þetta fréttablæti okkar Íslendinga. Það eru fréttir á klukkutíma fresti á landi þar sem aldrei gerist nokkur skapaður hlutur. Um leið verður til stórfrétt ef trjónukrabba rekur á fjörur í Berufirði. Það eru vissulega alvarlegir hlutir að gerast í heiminum eins og í Norður-Kóreu og Sýrlandi. En ansi margt sem gerist er ekki gríðarlega alvarlegt.

Það sem mér finnst skipta máli er að gera eitthvað óvenjulegt, koma skemmtilega á óvart og vera öðruvísi. Það mætti vera miklu meira af því. Mér finnst hlutirnir vera að fara æ meira í það að allt sé eins. Og þá er algjörlega lífsnauðsynlegt að finna upp á surprise-partíum.“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn
Fókus
Fyrir 2 dögum

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun
Fókus
Fyrir 4 dögum

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“
FókusLífsstíll
Fyrir 5 dögum

Dekura: Einstök þjónusta í umsjón leiguhúsnæðis

Dekura: Einstök þjónusta í umsjón leiguhúsnæðis
Fókus
Fyrir 5 dögum

Plötusnúðarnir Sunna Ben og Katla velja Topp 10 uppáhalds lögin: Eru oftast í búrinu þegar þær eru í bænum

Plötusnúðarnir Sunna Ben og Katla velja Topp 10 uppáhalds lögin: Eru oftast í búrinu þegar þær eru í bænum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Grýla étur ungabarn lifandi og Bjarni Ben treður sér í nábrók: Hvað gengur á í höfðinu á þér Þrándur?

Grýla étur ungabarn lifandi og Bjarni Ben treður sér í nábrók: Hvað gengur á í höfðinu á þér Þrándur?
Fókus
Fyrir einni viku

11 ára gamall sonur Rikku sýnir meistaratakta sem skurðlæknir: „Framtíðin er í höndum unga fólksins,“ segir mamman stolt

11 ára gamall sonur Rikku sýnir meistaratakta sem skurðlæknir: „Framtíðin er í höndum unga fólksins,“ segir mamman stolt
Fókus
Fyrir einni viku

Bótoxaði Meghan Markle (36) yfir sig?: Internetið andar í poka yfir andlitinu á hertogaynjunni af Sussex

Bótoxaði Meghan Markle (36) yfir sig?: Internetið andar í poka yfir andlitinu á hertogaynjunni af Sussex